Margir sjálfskipaðir kyndilberar frelsisins hafa geyst fram á ritvöllinn að undanförnu. Ég eftirlæt lesendum að finna þá pistla því ég hef engan áhuga á að auglýsa þau skrif neitt frekar, enda kunnuglegt stef frá síðustu, þarsíðustu … og svo framvegis … kosningum. Sömu kindarlegu kyndilberarnir að reyna að slá sig til riddara enn og aftur.
Gott mótvægi við þeim skrifum er nýlegur leiðari ritstjóra Kjarnans, þar sem hann fjallar um það þegar valdið talar um frelsi. Fyrsta dæmið sem ritstjórinn tekur er frelsið til að skaða sig og ráða yfir eigin líkama, nánar tiltekið afglæpavæðingu fíkniefna, sem er mál sem Píratar hafa lengi barist fyrir. Það mál hefur verið sett í alls konar grýlubúninga af andstæðingum þess þegar þetta mál er í raun mjög einfalt. Málið snýst um að hætta að refsa veiku fólki. Frelsi veiks fólks undan refsivendi valdsins.
Annað dæmi um sama frelsi er frelsi kvenna til þess að ráða yfir eigin líkama. Heilbrigðisráðherra VG flutti mál um þungunarrof fram á 22. viku og leiddi formaður velferðarnefndar, Píratinn Halldóra Mogensen, málið í gegnum þingið þrátt fyrir andstöðu ýmissa yfirlýstra frelsisflokka.
Næst er það sjálft lýðræðið, nánar tiltekið kosningarétturinn og jafnt vægi atkvæða. Í þeim málaflokki hafa Píratar flutt ýmis mál, svo sem frumvarp um nýja stjórnarskrá sem inniheldur mjög margar betrumbætur á lýðræðinu en einnig jöfnun á atkvæðum, jöfnun á milli þingflokka með fleiri jöfnunarmönnum og leiðrétting á því hvernig talning atkvæða virkar í atkvæðagreiðslum stéttarfélaga. Í stuttu máli: Að kjósendur í landinu, sama í hvaða kjördæmi þeir búa þá stundina, skipti jafn miklu máli.
Frelsisstefna Pírata
Þetta á ekki að vera endurritun á ritstjórnarpistli Kjarnans heldur grein sem sýnir hvers konar áherslur Píratar hafa um frelsi. Það er ekki bara frelsi til athafna heldur til þess að hugsa, tala, trúa, syngja og vera man sjálft. Kjarna okkar Pírata í þeim málum er að finna í grunnstefnu flokksins – sem allar aðrar stefnur okkar hvíla á – þar sem fjallað er um borgararéttindi, friðhelgi einkalífs, beint lýðræði, sjálfsákvörðunarrétt og upplýsinga- og tjáningafrelsi. Grunnstefna Pírata snýst einmitt um frelsi frá valdinu og kristallast í orðunum „vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri“ og „opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni“.
Ég ákvað að skrá mig í fyrsta skipti í stjórnmálaflokk út af grunnstefnu Pírata og siðan þá hef ég séð hvernig hún er ekki bara orð á blaði heldur er hringiðan sem allt annað snýst um. Hún er það sem sameinar Pírata í öllum málum. Ef einhver vafi er um hvað skal gera, þá er leitað í grunnstefnuna. Þannig hefur hún verið okkar stoð og stytta í gegnum mörg flókin mál í gegnum árin og ávallt leitt okkur á réttan stað.
Ódýrt og óþarft
Frelsi er nefnilega ekki eitthvað sem er til skrauts. Það skiptir máli fyrir heilbrigt samfélag því það er rótin að sanngirni, réttlæti, jafnrétti og lýðræði. Þess vegna skiptir það öllu máli að vakta stjórnvöld, sérstaklega þegar þau ætla sér að takmarka frelsi fólks.
Nú er í umræðunni að skylda suma Íslendinga í bólusetningu. Á meðan bólusetning er frábært vopn gegn margvíslegum sjúkdómum þá er stjórnvaldsskylda til þess að fara í bólusetningu ekki rétt aðferð til þess ná árangri. Hún er ekki aðeins óþörf, Íslendingar eru mjög jákvæðir gagnvart bólusetningum eins og raðirnar við Laugardalshöll hafa sýnt, heldur getur bólusetningaskylda haft þveröfug áhrif og dregið úr vilja fólks til að bólusetja sig. Þá erum svo sannarlega ekki betur sett.
Í stað þess að þvinga fólk hafa stjórnvöld skyldu til þess að sannfæra fólk um ágæti slíkrar meðferðar – og þeim virðist hafa tekist vel upp miðað við góða þátttöku Íslendinga til þessa.
Það er ódýr leið út úr vandanum að beita fólk þvingunum í þessum efnum. Hún er ódýrt, óþarft og óæskilegt veganesti inn í framtíðina.
Hér leiðbeinir grunnstefna Pírata okkur með orðunum: „Vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.“ Þetta er okkar leiðarvísir gagnvart valdhöfum. Valdið þarf aðhald því valdið getur beitt þvingunum til þess að ná markmiðum sínum. Það þarf að passa upp á að vel sé farið með slíkt vald, líka þegar markmiðið er gott. Þar er áhersla Pírata lykilatriði.
Höfundur er þingmaður Pírata.