Á undanförnum áratugum hefur Landsvirkjun haft augastað á Þjórsárverum og mörg áform fyrirtækis um uppistöðulón þar komist á rekspöl. Fram til þessa hefur tekist að koma í veg fyrir áform sem spillt hefðu verunum vestan Þjórsár – en austanmegin voru gerð um 30 km2 lón sem breyttu ásýnd, höfðu talsverð áhrif á náttúrufar svæðisins og minnkuðu rennslið í efri hluta árinnar um helming.
Heimamenn í Gnúpverjahreppi, sem þekkja dýrð Þjórsárvera manna best, lögðu mikla áherslu á verndun þeirra. Víðtækar rannsóknir á náttúrufari svæðisins sýndu að verndargildi Þjórsárvera er einstakt. Fyrsta tillaga um verndun kom fram 1961 en síðari rannsóknir veittu forsendur og sterk rök fyrir ákvörðunum um friðlýsingu, bæði innan Náttúruverndarráðs og rammaáætlunar. Hér var því hægt að setja punktinn eftir margra áratuga baráttu fyrir fyrir verndun Þjórsárvera. En vorið 2022 tók Alþingi tók skarpa beygju í málinu, þegar meirihluti þingmanna hunsaði öll fagleg rök og kom málinu aftur á dagskrá með því að taka Kjalölduveitu[1] úr verndarflokki, eins og verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar hafði lagt til. Nú bíður það verkefni náttúruverndarfólks og heimamanna í Gnúpverjahreppi, með liðsinni náttúruvísindindanna, að sameinast í baráttunni gegn þessum áformum. Þá er gagnlegt að rifja stuttlega upp það helsta í baráttusögunni undanfarna áratugi[2].
Þjórsárver eru þjóðargersemi
Þjórsárver eru veröld andstæðna. Jökullinn og vatnið sem frá honum streymir sem ár, lækir, kvíslar og tjarnir, eru lífæð gróðurs og dýra. Á þeim svæðum sem lífæðin nær ekki til gapa auðnir og eyðimörk. En í verunum er gróður hins vegar samfelldur, öflugur og fjölbreyttur og fuglar fylla loftin. Víða undir gróðrinum er sífreri sem mótar fagurt munstur í landinu. Landslagið er stórfenglegt! Kerlingarfjöll í vestri, bungur Hofsjökuls í norðri og austar Arnafell mikla. Sprengisandur og Tungnafellsjökull taka við þegar litið er til austurs. Í fjarska gnæfa Vatnajökull og Hágöngur sem vörður í landinu. Þetta eru mögnuð víðerni. Í greiningu rammaáætlunar voru verin metin sem eitt af verðmætustu svæðum hálendisins. Að hjarta Þjórsárvera fara ekki margir, en í jaðrinum er talsverð umferð. Verin gætu orðið einn af hornsteinum Hálendisþjóðgarðs. Ef marka má þar til bæra erlenda sérfræðinga, gæti svæðið og umhverfi þess átt heima á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna ásamt Þingvöllum, Surtsey og Vatnajökulsþjóðgarði.
Friðunarbarátta bar árangur
Umræðan um verndun eða virkjun Þjórsárvera hófst á sjötta áratug síðustu aldar með grein Finns Guðmundssonar fuglafræðings í Náttúrufræðingnum. Þar segir hann svæðið svo einstakt sem landslag, gróðurfar og dýralíf, að frá fræðilegu og menningarlegu sjónarmiði teldi hann það „höfuð nauðsyn að þar verði engu raskað.“[3] Fimmtíu ár eru liðin frá því að fjölmennur fundur í Árnesi í Gnúpverjahreppi þann 9. mars 1972 sýndi einhug heimamanna og lýsti yfir algjörri andstöðu við áform um uppistöðulón i Þjórsárverum. Sá viðburður og stíflusprengja Mývetninga, sem hristi rækilega upp í samfélaginu, voru tímamót í náttúruverndarbaráttu á Íslandi.
