Eitt af því sem lítið hefur verið rætt um, einkum á vettvangi stjórnmálanna, er hvaða veruleiki getur beðið íslenska hagkerfisins og almennings eftir að aðgerðaáætlun um losun hafta hefur verið framkvæmd.
Myndin sem hér er meðfylgjandi (að ofan), og fengin er úr glærukynningu framkvæmdahópsins um losun hafta, sýnir stærstu hindranirnar sem hrinda á úr vegi. Staða ríkissjóðs mun batna um 500 milljarða króna, ef allt gengur eftir, sem er upphæð sem nemur 25 prósentum af landsframleiðslu. Stjórnvöld, í samvinnu við seðlabankann, munu ákveða hvernig best er að nýta þessa fjármuni, en hið augljósa er að lækka skuldir, t.d. mikla uppsafnaða skuld í lífeyrissjóðakerfinu.
Þá munu uppboð brjóta niður snjóhengju aflandskróna og minnka þannig þrýsting á krónuna, en samanlagt er aðgerðin að styrkja íslenska hagkerfið og stöðu ríkisfjármála um 1.200 milljarða króna, hvorki meira né minna. Það er upphæð sem nemur meira en helmingi árlegrar landsframleiðslu hér á landi.
Meginmarkmiðið er að eftir standi íslenska hagkerfið þannig, að gengi krónunnar eigi að ráðast af „gangi mála í raunhagkerfinu“, það er í undirstöðunum og viðskiptum frá degi til dags. Þetta kom skýrt fram í máli dr. Sigurðar Hannessonar, þegar hann kynnti aðgerðaáætlunina í Hörpunni, 8. júní. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur síðan sagt, að krónan muni einfaldlega ekki falla þegar höft verða losuð. Þannig verði haldið um þræðina í málinu.
Ólíkt stöðunni sem var fyrir hrun fjármálakerfisins, þá hefur útflutningshlið íslenska hagkerfisins styrkst verulega og raunhagkerfið þar með. Þar vegur ekki síst þungt margföldun ferðaþjónustunnar á skömmum tíma, en erlendir ferðamenn, sem hratt nálgast 1,5 milljón árlega, skilja eftir hundruð milljarða hér á landi á hverju ári. Ferðaþjónustan er orðin mikilvægari en orkugeirinn, álframleiðsla og sjávarútvegur. Saman, með of hægt vaxandi alþjóðageira og nýsköpun, mynda þessir geirar nokkuð sterka heild.
Þegar búið er að styrkja hagkerfið, eins og framan greinir, þar á meðal að létta þrýstingi á krónuna, þá virðist blasa við að krónan ætti að styrkjast frá því sem nú er. Gengisvísitalan er nú 195 stig, og hefur gengi krónunnar styrkst nokkuð að undanförnu, þó Seðlabanki Íslands hafi beitt sér þannig á gjaldeyrismarkaði að krónan hefur haldist veikari en hún hefði annars verið.
Vel má ímynda sér að gengisvísitalan fari í um 155 stig á ekki of löngum tíma - ef genginu verður ekki haldið veiku með handafli seðlabankans. Svo eitthvað sé nefnt. Þetta mundi þýða að evran myndi kosta 115 krónur en ekki 144 eins og nú.
Þó vafalítið hafi hagfræðingar og stjórnmálamenn margar og mismunandi skoðanir á þessum atriðum eins og flestum öðrum, þá væri fróðlegt að heyra nánari umræðu um það hvert gæti verið jafnvægisgengið á krónunni, að þeirra mati, eftir að aðgerðaáætluninni hefur verið hrint í framkvæmd. Vissulega er óvissa um hvernig markaðurinn mun bregðast við, en það er ákveðin vísbending um hvernig þróunin gæti verið að gengi krónunnar eigi að ráðast af gangi mála í raunhagkerfinu þegar áætluninni hefur verið hrint í framkvæmd. Í því veðmáli þurfa almenningur, fyrirtæki og fjárfestar að taka þátt, til þess að geta hagað sínum fjármálum með ábyrgum hætti. Því meiri upplýsingar sem liggja fyrir um hvar gengi krónunnar gæti verið, því betra.