Einu sinni var kínverskur aðalsmaður sem eignast hafði ákaflega fallegan hest. Hann klæddist sínu besta pússi og reið um nærliggjandi héruð. Aldrei hafði sést fallegri knapi á glæsilegri reiðskjóta. Aðdáunin skein úr sjónum allra sem börðu dýrðina augum. Aðalsmaðurinn fann mikið til sín – svo mjög raunar að hann gat með engu móti stillt sig um að ríða sífellt lengra. Hvar sem hann kom las hann aðdáun úr hverju auga. Svo fór að hann sat hestinn sem fastast þar til hann datt hungurdauður af baki.
Kínverjar góðir í samræmdu
Þessi kínverska þjóðsaga hefur verið rifjuð upp í tengslum við góðan árangur Kínverja á alþjóðlegum, samræmdum prófum. Þar í landi hafa menn nefnilega haft af því töluverðar áhyggjur að menntakerfi landsins sé ekki sérlega vel í stakk búið til að undirbúa nemendur undir líf í flóknum heimi. Kínverskt atvinnulíf kvartar sáran yfir því að skólabókvitið sé í skammarlega litlu samræmi við hina raunverulegu færni sem það á að tákna. Raunar segir tæpur helmingur stjórnenda kínverskra stórfyrirtækja að fyrirtækin geti ekki notað heimamenntað fólk. Í Kína hafa því verið uppi miklar umræður um nauðsynlegar menntaumbætur. Og raunar ekki bara í Kína – heldur í hinu rísandi hagkerfi Asíu meira og minna öllu. Það fyllti mestu umbótamennina nokkurri skelfingu þegar Kína skreið á toppinn í hinum alþjóðlegu mælingum. Sumir þeirra óttast að fara muni fyrir Kínverjum eins og landa þeirra í sögunni. Þeir muni tregðast of lengi við að fara í nauðsynlegar umbætur vegna þeirrar aðdáunar sem þeir njóta. Virtur kínverskur skólamaður sem starfar í Bandaríkjunum gekk svo langt að segja að halda mætti að hin alþjóðlegu, samræmdu próf væru illt samsæri Vesturlanda til að vængstýfa menntaumbætur í Asíu og þar með samkeppnisstöðu álfunnar. Þó væri svo greinilega ekki. Vesturlandabúar myndu ekki nota sömu eitruðu prófin á sín eigin börn ef þeim væri vísvitandi beitt til að skemma.
Fjölmiðill einn íslenskur fullyrti nýlega að í Kópavogi væru bestu skólarnir á Íslandi. Og að þeir verstu væru í Árborg. Nokkuð ítarleg úttekt var á málinu og mátti af henni einna helst lesa að það væri óviðunandi fyrir nokkurt íslenskt sveitarfélag að vera undir meðaltali í samræmdum prófum á landsvísu.
Nú hef ég aðeins fengið að heimsækja skóla í Kópavogi og hef þar kynnst fjölmörgu skólafólki. Ég get tekið heilshugar undir að þar eru góðir skólar. Ég er meira að segja sérstaklega hrifinn af ýmsu í skólamenningunni, þar á meðal því að hver skóli fær rými til að ákveða fyrir hvað hann vill standa. Ennfremur hefur mér sýnst að börnin í skólunum séu forvitin, lífsglöð og vel heppnuð eins og víðast hvar. En einmitt vegna þess að ég hef aðeins fengið að skríða undir húðina á skólakerfinu í Kópavogi veit ég að þar hafa menn í mörgum skólum töluverðar áhyggjur af því að mikil þörf sé á endurnýjun kennsluhátta og þörf fyrir breyttar áherslur í námi. Einfaldlega vegna þess að heimurinn er að breytast og skólakerfi sem tekur sig alvarlega þarf alltaf að vera meðvitað um það hvaða færni það er sem skilar nemendum og samfélaginu öllu mestum ávinningi til lengri tíma litið.
Fjölmiðillinn teymir
Fjölmiðillinn er að teyma undir Kópavogsbúum kínverskan hest. Hólið er eitraðara en hrakyrðin í þessum efnum.
