Nýtt fjárlagafrumvarp staðfestir áratuga aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í húsnæðispólitík. Frumvarpið fylgir hefð, sem má rekja aftur til upphafs stríðsáranna á Íslandi. Hefðin er að meðhöndla leigjendur eins og útigangshross í íslenskum húsnæðismálum.
Síðustu 75 ár hefur hlutfall séreignar á íslenskum húsnæðismarkaði verið með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli. Þessi staðreynd var einn stærsti orsakavaldur íslensku fasteignabólunnar sem sprakk í bankahruninu 2008. Þá tóku bankarnir með sér stokkbólginn húsnæðismarkað í fallinu.
Þótt ótrúlegt megi virðast var fasteignamarkaðurinn eða húsnæðispólitíkin aldrei rannsökuð á sama hátt og hrun bankakerfisins. Þegar miðbær Reykjavíkur brann til kaldra kola fyrir einni öld síðan breyttist byggingareglugerð bæjarins í kjölfar brunans.
Bannað var að byggja samföst timburhús vegna eldhættu. Í yfirfærðri merkingu var húsnæðismarkaðurinn endurbyggður í óbreyttri mynd eftir bankahrunið.
Þessum markaði má í dag líkja við samstæðu af skrjáfþurrum timburhjöllum rígnegldum við bankakerfið. Íslenska húsnæðismódelið er í raun gjaldþrota. Birtingarmyndin er óvirkur Íbúðalánasjóður, þúsundir yfirskuldsettra heimila og handónýtur leigumarkaður.
Engu að síður endurbyggja stjórnvöld þessa kerfisvillu eins og ekkert hafi í skorist. Íslenskur leigumarkaður er ein stór skammtímaredding, þar sem Pétur leigir Páli út íbúð sína í nokkra mánuði í senn.
Þessu ástandi vilja stjórnvöld viðhalda með því að veita húsnæðiseigendum skattaafslátt fyrir að leigja út húsnæði. Þetta er gott dæmi um hve pikkföst stjórnvöld eru í hjólförum séreignastefnunnar. Það vottar ekki fyrir hugarfarsbreytingu í húsnæðismálum.
Allt frá hruni hafa stjórnvöld eytt milljarðatugum af almannafé til að viðhalda ýktu séreignarhlutfalli á húsnæðismarkaði. Skuldaleiðréttingin ein og sér myndi duga fyrir uppbyggingu á stóru íbúðarhverfi á borð við Breiðholt, með þúsundum íbúða.
Á hinum endanum dugar fjárveiting til félagslegra íbúða fyrir einni íbúðarblokk. Þörfin á ódýrum íbúðum telur tugi þúsunda á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert bólar á trúverðugum áætlunum um uppbyggingu „Nonprofit“ leigumarkaðar sem er vel þekktur t.d. í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi.
Fjórflokkurinn er buxnalaus í húsnæðismálum. Loforð í húsnæðismálum um uppbygggingu á leigumarkaði eru samin af almannatenglum.
Þessi Pótemkíntjöld eru svo geymd í skúffu velferðarráðuneytisins milli kosninga. Fjárlagafrumvarpið fylgir þeirri hefð fullkomlega.
Keisarinn í húsnæðismálum er kviknakinn.