Undanfarna daga hefur verið mikil umræða á vöntun á jákvæðri umfjöllun um málefni líðandi stundar. Ég er hér mjög sammála þessu að sumu leyti. En það má ekki rugla saman gagnrýnni umræðu um spillingu í þjóðfélaginu og umfjöllun um jákvæða framvildu innan samfélagsins.
Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í Sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands.
Tökum sem dæmi ,,positive news” í Bretlandi sem var stofnað eftir því sem ég best veit 2001. Þetta var fyrst einungis prentaður miðill sem nú er einnig hægt að nálgast á netinu. Ég nálgaðist þetta blað á umhverfisráðstefnum og las frá a til ö með mikilli ánægju þegar ég bjó í Bretlandi. Áhersla fréttablaðsins var og er að benda á það jákvæða sem fram fer í samfélaginu – allt sem kemur að umhverfis- og sjálfbærnimálum, samfélaginu, samfélagslegu réttlæti, jafnrétti, hjálpar- og þróunarstarfi og skyldum atriðum. Svona blað og fréttamiðlun ættum við að stofna til á Íslandi. Ég hef rætt þetta við nokkra sem tóku því vel, en ekkert hefur farið af stað (enn!).
Á Íslandi ríkir ótrúleg hefð fyrir því að ekki eigi eða megi fjalla um þau mál sem betur mætti fara í þjóðfélaginu. Þetta var rætt um í Víðsjá á RUV í gær. Sem sé, gagnrýnin hugsun er illa séð eins og Helga Vala Helgadóttir fjallaði um í Kvennablaðinu í gær. Þetta hefur verið mjög í umræðunni sl. daga og má nefna áramótaræður leiðtoga þjóðarinnar – ekki ómerkilegra fólk en forsetinn, forsætisráðherrann, nýskipaður unhverfisráðherra og biskupinn – sem öll hafa lagt út frá því að umræðan sé allt of neikvæð í samfélaginu og að ekki sé horft á það jákvæða sem erlendir sérfræðingar og aðrir bendi á um Ísland.
En þessi mál eru alls óskyld! Að fjalla á jákvæðan máta um ósérhlífið fólk sem vinnur fyrir samfélagið og/eða umhverfið er eitt – en að þagga niður í umræðu um spillingu, innanbúðabrask, frændsemi með meiru er allt annað!
En þessi mál eru alls óskyld! Að fjalla á jákvæðan máta um ósérhlífið fólk sem vinnur fyrir samfélagið og/eða umhverfið er eitt – en að þagga niður í umræðu um spillingu, innanbúðabrask, frændsemi með meiru er allt annað! Nú fer fram mikil barátta um völdin á Íslandi eins og þær hamfarir sem hafa átt sér stað í DV undanfarna mánuði sýna fram á og Björn Þorláksson fjallar um í Akureyri vikublað 7. janúar.
Ég hvet alla sem vilja láta í sér heyra – ekki vera feimin. Komið með vandamálið upp á yfirborðið og vinnið að því með öðrum að bæta umræðuhefðina, réttlætið og samfélagið. Saman getum við breytt Íslandi til hins betra.