Nú gæti einhver haldið að það gildi önnur lögmál í Kína en í Kópavogi. Svo er þó að mestu leyti ekki. London School of Economics hefur sýnt fram á hefðbundið nám á Vesturlöndum er ekki sérlega góður undirbúningur fyrir lífið. Raunar tókst fræðimönnunum þar ekki að finna nein marktæk tengsl á milli námsárangurs og árangurs seinna í lífinu. Það sem einna helst virtist geta stuðlað að því að lífshlaupið yrði gott voru þættir sem lutu að því hversu tilfinningalega nærandi og heilbrigt umhverfi þitt var á barnsaldri. Tilfinningalegt heilbrigði býr til heilsteypt fólk og heilsteypt fólk gerir góða hluti.
Allir sem kennt hafa í einhvern tíma hafa hugboð um þetta nákvæmlega sama. Það sem ræður því hvort „úr þér rætist“ er ekki þekking þín á almennum brotum eða málfræði í fjórða bekk. Það eru aðrir þættir og djúpstæðari.
Í flestum skólum er vitneskjan um þetta samofin erfðamengi skólans. Þar vita menn að markmiðið má aldrei verða að troða börnin full af þekkingu hvað sem það kostar. Markmiðið er að gera þeim kleift að lifa vel og dafna. Í því skyni er algjörlega nauðsynlegt að barn fái hlýju og næði til að átta sig á heiminum og stöðu sinni í honum. Það þarf að fá að skapa, hrasa og uppgötva. Heimurinn er í ótal litbrigðum og börn þurfa að kynnast þeim flestum. Þá mun þeim farnast vel.
Góður árangur?
Fræðslustjóri sem náð hefur miklum árangri í að koma skólunum sínum yfir meðaltöl samræmdra prófa ræðir nokkuð um aðferðir sínar í þessari úttekt á gæðum skóla á Íslandi. Hann segist hafa skoðað hvað þurfi að gera til að knýja fram góðar einkunnir á samræmdum prófum í stærðfræði og íslensku. Hann telur upp nokkur atriði. Síðan segir hann að ef maður nýtir tímann frá því að barn byrjar í skóla og þar til það verður 12 ára þá eigi maður að geta kennt öll atriðin nokkuð vel.
Ég skrifaði einu sinni pistil þar sem ég birti hugarkort sem ég gerði einu sinni í starfi mínu sem kennari. Á kortinu sjást þau atriði sem kenna þarf í íslensku vilji maður að nemendur fái háar einkunnir á samræmda prófinu í tíunda bekk. Vandamálið er bara að ég get ekki með nokkru móti réttlætt það fyrir sjálfum mér né öðrum að það sé ásættanleg nýting á tíma nemenda í skóla að þjálfa þá nær eingöngu fyrir þessi tilteknu próf. Fyrir því eru a.m.k. tvær ástæður í viðbót við þá að sú þekking sem þannig er tilkomin kemur að sáralitlu gagni í raun og veru.
Hið fyrra er að samræmd próf eru vond próf. Þau eru illa samin og yfirborðskennd. Þau kalla fram normalkúrfu í árangri með því að einblína á titlingaskít og útúrsnúninga. Nemandi sem stendur sig vel hefur yfirburði yfir þann sem stendur sig illa á frekar afmörkuðu og ómerkilegu sviði. Í þeim er sáralítil dýpt. Að halda efni þeirra að nemendum árum saman er eins og að neyða þá til að drekka aðeins úr grunnum drullupollum í stað þess að fá að súpa úr hyljum. Þegar fræðimenn, eða annað fólk sem er vel menntað í þeim greinum sem samræmdu prófin þykjast mæla, skoðar prófin er niðurstaðan einatt sú sama: því meira sem maður veit, þeim mun meira blöskrar manni hve prófin eru vond og ómerkileg.
Hitt atriðið er að skólum er gert skylt að stuðla að alhliða menntun nemenda. Í aðalnámskrá er því námi lýst sem fara á fram í skólum. Sú lýsing er metnaðarfull og á stundum jafnvel dálítið óraunhæf. En á henni grundvallast sú hugsjón sem íslenska skólakerfið þykist aðhyllast. Samræmd próf mæla ekki nema brotabrot af því sem aðalnámskrá segir til um. Þeim er ekki ætlað annað. Samræmt próf mælir árangur skólakerfis eins og það að mæla olíustöðu og loftþrýsting mælir ástand ökutækis. Tvö ökutæki geta fengið sömu útkomu þótt annað sé grútskítugt, beyglað og sætin full af snakkmylsnu á meðan hinu er óaðfinnanlega viðhaldið.
