Það fer að styttast í það, segja ráðamenn þjóðarinnar, að íslenskir lífeyrissjóðir fái að fjárfesta aftur í útlöndum. Með því geta þeir aukið fjölbreytni eignasafna sinna og þá vonandi öryggi ávöxtunar og tryggt góðar greiðslur til lífeyrisþega. Það er því ástæða til að fagna þessum tækifærum. En hvað vita flestir lífeyrisþegar um þær fjárfestingar sem sjóðirnir leggja framlög þeirra í? Við fáum yfirlit um ávöxtun en litlar upplýsingar aðrar, að minnsta kosti hef ég ekki orðið þeirra vör, og hef þó verið aðili að einhverjum fimm sjóðum eða svo.
Lífeyrissjóðir um allan heim eru stórir fjárfestar. Á Íslandi eru þeir langstærstir á markaðnum, og auk þess langtíma fjárfestar þannig að það skiptir verulegu máli fyrir fyrirtæki að fá slíkt fjármagn til að byggja upp starfsemi sína, vaxa og dafna. Eftir reynslu hrunsins og margar misvitrar fjárfestingar hafa margir sjóðir á Íslandi gert gangskör í að hreinsa til heima hjá sér, samþykkt stefnu um stjórnarhætti í þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í og jafnvel fjárfestingarstefnu.
Má ekki fjárfesta í hverju sem er
Að lífeyrissjóðir velji og upplýsi um viðmið fyrir fjárfestingu er frekar nýtt á Íslandi, held ég. Ég kynntist þessu fyrst fyrir mörgum árum í Svíþjóð, þar sem þetta þótti sjálfsagt, en þegar ég nefndi þetta við eignarstýringarfólk á Íslandi fékk ég þau svör helst að markmið fjárfesta væri að ná sem hæstri ávöxtun – ekkert mætti skerða hana. Ég var og er ósammála. Ég vil ekki fjármagna skaðlega starfsemi af neinu tagi, hvort sem það er til dæmis vopnaframleiðsla, tóbakssala eða áfengissala, né styðja við stjórnvöld, til að mynda í gegnum skuldabréfakaup, sem bera ekki virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði og skoðanafrelsi, svo nokkuð sé nefnt.
Auðvitað geri ég mér grein fyrir að það getur verið allt annað en auðvelt að draga mörkin. En það þýðir ekki að við eigum ekki að reyna að sjá til þess að við leggjum okkar af mörkum að bæta ástandið en ekki auka skaðann – ef við erum ekki með í að leysa málin, erum við hluti af vandanum, eins og sagt er. Og í dag er það varla spurning hvað er stærsta ógnin og mesta vandamál okkar allra. Það er loftslagsbreytingar.
Hugarfarsbreyting sem ber að fagna
Það hefur verið vaxandi á síðustu árum að margir mjög stórir lífeyrissjóðir og háskólasjóðir, einkum í Bandaríkjunum, hafa ákveðið að losa sig úr fjárfestingum í leit að jarðefnaeldsneyti og vinnslu þess, meðal annars á þeim forsendum að kol, olía og gas, sem þegar hefur verið unnið og er til í geymslu ofanjarðar, nægir til að auka gróðurhúsavandann langt yfir þau vægu markmið sem hafa verið sett af alþjóðlegum vísindaráðum. Og til að nota sína peninga og áhrif frekar til að hvetja til aukinna rannsókna og þróunar á endurnýjanlegum orkugjöfum og ekki síst leiðum til að auka nýtingu þeirra.
Nýlega ákvað breska blaðið The Guardian að styðja þessa hreyfingu með átaki sem heitir „Keep it in the Ground“. Á örfáum dögum höfðu nokkur hundruð þúsund manns skrifað undir áskorun til tveggja stórra og mikilvægra rannsóknarsjóða í Bandaríkjunum og Bretlandi, Gates Foundation og Wellcome Trust, um að draga sig út úr fjárfestingum sem tengjast leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis. Framtakið virðist alls staðar hafa fengið byr undir báða vængi og alls staðar hafa menn fylkt sér undir merki þess. Þessir sjóðir eru stórir og áberandi; þeir marka stefnuna og aðrir fylgja eftir, og þess vegna er það mikilvægt að þeir taki af skarið.
Það er afskaplega uppörvandi að lesa það sem stuðningsmenn átaksins skrifa – og þeir eru ótrúlega fjölbreyttir: læknar sem hafa notið góðs af rannsóknarstyrkjum sjóðanna, verkfræðingar sem áður unnu fyrir olíufélög, ömmur í Kína, fjárfestingarráðgjafar, líffræðikennarar, háskólanemar og þúsundir annarra.
Áskorun til íslenskra lífeyrissjóða
Þjóðfélagið okkar er að breytast sem betur fer: það einfaldlega viðgengst ekki lengur að græða á viðskiptum, alveg sama í hvaða tilgangi, á þann hátt sem skaðar umhverfið, lífríkið og á endanum framtíð jarðar. Eins og svo mörg mál önnur, sem virtust vera óbreytanleg þangað til allt í einu að þau gengu ekki lengur, er eyðing jarðar í gegnum koltvísýringsmengun komin að því stigi þar sem skoðanameirihluti er að valda kúvendingu. Það er líka spurning um krónur í kassann: hver vill vera skilinn eftir með hlutabréf í olíufélagi þegar aðrir fjárfestar eru að yfirgefa það? Þessa spurningu fannst meira að segja seðlabankastjóra Bretlands ástæða til að láta Englandsbanka kanna sérstaklega. „Ekki er hægt að brenna mikinn meirihluta forðans í jörðu,“ varaði hann við, ef heimurinn ætlar að forðast skelfilegar loftslagsbreytingar.
Ég skora á íslensku lífeyrissjóðina að kynna sér málið, skoða sín eignasöfn, kanna hvaða fjárfestingar þeir hafa í jarðefnaeldsneyti og tengdum iðnaði og ákveða hvernig þeir geta losað sig sem fyrst við þær og í staðinn hjálpað til að ryðja brautina fyrir endurnýjanlega orkuframtíð.
Höfundur er þýðandi.