Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir og afleiðingar bankahrunsins má lesa um hagstjórnarmistökin sem gerð voru sem á færibandi væri á árunum upp úr aldamótum og fram að Hruni. Samandregið fólust þau í eftirfarandi;
- Fjármálastofnanir léku lausum hala. Ekki var gefinn gaumur að ofvexti hinna nýeinkavæddu banka, áhættusamri fjármögnun þeirra og glæfralegum lánveitingum og krosseignatengslum., Þá var eftirliti með fjármálastarfsemi ábótavant og ekki var skeytt um að treysta innviði og stofnanir samfélagsins sem hefðu getað afstýrt óförunum.
- Stóriðjufjárfestingu, sem nam hátt í 1/3 af vergri landsframleiðslu þess tíma, var dælt nánast með handafli inn í hagkerfið á örfáum misserum svo gríðarleg þensla hlaust af.
- Peningastefnan og máttlitlir tilburðir Seðlabankans til að hemja þenslu vísuðu í vestur en aðgerðir ríkisstjórnar, einkum í skattamálum og húsnæðismálum, í austur. Misvísandi hagstjórnaraðgerðir urðu þannig til að gera illt verra.
- Kosningavíxlar Sjálfstæðisflokks um stórfelldar skattalækkanir hátekjufólks og fjármagnseigenda og Framsóknamanna um hækkað veðsetningnarhlutfall húsnæðislána voru látnir falla á landsmenn þrátt fyrir augljós einkenni ofhitnunar í hagkerfinu. Í kjölfarið ruddust bankarnir inn á íbúðalánamarkaðinn, buðu 100% fjármögnun íbúðakaupa og fljótlega kviknaði í byggingargeiranum.
- Vítahringur vaxtahækkana, styrkingar raungengis og stórfellds viðskiptahalla var látinn haldast órofinn árum saman þótt ljóst væri að allt stefndi í óefni.
- Hagvöxtur var drifinn áfram af síaukinni skuldsetningu heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga og reyndist því tálsýn.
- Ávöxtun á hlutabréfamarkaði byggðist á uppskrúfuðum sýndarverðmætum, froðu og hringferli fjármuna í skuldsettum yfirtökum samtímis því að raunverulegt eigið fé margra fyrrum traustra fyrirtækja var flegið innan úr þeim og sólundað en eftir stóðu galtómar skeljar.
Þannig var það og ískaldar afleiðingarnar birtust í Hruninu.
Aldrei aftur, var það ekki?
Það hefur svo sannarlega kostað fórnir, blóð, svita og tár að komast þangað sem við þó erum komin, Íslendingar. Sem betur fer sneri neikvæða hagsveiflan við undir lok árs 2010 og síðan hefur verið samfelldur hagvöxtur, atvinnuleysi hefur minnkað og stórfelldum hallarekstri ríkissjóðs var snúið í jöfnuð frá og með árinu 2013. Batinn hefur haldið áfram undanfarin tvö ár og nú segja hagfræðingar að slakinn sé horfinn úr þjóðarbúskapnum.
Sögðum við ekki, öll sem eitt, á árunum fyrst eftir hrun að ein ríkasta skyldan við okkur sjálf og framtíðina væri að gera allt sem í okkar valdi stæði til að fyrirbyggja að slíkar efnahagslegar og félagslegar hamfarir af manna völdum gætu nokkurn tímann endurtekið sig? Jú, mig minnir það.
En hvað þýðir það á mannamáli að slaki sé horfinn úr þjóðarbúskapnum? Hvað þýðir það skoðað í ljósi biturrar reynslu af mistökunum, ég vil segja afglöpunum, sem framin voru á Íslandi á árunum fyrir Hrun? Jú, þýðir það ekki að þensla, ójafnvægi og svo ofhitnun geti verið handan við hornið ef við gætum ekki að okkur? Og ætlum við ekki að gera það núna, gæta að okkur það er að segja? Sögðum við ekki, öll sem eitt, á árunum fyrst eftir hrun að ein ríkasta skyldan við okkur sjálf og framtíðina væri að gera allt sem í okkar valdi stæði til að fyrirbyggja að slíkar efnahagslegar og félagslegar hamfarir af manna völdum gætu nokkurn tímann endurtekið sig? Jú, mig minnir það.
