Í fyrri hluta greinarinnar, Kaka og kjörin A, minntist ég á margvíslegan fræðilegan orðhengilshátt og hentifræði um laun og efnahagsmál, sem yfirskyggir vitræna umræðu um kjaramál. Meginefnið var hins vegar í fyrsta lagi sú staðreynd að á síðustu árum eru launatekjur minni hluti þjóðarteknanna en áður var, í öðru lagi að misskipting fjármagnstekna er mikil og ójöfnuður í skiptingu launatekna hefur aukist og í þriðja lagi að aðgerðir stjórnvalda á síðustu árum hafa aukið misskiptingu og ójöfnuð. Bein tekjutilfærsla, auknar skattbyrðar almennings og skert þjónusta af þessum sökum skiptir mörgum tugum milljarða króna.
Kjarasamningar
Það er ekki líklegt að þessari stöðu verði snúið til betri vegar við samningaborðið. Það þarf einnig meira til en hefðbundið krukk í tekjuskattskerfið eða kanínur úr töfrahatti húsnæðismálaráðherra. Til þurfa að koma pólitísk úrræði sem taka á undirliggjandi þróun til aukins ójafnaðar, snúa henni við og sjá til þess að almenningur í landinu fái notið þeirra verðmæta sem verða til hér á landi í starfskjörum sínum eða með því að þau standi undir sameiginlegum útgjöldum.
Launagreiðendur geta þó ekki setið með hendur í skauti. Hluti þeirra hefur notið bata í þjóðarhag umfram aðra og tekjutilfærslan frá launatekjum í tekjur af rekstri og fjármagni hefur komið þeim til góða. Þeim ber að koma til móts við kröfur launamanna og þeir geta ekki skýlt sér á bak við hinn aumasta í hópnum með þeim rökum að hann geti ekki borgað meira án þess að fara á hausinn. Samtök launagreiðenda verða að láta af stalinískri miðstýringu launamála og skapa þannig forsendur fyrir því að hagkvæmni í rekstri, góðar efnahagsaðstæður og hagstæð viðskiptaskjör komi sér einnig vel fyrir aðra en þá sjálfa.
Hið opinbera hefur sem launagreiðandi valið það að vera hlutlaus þægur fylgisveinn SA og ekki rækt þá skyldu að byggja sjálfstæða kjarastefnu á raunhæfu mati á efnahagslegum forsendum og stefnu í mannauðsmálum. Úr vígi aðgerðaleysisins lætur það aðeins hrekjast með átökum sem bitna á þeirri þjónustu sem þeim ber að veita og stendur svo úrræðalaus þegar í óefni er komið. Ríki og sveitarfélög þurfa að móta raunverulega mannauðsstefnu og sjálfstæða starfskjarastefnu fyrir starfsmenn sína þar sem tekið er tillit til sérstöðu þeirra og þeirrar þjónustu sem þau veita.
Verkefni og ábyrgð stjórnvalda
Landsstjórnin getur ekki setið hjá í þeirri stöðu sem uppi er í kjarasamningasmálum ekki sem aðili að óleystum deilum og enn síður verandi sá sem ber pólitíska ábyrgð að þeim bakgrunni kjaraátakanna sem lýst er hér að framan. Stjórnvöld verða að grípa til ráðstafana sem beinast að rótum vandans en verða ekki skammærar skyndilækningar. Hefðbundið inngrip í kjarasamninga með dúsu í skattamálum eða úrbætum í einstökum málaflokkum dugar ekki og kann að reynast launamönnum eins og piss í eigin skó fallist þeir á slíkt.
Sérstakan vara þarf að hafa á gagnvart gylliboðum um lækkun skatta eins og nú er ýjað að svo sem hækkun persónuafsláttar eða lækkun skatthlutfalla. Lækkun tekjuskatts er lélegt innlegg í kjarabaráttu almennings nema fleira komim til. Með lækkun skatta mun sameiginlegur sjóður almennings verður af fé sem lækkuninni nemur. Ríkissjóður verður þá annað hvort að skera niður þjónustu við almenning eða innheimta aðra skatta til að halda henni uppi. Hagnaður almennings af skattalækkun er því enginn nema henni fylgi ákvörðum um að afla tekna sem lækkuninni nemur hjá öðrum en almennu launafólki t.d. með skatti á stóreignir og ofurtekjur.
