Þann 10. janúar 2009 birtist í Fréttablaðinu grein eftir Carsten Valgreen, fyrrverandi aðalhagfræðing Danske Bank, um leiðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf eftir einstætt bankahrun. Valgreen hafði þremur árum áður verið umfjöllunarefni íslenskra fjölmiðla sem meðhöfundur Lars Christensen að frægri skýrslu á vegum Danske Bank. Skýrslan bar nafnið The Geyser Crisis og birtist í mars árið 2006. Skýrsluhöfundar töldu þar verulega hættu á bankahruni og alvarlegri efnahagskreppu. Ríkisstjórn og nýríkir eigendur banka voru ekki glaðir.
Í greininni í Fréttablaðinu, eftir að verstu spádómar Dananna tveggja höfðu ræst, sagði Valgreen meðal annars:
- „Ísland er lítið og einsleitt samfélag þar sem innbyrðis tengsl eru mikil. Þetta er bæði mikill styrkleiki og veikleiki. Þetta er rót kreppunnar. Slík samfélagsgerð virkar næstum eins og fjölskylda eða eitt fyrirtæki. Útilokun tiltekinna vandamála og ákvörðun um að þagga þau niður þróast mjög auðveldlega, og af því leiðir að erfitt er að grípa inn í þegar þau hafa hreiðrað um sig.“
Valgreen sagði ennfremur í greininni að áður en bankakerfið hrundi hafi litið út fyrir að íslenskt þjóðfélag væri nútímalegt með vel virku og þróuðu fjármála- og stofnanaumhverfi, sjálfstæðum seðlabanka og eftirlitsaðilum. „Kreppan hefur aftur á móti leitt í ljós vanvirkni þessa umhverfis.“
Síðan þetta var skrifað hefur hallað á ógæfuhliðina þótt svo fáeinir fræðimenn geri lítið úr spillingu á Íslandi, telji íslenskar elítur veikburða og ósamstæðar og að mesti vandinn sé líklega sá að almenningur „haldi“ eða „trúi því“ að á Íslandi ríki mikil spilling.
Eins og gerst hefði í gær
Síðan Valgreen stakk niður penna í Fréttablaðinu skömmu eftir bankahrun hefur eitt og annað gerst og fátt eitt má nefna:
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra selur föður sínum hlut í Íslandsbanka.
Í hópi handvalinna kaupenda að hlut í Íslandsbanka er fjöldi „hrunverja“.
Í hópi kaupenda að hlut í Íslandsbanka er íslenskur höfuðpaur í einu stærsta fjölþjóðlega mútuhneyksli síðari ára á norðurhveli jarðar.
Sumir kaupendanna eru dæmdir eða sitja á sakamannabekk.
Bankasýsla ríkisins átti að vinna sjálfstætt og skapa „armslengd“ frá stjórnmálamönnum. Hver trúir því þegar vinir og flokksbræður fjármálaráðherra eru handvaldir til að stjórna Bankasýslunni? Þeir hafa sérstaka þjálfun í því að umorða sérhagsmuni þannig að þeir hljómi sem almannahagsmunir.
Sami fjármálaráðherra hefur á undanförnum árum endurtekið stungið skýrslum undir stól, tafið birtingu þeirra, þegar það passaði hagsmunum hans og/eða Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni var rétt orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins í mars 2009 þegar uppvíst varð að flokkurinn hafði tekið við um 50 milljónum króna frá FL Group og Landsbankanum (Björgólfsfeðgum). Hann hét því að skila peningunum og viðurkenndi þar með að þeir væru skítugir og þar með mútufé.
Erna Solberg þávearandi forsætisráðherra Noregs var sektuð fyrir brot á sóttvarnareglum í miðjum covidfaraldri rétt eins og hver annar norskur borgari. Á Íslandi þótti eðlilegt að gera lögregluna tortryggilega þegar Bjarni var staðinn að því að brjóta sambærilegar reglur.
Já, menn halda kannski að það sé spilling á Íslandi.
Gagnsæi – skæður óvinur klíkuþjóðfélagsins
Til að lengja þetta ekki allt of mikið ætla ég ekki að tala um hneykslið þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, neyddist til að segja af sér embætti forsætisráðherra vegna uppljóstrana. Ekki heldur um rasísk ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, núverandi formanns Framsóknarflokksins. Og varla nenni ég að rifja hér upp kosningahneykslið í Norðvesturkjördæmi í fyrra, frumstæða meðferð á því máli og undarlegar lyktir.
Listinn er einfaldlega allt of langur.
Nú eru hartnær 20 ár síðan 14 evrópskir rannsóknardómarar settust niður og settu á blað Parísaryfirlýsinguna, haldgóðar grundvallarreglur um spillingarvarnir.
Sú fyrsta fjallar um að gagnsæi sé nauðsynlegt frelsinu vegna þess að frelsi án gagnsæis getur brotið í bága við mannréttindi og slíkt ógagnsæi greiði leið til lögbrota.
Þriðja reglan er einföld: „Lögbrot valdamanna skaða mikilvæga þjóðarhagsmuni. Hert viðurlög, heimildir til eignaupptöku og aðhald með bankastarfsemi eru varnir sem grípa verður til gegn slíkri samfélagsógn.“
Íslensk stjórnvöld ögra í sífellu íslenskum almenningi og með nánum tengslum sínum við helstu eigendur Íslands - þar sem allir strjúka öllum meðhárs - færa þau þjóðina á ný fram á hengiflugið.
Höfundur er stjórnarformaður Transparency International á Íslandi.