Vísindamenn lögðu grunninn að haldgóðum rökum fyrir vernd Þjórsárvera. Rannsóknir hófust 1971 og var Arnþór Garðarsson í forsvari[4]. Á grunni þeirra rannsókna byggði friðlýsingin 1981. Önnur straumhvörf voru niðurstöður rannsókna Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, sem hófust eftir 1981 og stóðu í um áratug. Niðurstöðurnar styrktu enn frekar vísindaleg rök fyrir friðlýsingunni og reyndust haldgóð rök gegn virkjunaráformum, enda urðu þær grundvöllur neikvæðrar afstöðu bæði Þjórsárveranefndar og Náttúruverndar ríkisins afstöðu gagnvart tillögu um Norðlingaölduveitu
Náttúruvísindamenn höfðu þegar lagt fram haldbær gögn um mikilvægi Þjórsárvera en Gnúpverja fundurinn í Árnesi 1972 var án efa þungt lóð á vogarskálar verndunar. Í framhaldinu vann Náttúruverndarráð gott starf og að lokum náðist sátt árið 1981 um að vernda hluta svæðisins. Landsvirkjun lét þá tímabundið af ásókn í vatnið vestan Þjórsár, hóf vinnu við Kvíslaveitu sem safnaði saman vatninu austan Þjórsár og hugði einnig á landvinninga á Eyjabökkunum norðan Vatnajökuls, hugmynd sem síðar var aflögð með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Náttúruverndarfólk var þá vongott um að Þjórsárver vestan Þjórsár væru komin í skjól, enda höfðu niðurstöður rannsókna Þóru Ellenar, sem fram komu árið 1994, staðfest verndargildi Þjórsárvera og studdu það mat að ekki mætti virkja þar án þess að spilla Þjórsárverum.
Ný atlaga Landsvirkjunar
Varla hafði Landsvirkjun lokið við að reisa Kvíslaveitu þegar fyrirtækið, þrátt fyrir niðurstöður rannsókna Þóru Ellenar, sóttist aftur eftir að fá að virkja vatnið í Þjórsárverum vestan Þjórsár með Norðlingaölduveitu. Það auðveldaði þá ásókn að fyrst Náttúruverndarráð og síðar Náttúruvernd ríkisins, sem tók við hlutverki þess, voru lögð niður. Umhverfisstofnun tók við verkefnum þessara stofnana árið 2002 og tók þá afdrifaríku ákvörðun að heimila Landsvirkjun frekari undirbúning að Norðlingaölduveitu,[5] en friðlýsingarákvæðin frá 1981 heimiluðu það ef rannsóknir sýndu að það spillti ekki Þjórsárverum.
Heimamönnum, undir forystu Más Haraldssonar oddvita, var ekki skemmt við þessa nýju atlögu að verunum. Þjórsárveranefnd undir stjórn Gísla Más Gíslasonar prófessors lagði fram vísindaleg rök til varnar hinum verðmætu Þjórsárverum en stjórnmálaleiðtogar þrýstu á einstaka nefndarmenn að láta undan. Náttúruvernd samtök höfðu á þessum tíma eflst og lögð lóð á vogarskál verndunar. Samstaðan um verndun var því víðtæk; fræðasamfélagið, heimamenn, Þjórsárveranefnd og náttúruverndarsamtök.
Ekki tókst atlaga Landsvirkjunar að Þjórsárverum í þetta sinn frekar en áður. Málið stoppað í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2006 þar sem úrskurður Jóns Kristjánssonar setts umhverfisráðherra vegna kæru sem fram hafði komið, var að hluta dæmdur ólögmætur. Þrátt fyrir sífelldan þrýsting Landsvirkjunar og virkjanasinnaðra stjórnvalda varð niðurstaða rammaáætlunar 2[6] á sama veg; áhrifasvæði Norðlingaölduveitu var sett í verndarflokk. Voru verndarsinnar nú vongóðir um að árásarþrek Landsvirkjunar færi dvínandi.
Landsvirkjun brýnir vopnin enn á ný
Því miður tók Landsvirkjun fljótt aftur upp þráðinn og kynnti til sögunnar fleiri útgáfur af veituframkvæmdum rétt sunnan við friðlandsmörk Þjórsárvera. Nýjasta hugmyndin, og sú sem Alþingi tók úr verndarflokki í byrjun sumars, gengur undir nafninu Kjalölduveita[7]. Hugmyndin er að veita vatni úr Þjórsá til austurs svo það nýtist til raforkuframleiðslu í fyrirliggjandi orkumannvirkjum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Til þess þarf að gera tæplega 3 km2 lón við jaðar friðlandsins og skurði austur fyrir Þjórsá. Dæla þarf vatninu upp í Þórisvatn en vatnsborð þess liggur hærra en lónsins. Fossarnir fögru í efrihluta Þjórsár, m.a. hin einstaki foss Dynkur, yrðu með þessu að sprænum.
