Kvenkyns forstjórar (forstýrur) á íslenskum kauphallar markaði geta aðeins stofnað bridge klúbb með því að bjóða kvenkyns stjórnar formönnum á markaðnum í klúbbinn. Þessi hópur forystu kvenna hefur myndast á frekar skömmum tíma, eða á um 2,5 árum.
Þrjár konur eru í dag forstjórar hjá skráðu félagi á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands:
- Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka.
- Margrét Tryggvadóttir, forstjóri NOVA.
- Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festar.
Þá eru tvær konur stjórnarformenn meðal fyrirtækja á Aðalmarkaði:
- Liv Bergþórsdóttir, stjórnarformaður Iceland Seafood International.
- Petrea I. Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Sýnar.
Birna Einarsdóttir hefur verið bankastjóri Íslandsbanka frá 2008 og var bankinn skráður á markað í júní 2021. Margrét Tryggvadóttir tók við sem forstjóri NOVA (eða skemmtanastjóri eins og hún kallar sig) á árinu 2018, og voru hlutabréf NOVA tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands í júní 2022. Þá var Ásta Fjeldsted ráðin forstjóri Festar 7. september sl. Hvað varðar stjórnarformenn, þá tók Liv Bergþórsdóttir við stjórnarformennsku Iceland Seafood í mars 2020, en félagið var skráð á Aðalmarkað í október 2019. Þá var Petrea I. Guðmundsdóttir kjörin nýr stjórnarformaður Sýnar á hluthafafundi félagsins 31. ágúst sl.
Frá því lög um 40% kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja tóku gildi á Íslandi á árinu 2013, hefur meðaltals hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum aukist frá því að vera 18,5% í 26,67% í september 2022. Hlutfall kvenkyns stjórnarformanna jókst eftir hrun (ljósblá lína á grafi) og var hlutfallið hæst 6/16 á árinu 2016, eða 37,5%. Hefur hlutfallið minnkað með hverju árinu frá þeim tíma, en hækkaði aftur í lok ágúst sl. og eru þær nú tvær. Þá hefur að meðaltali hallað á hlut kvenna í framkvæmdastjórnum á s.l. ári, þrátt fyrir að kvenkyns forstjórum hafi fjölgað á árinu 2022, eða frá því að vera ein í þrjár.
Mynd 1 sýnir hvernig vísitala GemmaQ, sem reiknar og sýnir kynjajafnvægi í áhrifastöðum á kauphallar mörkuðum um heim, breytist eftir hlutfalli kvenna í áhrifastöðum. Myndin sýnir þróun GemmaQ á skalanum 0-5 á tímabilinu í stað hefðbundins 0-10 GemmaQ skala, eins og hann birtist á Keldunni og Kodiak fyrir íslenskan markað.
Mynd 2 sýnir þróun vísitölu GemmaQ (appelsínugul lína) frá árinu 2007 til 2022. Einkunnir eru gefnar á skalanum 0-10, þar sem 10 er hæsta einkunnin, miðað við hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn og stjórn félagsins. Vísitalan tekur til greina bæði kyn forstjóra og stjórnarformanns - sem reiknast jafnframt inn í einkunn félags þegar kona gegnir stöðunni, og breytist þannig eftir hlutfalli kvenna í fyrrnefndum áhrifastöðum. GemmaQ byggir á rauntíma upplýsingum og horfir til kynvitundar fólks, en eins og er (svo vitað sé) þá eru aðeins einstaklingar sem skilgreina sig sem karl eða kona í fyrrnefndum áhrifastöðum.
Vísitala GemmaQ fyrir íslenska markaðinn er í dag 7,11 og hefur vaxið frá því að vera 3,0 frá árinu 2007. Vísitalan hækkaði á árinu 2010 þegar Alþingi samþykkti lög um kynjakvóta á stjórnir - sem tóku gildi 2013, og urðu kynjahlutföllin jafnari með tímanum. Sum þjóðríki hafa brugðið til þess ráðs að innleiða einnig kynjakvóta á framkvæmdastjórnir fyrirtækja til að knýja fram hraðar breytingar. Önnur þjóðríki treysta á að markaðurinn muni leiðrétta sig með því að færa fjármagnið í átt að fyrirtækjum sem hafa jafnrétti og fjölbreytileika að leiðarljósi. Ef fram heldur sem horfir á íslenskum markaði þá næst kynjajafnvægi meðal framkvæmdastjórna á skráðum markaði á árinu 2042.
Það er eftir tuttugu ár.
Ef við viljum ná kynjajafnvægi á kauphallar markaði áður en nýfædd börn dagsins í dag útskrifast úr menntaskóla, þá þurfum við að spyrja okkur:
- Hvað getum við gert til að fjölga forystu konum á íslenskum kauphallar markaði sem fyrst?
- Hvernig stækkum við hópinn frá því að vera rétt tæplega bridge klúbbur í dag?
Kynjakvótar eða lagabreytingar eru ekki endilega svarið.
Almenningur, fjárfestar og þátttakendur á markaði geta haft áhrif með peningaveskinu og fótum sínum. Við getum fært fjármagn okkar og viðskipti í átt að jafnréttissinnuðum fyrirtækjum. Þá geta stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir líka sett sér skýr viðmið og markmið um að jafna kynjahlutföllin á markaði og haft bein áhrif með því að fjárfesta með kynjagleraugum.
Höfundur er stofnandi og framkvæmdastjóri GemmaQ.