Þeir sem einungis hafa lesið fyrirsagnir í fjölmiðlum og stutt skilaboð á samfélagamiðlum gætu haldið að Ísland væri u.þ.b að verða rafmagnslaust. Sem betur fer er ástandið annað og betra. Engin þjóð í heiminum framleiðir jafn mikið rafmagn á íbúa og Íslendingar. Það er raunar svo mikið að við getum ráðstafað 80% orkunnar til fáeinna orkufrekra fyrirtækja. Þessi fyrirtæki hafa einmitt komið sér fyrir á Íslandi vegna þess að orkuverðið er mjög hagstætt miðað við það sem þeim býðst annarsstaðar. Því er engin ástæða til að hafa áhyggjur af að ekki sé eða verði til nægjanlegt rafmagn til að lýsa upp heimili landsmanna eða að lífskjörum verði ógnað með rafmagnsleysi.
Er þá ekkert að? Jú! Það er tilfallandi vandamál fyrir loðnubræðslur og álver, sem hafa meðvitað samið um að nýta svokallaða skerðanlega orku (mætti kannski kalla „umfram afl“) á góðum kjörum, að sumarið 2021 rigndi lítið á hálendinu suðvestan Vatnajökuls. Slíkt gerist reglulega og er því ekki stórfrétt. Það dró svo enn frekar úr aflgetu kerfisins að bilun varð í einni vatnsaflsvirkjun og reglulegt viðhald er í gangi í einni jarðvarmavirkjun. Við þetta tímabundna ástand þarf að sýna fyrirhyggju beita ákvæðum um að stöðva sölu á skerðanlegri orku – sem orkufyrirtækin gera þegar verður að tryggja föstum kaupendum þá raforku sem þeir hafa samið um.
Þarf meira rafmagn fyrir orkuskiptin?
Orkuskiptin taka tíma og gerast í áföngum. Við erum í fyrsta áfanga, orkuskipti í mannflutningum á landi. Þau ganga nokkuð vel, en þeim þarf að hraða til að ná 55% markmiðinu um samdrátt 2030 og jarðefnaeldsneytislaust Ísland 2040, sem ný ríkisstjórn hefur sett á dagskrá. Raforkunnar, sem þarf til fyrsta áfanga í orkuskiptunum, má afla með því að bæta nýtni orkunnar og styrkja flutningsnetið (skv. upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur). Þetta tvennt er langbesti virkjunarkosturinn sem stendur til boða!
Í nýlegri skýrslu sem birtist á heimasíðu Samorku segir að til að framleiða það rafeldsneyti sem þarf til að klára orkuskipti í haftengdri starfsemi er áætlað að árlega þurfi um 3.5 TWh af raforku, eða tæplega 20% þeirrar raforku sem framleidd er í dag. En ef tekst að nýta rafmagnið með beinum hætti verður orkuþörfin umtalsvert minni. Afskriftartími skipa er allt að 40 ára og margar nýjar og hagkvæmar lausnir eiga eflaust eftir að koma fram á þeim tíma. Hugsanlega verðu einhver stóriðja á Íslendi afskrifuð á þessum tíma þannig bundin raforka losnar til annara brýnna þarfa.
Ódýra orkan er hreint ekki svo ódýr
En hvað með alla hina sem vilja kaupa meiri orku til að skapa atvinnu og verðmæti fyrir þjóðarbúið? Landsvirkjun segist ekki geta svarað eftirspurn – að áhugasamir kaupendur séu handan við hornið. Þá er gott að hafa í huga að líklega er eftirspurn eftir „ódýrri orku“ óendanleg og því ómögulegt að mæta henni. Ef rafmagnsverð endurspeglaði þann óbeina kostnað sem felst í eyðileggingu íslenskrar náttúru er afar líklegt að eftirspurn eftir orku væri minni í dag en raun er.
Mengunarbótareglan var innleidd í íslensk lög 2012. Skv. henni skal sá er mengar bera kostnaðinn af því umhverfistjóni er af athæfinu hlýst. Því miður hefur reglunni ekki verið beitt við verðlagningu á rafmagni hérlendis, þrátt fyrir ráðleggingar OECD þar um.
Forgangsröðun í þágu mannlífs og náttúru
Það er engin ástæða til að óttast að velsæld á Íslandi framtíðar verði ógnað þó vöxtur í orkuframleiðslu verði takmarkaður næstu áratugi. Við sem þjóð höfum val. Annars vegar um leið mikillar orkuvinnslu sem mun spilla náttúru landsins enn frekar. Hins vegar leið betri nýtni og forgangsröðunar þar sem gætt er að vernd náttúru, víðerna og landslags og hlúð er að atvinnulífinu almennt. Er ekki tími þekkingarsamfélagsins runninn upp á Íslandi?
Almenn samstaða ríkir um það markmið að nýta orkulindir Íslands til nauðsynlegra umskipta í orkubúskapnum og mæta brýnum þörfum framtíðarinnar. En náttúruvernd og loftslagsvernd verða að haldast í hendur. Þar ætti því að vera forgangsverkefni að bæta nýtingu á fyrirliggjandi mannvirkjum, lagfæra flutningskerfið og forgangsraða í hvað orkan fer, til að skapa svigrúm til að leysa af hólmi jarðefnaeldsneyti í samgöngum á landi. Viðfangsefnið er leysanlegt án þess að verðmætri náttúru og landslagi verði fórnað undir stórkallaleg orkumannvirki. Ef þörf er fyrir frekari orkuöflun en nú er, þarf að meta vandlega hvar og með hvaða hætti það verður best gert. Rammaáætlun og vandað mat á umhverfisáhrifum sem mark er tekið á, mun leiða að farsælli niðurstöðu. Óðagot í virkjunaráformum vegna meints orkuskorts leiðir okkur í ógöngur og til sundurlyndis.
Höfundur er formaður Landverndar.