Það hefur verið skammt stórra högga á milli þegar mannréttindamál eru annars vegar, hér í Bandaríkjunum að undanförnu. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur flutt dramatískar ræður sorgar og sigra, með aðeins níu daga millibili, þar sem stærsta og dýpsta hugtak mannréttindabaráttunnar - jafnrétti - hefur verið hornsteinninn.
Fyrst eftir fjöldamorðið í AME kirkjunni í Charleston 17.júní, þar sem 21 árs gamall maður, Storm Dylan Roof, skaut níu svarta safnarmeðlimi til bana. Ákært hefur verið fyrir hatursglæp kynþáttahaturs. Viðbrögð Obama voru áhrifamikil og honum til sóma. Kirkjan á sér sögu sem er grafin í sorgarsögu kynþáttahaturs í Suður-Karolínu, en kirkjan er sigurstaður svartra, þangað sem þeir sóttu skjól og kraft, á tímum þrælahaldsins, einum versta kafla í ungri sögu Bandaríkjanna.
Obama steig fast niður til jarðar, og kæfði strax þær aumu kynþáttahatursraddir heimsku og þröngsýni, sem því miður hljóma stundum hátt í Bandaríkjunum, ekki síst á undanförnum mánuðum, þar sem obeldi hvítra lögreglumanna gagnvart svörtum hefur verið í brennidepli. Obama gerði það með málefnalegri og skynsamlegri pólitík; ákveðnum viðbrögðum þar sem inntakið var það, að kynþáttahatrið myndi ekki sigra.
Hin ræðan, sem flutt var í dag, þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði hjónabönd samkynhneigðra lögleg, var um sama hornstein mannréttinda; jafnréttið. Þessi sigur verður að teljast með þeim stærri í sögu mannréttinda í Bandaríkjunum, og hefur líka kostað miklar fórnir samkynhneigðra. Og líka hugrekki, eins og Obama kom inn á. Án hugrekkis og þrautseigju samfélags samkynhneigðra, í baráttunni við heimsku og þröngsýni, hefði niðurstaðan í dag aldrei orðið að veruleika.
Watch the President's full statement on the Supreme Court's ruling on marriage equality. #LoveWins http://t.co/nRBI49pQT5
— Barack Obama (@BarackObama) June 26, 2015
Margir sigrar bíða þess að vinnast þegar mannréttindabaráttan í Bandaríkjunum er annars vegar, með jafnrétti sem leiðarstefið. Því miður er víða brotið gegn svörtum og öðrum hópum, og stutt í hatur heimsku og þröngsýni. En niðurstaðan sem Hæstiréttur hefur nú staðfest, um réttindi samkynhneigðra, gefur von um að sigur geti unnist á öðrum vígvöllum mannréttindabaráttunnar í framtíðinni.