Er byrjað að kynda upp?
Í ljósi þess sem að ofan greinir hlýtur það nú að vera skylda okkar að vera vel á verði, spyrja hinna gagnrýnu spurninga og bregðast við áður en það er um seinan. Við sem reyndum að vara við og benda á hætturnar á fyrirhrunsárunum vorum gjarnan afgreidd sem fúl á móti, við sæjum ekki veisluna, við værum á móti framförum og nýjum tímum. Nú vilja ólíklegustu aðilar þá Lilju kveðið hafa, halda því fram að þeir hafi varað við, jafnvel séð hrunið fyrir. Látum það vera, en hvernig munu menn þá taka því nú þegar óhjákvæmilegt er að mæla þessi varnaðarorð:
- Núverandi ríkisstjórn hefur þegar veikt tekjugrunn ríkisins umtalsvert. Þar munar mest um niðurfellingu auðlegðarskatts upp á 11 milljarða, lægri veiðigjöld svo milljörðum nemur, 5-6 milljörðum lægri tekjuskatt vegna lækkunar á miðþrepi, nokkurra milljarða tekjutap í tengslum við niðurfellingu vörugjalda og lækkun efra þreps virðisaukaskatts sem hækkun matarskatts vegur ekki upp, niðurfellingu orkuskatts um næstu áramót upp á 2 milljarða. Þá hefur verið látið undir höfuð leggjast að færa upp til samtímaverðlags ýmis krónutölugjöld (bensíngjald, olíugjald o.s.frv.) með nokkurra milljarða tekjutapi, og er ekki allt upp talið. Þannig ákvað ríkisstjórnin á dögunum að leggja til aukafjárveitingar í fjáraukalögum uppá 2,65 milljarða, vissulega í þörf og brýn verkefni, en það eru útgjöld samt og tekjur til að mæta þeim vantar.
Frekari bati í afkomu ríkisins er því að stöðvast og verða að engu í höndum hinna reynslulitlu kyndara í Stjórnarráðinu.
Samtals er tekjugrunnur ríkisins orðinn a.m.k. 30 milljörðum veikari en hann var á árinu 2013 án þess að tekið sé tillit til þess að þessir tekjustofnar gæfu nú meira af sér en fyrr í krafti efnahagsbatans. Og nú á að sögn að bæta a.m.k. 20 milljörðum við þessa tölu til að liðka fyrir kjarasamningum í formi tapaðra skatttekna og aukinna útgjalda. Það hafa því lekið út tekjur og bætst við útgjöld á vakt þessarar ríkisstjórnar sem veikja fjárhagsstöðuna umtalsvert. Enda er ríkisfjármálaáætlun fjármálaráðherra, sem nú liggur fyrir Alþingi, fremur daufleg lesning með afkomu ríkissjóðs rétt við núllið næstu fjögur ár og var það áður en útgjaldapakkinn tengdur kjarasamningum kom fram. Frekari bati í afkomu ríkisins er því að stöðvast og verða að engu í höndum hinna reynslulitlu kyndara í Stjórnarráðinu. Ekki er það góður undirbúningur undir glímu við aukna þenslu né heldur undir raunverulega niðurgreiðslu skulda sem leiða myndi til lægri vaxtakostnaðar ríkissjóðs og þar með aukna getu hans til að standa undir útgjöldum til velferðarmála á komandi árum.
- Umtalsverðar fjárfestingar í meðalstórum iðnfyrirtækjum, hótelum og auknum íbúðarbyggingum eru nú að bætast inn í hagkerfið. Allt er það ánægjulegt en þetta þarf að taka með í reikninginn þegar þanþol hagkerfisins er metið.