Gegn misskiptingu og ójöfnuði
Vilji stjórnvöld raunverulegar kjarabætur til handa almenningi verða þau að að stöðva og vinda ofan af þróun í skiptingu þjóðarteknanna launum í óhag og stöðva þá þróun til ójafnaðar í tekjum og eignum sem verið hefur á undanförnum árum. Sé það ekki gert munu launþegar bítast í kjarasamningum um óbreytta fjárhæð til skiptanna og að lokum sitja uppi með sárt ennið. Markviss jöfnunarstefna getur hins vegar skapað traust og verið forsenda fyrir hagvexti og hagsæld fyrir alla. Samtök launafólks, sama hver þau eru, eiga að gera stjórnvöldum ljóst að stefna og raunveruleg skref til jöfnuðar séu forsenda hverra þeirra kjarasamninga sem gerðir verða.
Framkvæmd slíkrar stefnu er ekki ýkja flókin. Markmið hennar er að tryggja að sem stærstur hluti af þeim tekjum sem verða til við atvinnustarfsemi í landinu komi í hlut almennings sem laun eða renni í sameiginlega sjóði hans. Stærsta verkefnið nú er að tryggja að arður af þeim náttúruauðlindum sem þjóðin á renni til almennings en ekki til fárra útvaldra og erlendra auðhringja. Því til viðbótar þarf að sporna við óhóflegri auðsöfnun á fáar hendur og vinna gegn tekjuójöfnuði og/eða endurdreifa tekjum með skattkerfinu. Markvissar aðgerðir á þessum vettvangi geta á stuttum tíma fært almenningi tekjur eða ígildi tekna sem nemur tugum eða hundruðum milljarða á ári.
Auðlindaarður, endurgjald fyrir fénýtingu náttúruauðlinda
Fénýttar náttúruauðlindir landsins skila á ári hverju arði umfram allan tilkostnað sem er a.mn.k. 80 milljarðar króna. Hann renna að mestum hluta til eigenda stórútgerða og eigenda áliðjuvera. Áætla má að auðlindaarður í sjávarúrvegi, þ.e. hagnaður umfram það sem þarf til að greiða allan tilkostnað og eigendum eðlilegan arð af fjárfestingu sinni, sé 50 - 55 milljarðar króna á hverju ári miðað við árferði og viðskiptakjör síðustu ára. Að lágmarki ætti að gera þá kröfu að eigandi auðlindarinnar fengi 60 - 80% af umframarðinum sem veiðigjöld eða tekjur af leigu aflaheimilda. Með því fengjust 30 - 40 milljarðar sem tekjur í ríkissjóð í stað ca 10 milljarða eins og nú er.
Raforkuframleiðsla til stóriðju skilar nú engum arði af orkuauðlindinni til almennings. Jafnvel þótt arður LV gæti vaxið í 20 - 30 milljarða felst ekki í því arður af auðlindinni. Sú fjárhæð dugar vart til að vera viðunandi ávöxtun af fjárfestingum í orkumannvirkjum og er trúlega lægri en t.d. ávöxtun lífeyrissjóðanna í erlendum hlutabréfum. Vegna langtíma orkusamninga eru ekki líkur á því að í bráð verði sú breyting að orkusala til stóriðju skili arði af auðlindinni til þjóðarinnar. Meðan svo er geta íslensk stjórnvöld tryggt sér hluta af þeim arði sem nú streymir óheftur til eigenda áliðjuveranna með því að leggja skatt á orkusöluna. Slíkt var gert fyrir nokkrum árum og gafst vel að öðru leyti en því að skatturinn var allt of lágur. Sá auðlindaarður sem álverin stinga nú í eigin vasa gæti verið 20 - 25 milljarðar króna. Með sömu kröfu um hlutdeild þjóðarinnar og í sjávarútvegi hér að framan, þ.e. 70 - 80%, ætti að stefna að því að orkuskattur álveranna verði 15 - 20 milljarðar króna á ári meðan ekki tekst að fá eðlilegt markaðsverð fyrir þá orku sem þau kaupa.
Með framangreindu mætti á stuttum tíma tryggja ríkissjóði, þ.e. almenningi 35 - 50 milljarða í tekjur af þeim auðlindum sem hún á og hefur leyft öðrum að fénýta. Þessar auknu tekjur má nota til að lækka skatta á almenning og eða bæta opinbera þjónustu.
Skattlagning auðsöfnunar
Misskipting eigna og ójöfnuður í tekjum eru öndverðar hliðar á sama peningi. Ráðstafanir til að draga úr samþjöppun eignarhalds og til að jafna tekjuskiptingu í þjóðfélaginu haldast því í hendur. Í markaðssamfélagi hefur ríkisvaldið takmarkaðar leiðir til að hafa bein áhrif á skiptingu eigna og tekna. Það er ekki líklegt að lagaboð eða reglur geti haft varanleg áhrif. Líklegra er að árangri megi ná með skattalegum ráðstöfunum til að takmarka auðsöfnun og jafna tekjur.
