Það lögð mikil áhersla á það að læknadeilan sé sérstök og ekki megi líta á hana í stærra samhengi. Ráðamenn segja að aðrar stéttir megi alls ekki læra neitt af þessari deilu. Ég held að þetta sé ekki rétt. Læknadeilan er, svo maður noti klisju, kanarífuglinn í kolanámunni.
Magnús Karl Magnússon, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði og forseti Læknadeildar
Háskóla Íslands.
Við lifum í opnu samfélagi þar sem vinnumarkaður Íslendinga nær til allrar Evrópu og fyrir þá sem skara fram úr standa dyr opnar um allan heim. Það sama gildir um um Ísland. Við getum laðað til okkar úrvalsfólk hvaðanæva að úr heiminum til uppbyggingar í okkar samfélagi. Þetta er mikilvægasta efnahagsmál framtíðarinnar; það er að búa til samfélag sem laðar til sín vel menntað fólk sem skapar raunveruleg verðmæti. Slík verðmætasköpun byggir á góðri menntun og nýtingu vísinda og tækni, sköpunar og lista. Auðlindir eins og orka og fiskur geta hjálpað en án vel menntaðs mannauðs munu þær einungis skapa láglaunastörf.
Læknadeilan snýst í grunninn um þessi grundvallaratriði. Við viljum bjóða Íslendingum góða heilbrigðisþjónustu en slík þjónusta byggir á verðmætum í menntuðu úrvalsheilbrigðisstarfsfólki. Vel menntaðir og verðmætir læknar geta í dag valið úr störfum í Skandínavíu, Hollandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar. Við verðum því að horfast í augu við þá staðreynd. Annað hvort sættum við okkur við annars flokks starfskrafta með annars flokks heilbrigðisþjónustu eða við löðum til okkar bestu læknana til að tryggja okkur fyrsta flokks þjónustu. Ef að ráðamenn telja að lausnin á þessari deilu liggi í einhliða lagasetningu þá er ekki mikils að vænta í framtíðarsýn þeirra sömu ráðamanna.
Það sama sem að ofan er skrifað um lækna gildir auðvitað um aðra vel menntaða hæfileikaríka einstaklinga. Hæfileikaríkur verkfræðingur, klarínettuleikari eða tölvunarfræðingur mun velja sér leikvöll fyrir sinn sköpunarkraft þar sem hún fær best tækifæri. Ef að við viljum njóta þeirra hæfileika í okkar samfélagi verðum við að umbuna fyrir slíka hæfileika.
Ef að við viljum njóta þeirra hæfileika í okkar samfélagi verðum við að umbuna fyrir slíka hæfileika.Ef að íslenskir pólitíkusar halda áfram að beina sjónum sínum fyrst og fremst til þeirra sem fjármuni og völd eiga í nútíð og fortíð í stað þess að beina augunum að þeim sem munu skapa verðmæti í framtíðinni munum við ekki skapa samfélag sem getur boðið fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, menntun, listir eða önnur raunveruleg verðmæti. Ég lýsi því eftir djarfri framtíðarsýn; fjárfestum í menntun, vel menntuðu fólki, vísindum, nýsköpun og listum. Þeir sem ganga aftur á bak inn í framtíðina og dást að fortíðinni munu fyrr en síðar vera staddir í heldur dapurri nútíð.