Atlaga að Þjórsárverum í boði Alþingis
Verkefnastjórn þriðja áfanga rammaáætlunar taldi Kjalölduveitu aðeins nýja útgáfu af Norðlingaölduveitu og áhrifasvæði hennar ætti því heima í verndarflokki. Landsvirkjun hefur, þrátt fyrir þessa niðurstöðu, haldið Kjalölduveitu til streitu – já, Landsvirkjun hefur beitt sér af þunga gagnvart stjórnvöldum og þingmönnum í því skyni að fá þessi áform í gegn. Þessi þrýstingur Landsvirkjunar á eflaust ríkan þátt í því að meirihluti Alþingis fór að tillögu Landsvirkjunar án þess að leggja fram faglegan rökstuðning, sem bera að gera skv. lögum þar um. Áhrifasvæði Kjalölduveitu var flutt úr verndarflokki í biðflokk. Með þeirri ákvörðun hafa ríkisstjórnarflokkarnir stofnað til áframhaldandi átaka um verndun Þjórsárvera.
Baráttan heldur áfram
Náttúruverndarfólk hefur oft ekki haft erindi sem erfiði í baráttunni gegn þeim sem vilja byggja groddaleg mannvirki sem spilla verðmætu lífríki, landslagi og víðernum. Engu að síður sýnir baráttan fyrir verndun Þjórsárvera að vandaðar vísindarannsóknir, baráttuþrek, úthald og samstaða heimamanna og náttúruverndarsamtaka getur skilað árangri.
Núverandi áformin um Kjalöldu segja margir að séu lítil og saklaus í samanburði við það sem stóð til fyrr á árum. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að ráðgerðar framkvæmdir yrðu afar ljótur blettur á einu verðmætasta víðerni hálendisins og tæki vatnið af fossunum fögru í efri hluta Þjórsár. Það hefur nú opinberast að fyrirtækið Landsvirkjun er óstöðvandi í viðleitni sinn til að fá vatnið úr Þjórsárverum og fossunum fögru til eigin nota. Við þessar raunir bætist það áfall að meirihluti Alþingismanna hefur með atkvæði sínu staðfest að þeir hafa ekki þrek til að standa með raunverulegri náttúruvernd þegar á reynir. Fögur orð og fyrirheit um vernd einstakrar náttúru eru léttvæg þegar virkjanamaskínan kallar á meiri raforku – og það í landi sem hefur nú þegar miklu meiri raforku til skiptanna en nokkur önnur þjóð. Það er alkunna að eftirspurn eftir ódýrri orku er óþrjótandi og eftirspurnin óseðjandi. Það er því enn verk að vinna til tryggja varanlega vernd Þjórsárvera. Baráttan heldur því áfram.
Höfundur er formaður Landverndar og situr í stjórn félagsins Vinir Þjórsárvera.
Heimildir og neðanmálsgreinar:
[1] Sjá upplýsingar um Kjalölduveitu á náttúrukorti Landverndar.
[2] Í þessari stuttu grein er stiklað á stóru. Í bók Guðmundar Páls Ólafssonar, „Hernaðurinn gegn landinu ÞJÓRSÁRVER“ er ágætt sögulegt yfirlit í kafla sem heitir Virkjana- og baráttusaga.
[3] https://timarit.is/page/1041234#page/n7/mode/2up
[4] Bretinn Peter Scott vann að rannsóknum á heiðargæsinni í Þjórsárverum á árunum 1951 til 1953. Með honum starfaði Finnur Guðmundsson fuglafræðingur sem gaf svæðinu sem heild heitið „Þjórsárver“. Þessar rannsóknir sýndu mikilvægi svæðisins fyrir heiðargæsastofninn.
[5] Undirbúningur Norðlingaölduveitu hófst með samningum um friðlýsingu árið 1981, enda heimilaði samningurinn það ef það spillti ekki Þjórsárverum að mati Náttúruverndarráðs. Tillögur um hæð lónsins tóku breytingum á tímabilinu og síðasta útgáfan, Norðlingaalda án setlóns, miðaðist við 567,5 m.y.s. Rammaáætlun II tók þá hugmynd af dagskrá.
[6] Svæðið hefur verið metið í öllum fjórum áföngum Rammaáætlunar, fyrst árið 2004, og niðurstaðan alltaf verið sú sama.
[7] Skýrsla Orkustofnunar frá 2015, R3156A Kjalölduveita: https://orkustofnun.is/gogn/Skyrslur/OS-2015/OS-2015-02-Vidauki-50.pdf