Stundum er sagt að það eina sem við lærum af sögunni er það að við lærum ekkert af sögunni. Ég ætla að leyfa mér að giska á að sá sem þetta sagði hafi haft kjarasamninga (eða þróun þeirra) á Íslandi í huga. Auðvitað munum við söguna með ólíkum hætti og formerkjum. Tökum dæmi: Þar sem ég er að verða fertugur í næsta mánuði er ég sennilega af síðustu kynslóðinni sem ólst upp við bæði páfatíð Jóhannesar Páls páfa II. og þá hefð Morgunblaðsins að birta einungis erlendar fréttir á forsíðu sinni. Var það um svipað leyti að Morgunblaðið lét af venju sinni og umræddur páfi hrökk upp af.
Af hverju er ég að segja þetta, jú af því að í minningunni stóð oftar en ekki á forsíðu Morgunblaðsins „Páfi er heilsuveill“ og mun sú frétt hafa gengið nánast óbreytt í á annan áratug og ef hún birtist mátti giska á að lítið væri í fréttum að utan – og fréttin væri því notuð sem uppfyllingarefni. Ef (í minningunni) var hins vegar flett á fyrstu opnu stóð hins vegar yfirleitt eitthvað um kjarasamninga og jafnan eitthvað slæmt (hækkanir umfram verðlag, neikvæð verðbólguáhrif o.s.frv.).
Nú kann að vera að Morgunblaðið sé ekki besta heimildin um sanngirni kjarasamninga en í þau 35 ár sem ég og tvíburabróðir minn höfum verið að stauta okkur áfram í lestri þess hefur þróun í kjarasamningagerð hér á landi leitt af sér sömu niðurstöðu. Það er reglulega samið um hækkanir umfram verðlag, verðbólga hækkar og kaupmáttur dregst saman (svona í stórum dráttum, - jú og lánin hækka). Á þessu áttu þjóðarsáttarsamningarnir 1990 að taka fyrir fullt og fast en auðvitað breyttist ekkert.
Hljómar þetta kunnuglega? Nýgerðir kjarasamningar og yfirstandandi kjaraviðræður eru birtingarmyndin af þessu höfrungahlaupi undanfarinna áratuga. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég er talsmaður þess að kjör séu góð, menntun sé metin til starfa og Ísland sé samkeppnishæft um vinnuafl. En það gerum við ekki með því að semja um óraunhæfar hækkanir á nokkurra ára fresti. Auðvitað hafði efnahagshrunið áhrif á kjör og því er kannski ekki skrýtið að kjarabarátta sé háð undir formerkjum „leiðréttingar“.
Vandamálið í mínum huga er hins vegar að mér hefur aldrei tekist að finna þann hóp sem í upphafi naut slíkra kjarabóta svo að aðrir hópar geti miðað leiðréttingu sína við. Í líffræðinni kallaðist fyrri hópurinn sennilega arfgerð og aðrir hópar sem sækja sér leiðréttingu á grundvelli hans þá svipgerð. Nú kunna sumir að segja að þetta sé einföldun, leiðréttingin sé mynduð við samanburðarhópa (sambærilega menntun, sambærileg störf, sambærilega ábyrgð) og ekki við einhvern einn hóp sem fór fram úr öðrum í öndverðu.
Það er bara ekki svo. Mér sýnist að í þessum samanburði vísi hver á annan og þannig hafi myndast nokkurs konar krosseignatengsl í kjarabaráttunni. Þau eru skaðleg fyrir alla, bæði launþega og launagreiðendur, og hún eykur ekki kaupmátt til lengri tíma. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þarf alltaf einhver að borga á endanum og ég er hræddur um að sá sem hafi mestu tapað á íslenskri kjarabaráttu sé launþeginn/skattgreiðandinn.