Höfuðborg Kína stendur vissulega ekki í björtu báli en hættumerkin eru mörg: Tómar íbúðir hafa hrannast upp á síðustu árum. Í mörgum tilvikum hefur einnig verið offjárfest í mannvirkjum og verksmiðjum. Gruggugt skuldafen óformlega bankakerfisins er byrjað að soga í sig máttinn úr atvinnulífinu. Hlutabréf falla í verði. Þá horfir illa um útflutning. Til að spyrna á móti fær júanið að síga. Ráðamenn óttast að ef hagvöxtur verði undir áætlunum aukist atvinnuleysi verulega og grafi undan lögmæti þeirra til að fara einir með völdin. Í breiðara samhengi held ég að við þurfum öll að óttast ef annað stærsta hagkerfi heims og mótor hagvaxatar í heiminum síðustu ár brennur yfir.
Þrátt fyrir þetta lætur enginn á neinu bera. Aðalfréttin í kínverska sjónvarpinu er oftast langdregið myndband af leiðtogum landsins að taka í höndina á hverjum tignum erlendum gestinum á eftir öðrum. Eða þá að þeir eru úti í sveit að kynna sér praktísk vandamál bænda, veita góð ráð við uppskerustörfin og klappa á bakið á gömlum kempum. Önnur frétt gæti verið um að tilteknir vondir blaðamenn hafi verið handteknir fyrir að tala markaðinn niður eða dreifa óstaðfestum orðrómi um slæma stöðu hagkerfisins á samfélagsmiðlunum.
Þriðja fréttin svo kannski um Hersýninguna miklu og aðgerðir til að tryggja að himinnin verði heiður og blár er drápstólin koma rúllandi eftir Breiðstræti friðarins (Changan Jie). Stefnt er að svokölluðum „APEC-bláum“ lit en það er sá litur er sást á himni meðan leiðtogar Asíu-Kyrrahafsríkja (APEC-ríkjanna) höfðu viðdvöl í Peking í fyrrahaust til að ræða heimsmálin. Eins og þá verður notast við blöndu af bönnum og flóknum umferðarreglum til að gera almenningi nánast ómögulegt að komast leiðar sinnar um borgina. Við það lamast atvinnulífið og dregur um leið úr loftmengun.
Í erlenda horninu (5 mínútur í lok hálftíma frétta) breytast áherslurnar skyndilega: Sjá má tíðindi um stórslys og mannskaða, kynþáttaóeirðir í Bandaríkjunum eða uppþot í Evrópu. Innlend vandamál hafa þannig aldrei neinar samfélagslegar afleiðingar í kínverskum fjölmiðlum. Þeim tengist aldrei nein bylgja mótmæla sem setur stjórnvöld í bobba. Í mesta lagi er fundinn einhver skýrt afmarkaður blóraböggull. Lýðræðisríki Evrópu og Ameríku eru hins vegar stútfull af kerfislægum samfélagslegum vandamálum.
Á leikvangi verkamannanna
Þó að ég sé fyrst og fremst sófa-stuðningsmaður Peking varðliðanna lét ég verða af því að fara á völlinn fyrr í sumar. Leikvang verkamannanna. Óhætt er að segja að ég varð fyrir miklum hughrifum. Stemmingin var gríðargóð. Miklu betri en ég hef t.d. upplifað á Upton Park í Lundúnum. Miðinn kostaði ekki nema sem svarar um 2 þús. kr. Útsýnið úr stúkunni stórkostlegt (þrátt fyrir hlaupabrautina). Tugþúsundir áhorfenda voru vel með á nótunum. Sungu og hoppuðu eins og á karnivali. Í hálfleik tók svo að rigna yfir mig súkkulaðibitum. Þegar ég sneri mér við sá ég að ungur maður hafði kropið á kné fyrir fagurri snót. Það voru vinir og vandamenn sem stóðu fyrir nammiregninu turtildúfunum til heiðurs.
„Jahérna,“ sagði ég við félaga minn sem kallar ekki allt ömmu sína í fótboltanum og er mjög vel að sér þegar kemur að alþjóðlegum samanburði á þessu sviði. Kannski hefur hann séð á mér að ég var eiginlega of gáttaður á taumlausri gleðinni allt um kring. Að ég færi e.t.v. að draga hæpnar ályktanir af þessu öllu saman. „Minnir mig svolítið á Strumpaland,“ sagði hann.
Ég velti þessu fyrir mér: Í fyrsta lagi, það er varla við því að búast að umbæturnar í boltanum er forseti Kína (strumpurinn með rauðu húfuna) boðaði í vor séu þegar farnar að skila sér með svona gasalega áþreifanlegum hætti beint inn í áhorfendastúkurnar og sjálfsprottið grasrótarstarf klúbbana.
Í öðru lagi, ég hef heyrt að það er stundum ætlast til þess í þessu landi að almenningur (strumparnir með hvítu húfurnar) taki með lifandi hætti þátt í „jákvæðum“ viðburðum /forðist „neikvæða“ til að ráðandi öfl missi ekki andlitið -- sbr. óöfundsverð staða aðalstrumpsins þegar að Kjartan seiðkarl fann upp stelpu-stump til að rugla stráka-strumpana í ríminu. Eftir leikinn settumst við félagarnir inn á knæpu skammt frá. „Já,“ sagði ég „þú meinar það“. Síðan svolguðum við í okkur sitthvorum bjórnum. Varðliðarnir höfðu lagt gestina frá Chongqing 2:0. Það er jú margt sem ég skil ekki í þessu landi. En það er alla vega vel við hæfi að fagna sigri sinna manna.