Auðsöfnun byggist á miklum tekjum viðkomandi einstaklings (hvort sem hún kemur fram á skattaskýrslum eða ekki) eða á erfðum sem er eitt form tekjuauka. Skattalegar ráðstafanir til að takmarka auðsöfnun yrðu því að vera fólgnar í því að skattleggja stóreignir. Auk þess að draga úr hvata til auðssöfnunar er slík skattlagning líka nauðsynleg til að gæta jafnræðis í skattlagningu tekna því tekjur af stóreignum koma að litlu leyti fram í skattskyldum tekjum. Á það t.d. við um óútleystan rekstrahagnað félaga, gengishækkun hlutabréfa, eignarhluta og verðbréfa, söluhagnað sem nýtur skattfrestunar o.fl.
Stóreignaskattar eru víða lagðir á og voru lagðir á hér á árunum 2010 til 2014 sem auðlegðarskattur. Tekjur af honum síðasta árið voru tæpir 11 milljarðar króna frá innan við 3% framteljenda sem greiddu þann skatt. Fyrir utan það að skila miklum tekjum sýndi sig að með honum og hækkuðum tekjum á háar fjármagnstekjur tókst að jafna skattbyrði og ná því að skattbyrði af beinum sköttum í efsta hluta tekjuskalans væri ekki lægri en meðalskattbyrði allra eins og sjá má af meðfylgjandi línuriti sem sýnir breytingu á skattbyrði milli 2009 og 2010, þ.e. fyrir og eftir að fjármagnstekjuskattur var hækkaður og auðlegðarskattur tekinn upp. Tvímælalaust er að endurupptaka auðlegðarskatts í einhverju formi er virk leið til að auka hlutdeild hins almenna borgara í þjóðartekjum og jafna tekjuskiptinguna. Er augljóst að með honum má auðveldlega ná 10 - 15 milljörðum króna tekjur.
Jöfnun og endurskipting launatekna
Torvelt er að jafna launatekjur með boðum og bönnum. Auðlegðarskattur getur unnið gegn auðsöfnum og þannig stuðlað að jafnari tekjuskiptingu. Sömu markmiðum þjónar einnig að leggja skatt á ofurtekjur og að stoppa í ýmsar holur í skattkerfinu sem nýttar eru af tekjuháum einstaklingum einkum fjárfestum og sjálfstætt starfandi fjármála- og lagasérfræðingum. Í stað þess að gera tilraunir með að takamarka óreglubundnar launsgreiðslur svo sem bónusa yrði árangursríkara að gera þær ófrádráttarbærar í skattskilum greiðandans eða leggja á þær háan staðgreiðsluskatt. Til samræmis við það mætti einnig leggja sérstakan tekjuskatt á mjög háar tekjur t.d. 20 m.kr. á ári og þar yfir. Með því og fleiri ráðstöfunum mætti auka tekjujöfnun skattkerfisins enn frekar og tryggja meiri jöfnuð skattkerfisins í heild.
Lokaorð
Vaxandi misræmi er í skiptingu þjóðartekna milli þeirra sem eiga og hinna sem hafa lífsviðurværi af vinnu. Sá hluti sem til skipta er milli launamanna hefur farið minnkandi á síðustu árum. Hluti þessarar þróunar stafar af því að tekjur af náttúruauðlindum hafa vaxið en renna ekki til þjóðarinnar sem eiganda þeirra. Við þetta bætist vaxandi ójöfnuður í skiptingu tekna. Stjórnvöld hafa á umliðnum árum aukið þennan ójöfnuð og dregið úr endurskiptingu tekna.
Ójöfnuður og misskipting tekna eru bakgrunnur þeirra átaka sem nú eru á vinnumarkaði. Hlutur stjórnvalda í því hvernig komið er mikil. Þau hafa leynt og ljóst leitt þá þróun til misskiptingar sem orðin er og aukið ójöfnuð meðal borgaranna. Ábyrgð þeirra er mikil og skylda til að bregðast við rík.
Stjórnvöld geta lagt mikið að mörkum til að skapa forsendur fyrir kjarasamningum sem samrýmast hagsmunum þjóðarinnar. Til þess þurfa þau að sýna dug, djörfung og hug og grípa þegar til ráðstafana sem:
- tryggja þjóðinni réttmætan skerf af fiskveiðiauðlindinni
- tryggja þjóðinni réttmætan skerf af þeim orkuauðlindum sem nýttar eru til stóriðju
- draga úr miðskiptingu auðs
- auka tekjujöfnun skattkerfisins
Til þess eru færar leiðir.