Í eins árs afmælisútgáfu Kjarnans, sem kom út 21. ágúst, var boðað að framundan væru mestu breytingar sem orðið hafa á starfsemi Kjarnans frá byrjun. Í dag stígum við fyrsta skrefið í þeim breytingum með því að kynna til leiks nýjan og öflugan fréttavef Kjarnans. Á honum mun ritstjórn Kjarnans sinna daglegri fréttaþjónustu samkvæmt sömu viðmiðum og við höfum starfað eftir hingað til, með áherslu á gæði og dýpt. Og við ætlum að vera þrælskemmtileg líka.
Nýi fréttavefurinn mun bjóða upp á reglulegar fréttir af öllu því sem ritstjórn Kjarnans telur að skipti mestu máli hverju sinni á innlendum og erlendum vettvangi, daglegar fréttaskýringar, hlaðvörp, myndbönd, pistla, aðsendar greinar, fullt af föstum liðum og allskyns aðra skemmtilega efnisflokka. Áfram sem áður mun stór hópur vandaðra pistla- og greinahöfunda sjá okkur fyrir efni auk þess sem til stendur að fjölga þeim enn meira.
„Tugþúsundir Íslendinga hafa þegar ákveðið að vera hluti af Kjarnasamfélaginu með því að fylgja okkur þetta fyrsta tæpa eina og hálfa ár. Það er okkar von að þeim muni fjölga hratt með þeirri stórsókn sem Kjarninn er nú að ráðast í."
Í dag fór líka í fyrsta sinn daglegur fréttapóstur Kjarnans til þeirra sem skráðir eru á póstlista Kjarnans. Allir sem eru skráðir á hann munu fá slíkan póst klukkan 8:30 á hverjum virkum morgni héðan í frá. Í fréttapóstinum er farið yfir það helsta sem er að gerast í íslensku samfélagi, á www.kjarninn.is og úti í hinum stóra heimi. Þetta er einstök þjónusta á Íslandi og við bindum miklar vonir við að Kjarnasamfélagið taki henni opnum örmum.
Á næstu vikum munum við síðan kynna enn fleiri breytingar sem verða á starfsemi Kjarnans. Þær miða allar að því að fjölga þeim leiðum sem við höfum til að koma efni til lesenda okkar og breikka starfsemi Kjarnans. Með öðrum orðum þá er Kjarninn að gefa verulega í.
Samhliða þessum breytingum mun útgáfu vikulegs stafræns fréttatímarits í gegnum app verða hætt. Tímaritið hefur verið okkar aðalútgáfa fram til þessa og komið út alls 58 sinnum. Í stað þess að koma í stórum skammti á hverjum fimmtudegi ætlum við héðan í frá að vera hluti af daglegu fjölmiðlaneyslumynstri lesenda okkar. Kjarninn er nefnilega fyrst og síðast stafrænn efnisframleiðandi. Þær leiðir sem hann nýtir hverju sinni til að koma efninu til þeirra sem vilja lesa, hlusta eða horfa á það geta verið síbreytilegar.
Í dag erum við að ráðast í eina slíka breytingu. Það er því miður staðreynd að íslenskt fjölmiðlalandslag glímir við sífellt aukinn skort á trúverðugleika. Lesendur virðast einfaldlega ekki trúa því að margir miðlanna séu með það sem leiðarljós að segja þeim satt heldur ráði aðrir hagsmunir för í framsetningu þeirra. Þess vegna hefur þörfin fyrir gagnrýna, heiðarlega og framsýna fréttamennsku líklega aldrei verið jafn mikil og í þeim samtíma sem við erum að lifa.
Þrátt fyrir að Kjarninn sé ungur fjölmiðill – hann var stofnaður fyrir 16 mánuðum – þá hefur okkur sem að honum stöndum tekist að byggja upp mikinn trúverðugleika og traust. Mælingar í háskólasamfélaginu hafa til að mynda sýnt að okkur sé langbest treyst á meðal einkamiðla landsins og að fæstir innan þess vantreysti okkur. Sá árangur gefur okkur byr til að ráðast í þann mikla vöxt sem er framundan hjá okkur og hefst í dag. Verk Kjarnans verða hins vegar dæmd af lesendum okkar.
Trúnaður Kjarnans verður einungis gagnvart ykkur, því þar liggja hagsmunir fjölmiðilsins. Tugþúsundir Íslendinga hafa þegar ákveðið að vera hluti af Kjarnasamfélaginu með því að fylgja okkur þetta fyrsta tæpa eina og hálfa ár. Það er okkar von að þeim muni fjölga hratt með þeirri stórsókn sem Kjarninn er nú að ráðast í.
Velkomin í Kjarna framtíðarinnar.