-Ekki verður séð af lauslegri þjóðhagsgreiningu að þörf sé á að þvinga með handafli í gang enn fleiri virkjanir og stóriðjufjárfestingar en þegar eru í undirbúningi, en til þess stendur vilji stjórnarmeirihlutans eins og kunnugt er, þó á kostnað vandaðra, faglegra vinnubragða og laga um rammaáætlun sé.
- Seðlabankinn er dæmdur til að hækka vexti við þessar aðstæður sem er nógu bölvað þótt það leiði ekki endilega til óraunhæfrar styrkingar gengis, þökk sé grimmum og sjálfsögðum uppkaupum bankans á gjaldeyri.
- Peningamagn í umferð er enn alltof mikið á Íslandi og gríðarmikil fjárfestingargeta lífeyrissjóðanna safnast upp í hagkerfinu sökum fjármagnshaftanna.
- Fyrstu merki bólumyndunar eru vel sýnileg á fasteignamarkaði, a.m.k. í 101 Reykjavík, og eru þó áhrif hinnar fráleitu skuldaniðurfærslu, sem að allt of stórum hluta skilaði fjármunum úr ríkissjóði til fólks sem var í ágætum efnum fyrir, væntanlega ekki nema að litlu leyti komin fram.
- Vöruskiptajöfnuðurinn hefur verið að veikjast undanfarin misseri og ef ekki kæmi til hinn ævintýralegi vöxtur ferðaþjónustunnar og jákvæður þjónustujöfnuður væri viðskiptajöfnuðurinn í heild ekki beysinn.
Förum varlega með eldinn
Það er ekki kviknað í, en eldsmaturinn er víða, og spurning hvort núverandi ráðamönnum okkar sé treystandi fyrir eldspýtunum. Um það hef ég miklar og vaxandi efasemdir eins og reyndar sístækkandi meirihluti þjóðarinnar ef marka má skoðanakannanir.
Margt fleira mætti tína til sem ástæða er til að hafa gætur á. Niðurstaðan er að jafn innilega og við gleðjumst yfir áframhaldandi bata í þjóðarbúskapnum, hagvexti, minnkandi atvinnuleysi o.s.frv., þá þurfum við að halda vöku okkar og reyna að læra af fyrri og biturri reynslu. Það er ekki kviknað í, en eldsmaturinn er víða, og spurning hvort núverandi ráðamönnum okkar sé treystandi fyrir eldspýtunum. Um það hef ég miklar og vaxandi efasemdir eins og reyndar sístækkandi meirihluti þjóðarinnar ef marka má skoðanakannanir. Það hættulega er að uppsveiflutími þenslu og ofhitnunar virkar eins og þægilegt deyfilyf á gagnrýnislausa svefngengla. Ríkissjóður flýtur um sinn vegna froðutekna af efnahagsumsvifum sem svo reynast ekki innistæður fyrir og þá verður harkalegur samdráttur óumflýjanlegur, en við eigum ekki að þurfa að gera þá tilraun aftur. Við vitum af nýlegri og dýrkeyptri reynslu hvernig hún endar.
Agaður ríkisbúskapur með vaxandi afgangi af ríkissjóði sem þannig styddi við markmið peningastefnunnar um leið og forgangsraðað væri í þágu hinna tekjulægri, velferðarkerfisins og mikilvægustu innviðafjárfestinga er leiðin sem þarf að fara. Kjarasamningar, sem hækka sérstaklega hin smánarlega lágu lægstu laun á Íslandi og væru studdir af samkynja skattalegum aðgerðum, verða samt að rúmast innan þess ramma sem þjóðarbúskapnum eru settir og það myndu þeir gera ef rétt væri spilað á móti meðal annars og ekki síst í ríkisfjármálunum. Aukinn jöfnuður er svarið og er í senn bæði samfélagslím og hagstjórnartæki sem alltof oft er horft framhjá í glímunni við þessi mál. Ójöfnuðurinn er uppdráttarsýki kapítalismans, innanmein hans, sem fyrr en síðar gengur af honum dauðum ef svo heldur sem horfir.
Höfundur er alþingismaður og fyrrverandi fjármálaráðherra