Samræmd próf eru blind á megnið af því sem skólastarf á að hnitast um.
Stuðningsmenn samræmdra prófa halda gjarnan að mælingarnar haldi fullu gildi þrátt fyrir þetta. Ef við höldum áfram með líkinguna: Það að mæla olíustöðu og loftþrýsting er þrátt fyrir allt grundvallarmæling. Það er varla hægt að halda því fram að bíll með grautlin dekk og enga smurolíu sé í ökuhæfu ástandi. Upp að einhverju marki eiga slík rök rétt á sér. Samræmd próf eru ekki alveg gagnslaus mælir – svo lengi sem þeim er aðeins ætlað að mæla tiltekin lágmörk. Vandinn er sá að þau hafa tilhneigingu til að ryðjast langt út fyrir sitt svið.
Keppnin við meðaltölin
Ef menn eru að keppa við meðaltölin þá er ljóst að maður getur ekki komist upp fyrir meðaltal nema einhver annar sé fyrir neðan. Og ef mælirinn er einhæfur þá reynir maður að sjálfsögðu að finna sífellt skilvirkari leiðir til að þóknast honum. Maður fjárfestir jafnvel í nákvæmustu gerð tækja sem greina og stilla loftþrýsing með fjölmörgum aukastöfum og setur olíu á vélina með dropateljara. Ef við gefum okkur nú að „keppinautarnir“ séu á sama tíma að bóna lakkið og ryksuga sætin þá er ekki ólíklegt að maður öðlist þannig forskot. Sem hinir reyna svo að vinna upp næst. Smátt og smátt einkennir hirðuleysi meðferðina á bílunum nema á þessu þrönga, afmarkaða sviði. Þar rembast allir auðvitað eins og rjúpan við staurinn.
Og hvað gerir maður við nemendur sem mælast illa á samræmdum prófum?
Aftur er engin ástæða til þess að ætlast að íslenskir skólar séu svo frábrugðnir þeim útlensku. Þau lönd sem gengið hafa lengst í mælingarkapphlaupinu hafa tilhneigingu til að fela óþægilegu börnin þegar mælingarnar hefjast eða auka stórlega við þá nám í grundvallarþáttunum, jafnvel á kostnað annarra þátta. Dregið hefur úr list- og verknámi víða til þess að auka veg málfræði og reiknings. Nemendur sem standa sig ekki nógu vel að mati kennara eða skólastjórnenda eru á stundum settir í þjálfunarbúðir þar sem þeir skulu vinna upp slakann og koma í veg fyrir þann skaða sem þeir gætu unnið á mögulegu meðaltali skólans á prófunum.
Allt þetta er að gerast í íslenskum skólum í einhverri mynd. Og ástandið er að versna.
Ef einhver segði að í Kópavogi byggju mestu rithöfundar þjóðarinnar vegna þess að hvergi sé keyptur meiri vélritunarpappír en þar – eða að á Selfossi væru lélegustu söngvararnir vegna þess að apótekin þar seldu óvenjulega marga eyrnatappa væri slíkt hlegið út af borðinu sem augljóst rugl. Þegar samræmd próf eru notuð til að styðja við slíkar glannafullyrðingar eru viðbrögðin af öðru tæi. Selfyssingar vilja ekki hljóma eins og þeir séu að afsaka getuleysi og Kópavogsbúum þykir auðvitað dálítið gaman að vera álitnir bestir.
Það fylgdi ekki sögunni hvað gerðist eftir að aðalsmaðurinn datt dauður af baki hestsins. Væntanlega hefur einhver nýtt tækifærið og stigið sjálfur á bak hestinum – og þá væntanlega hlotið sömu örlög. Fórnarlömb kínverska hestsins eru mörg og mynda órofna keðju allr til dagsins í dag.
Á endanum var það ekki aðdáun annarra sem drap aðalsmanninn. Orsökin bjó innra með honum sjálfum. Hann virðist hafa skort innri mælikvarða á eigið virði.
Hið sama gildir um þá sem þykjast mæla gæði skóla með samræmdum prófum. Þeir annað hvort vita ekki, eða skilja ekki, hver hin raunverulegu verðmæti skólastarfs eru.