Hrunið haustið 2008 og ýmislegt sem hefur gerst síðan hefur kennt mér margt. Ég tók saman tíu atriði sem ég lít á sem lærdómspunkta af hruninu og ýmsu sem hefur gengið á eftir það.
1. Ekki búast við að stjórnmálamenn leysi vandann. Þeir hafa takmörkuð áhrif á líf okkar sem höfum engan áhuga á því að taka þátt í flokksstarfi, og það er ekkert vit í því að halda að þeir muni draga vagninn í vanda þjóðarinnar. Þeir gera það ekki. Þeir geta í besta falli skapað aðeins betri umgjörð fyrir fólkið til þess að leysa vandamál, skapa atvinnu og verðmæti, og þjónustuna úr sameiginlegum sjóðum okkar. En ekkert meira. Gildir þá einu hvort það eru stjórnmálamenn sem kenna sig við vinstri eða hægri. Hver er sinnar gæfu smiður.
2. Það á að borga skuldirnar sem maður stofnar til með samningum og reyna að skulda sem allra minnst. Þetta er elsta hagfræðiráð sögunnar. Heilbrigð skynsemi. Ég lifi eftir þessu og hef alltaf gert. Þetta hefur reynst mér og mínum vel. Þetta er gott og gilt ráð, alveg sama hvað gengur á. Best er að skulda ekkert, eða sem minnst miðað við aðstæður. Ég óttast að það sé nú kominn upp hópur af fólki sem finnst eðlilegt að aðrir borgi skuldir sem það stofnaði til, svo að þeirra persónulega líf sé betra. Það er ekki gott veganesti í lífinu að lifa eftir þessu og mun alveg örugglega leiða hópinn sem svona hugsar til efnahagslegrar glötunar síðar. En vonandi er hann minni en ég held.
3. Verðtryggingin sem Framsóknarflokkurinn hafði forystu um að innleiða fyrir ríflega 30 árum er ágæt, svo lengi sem verðbólgan er lág. Verðbólgan er vandamálið ekki verðtryggingin. Best væri samt ef það þyrfti enga verðtryggingu.
4. Innreið samfélagsmiðla, snjallsíma og spjaldtölva í líf okkar, á sama tíma og hruns-tíminn hefur verið í gangi, er miklu merkilegri atburður en hrunið í mínum huga. Samfélagsleg umræða hefur gjörbreyst á örskömmum tíma, á aðeins um sex árum. Fólk ritstýrir umræðunni sjálft, strax, og er miklu tengdara en áður. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með þessari breytingu, ofan í þessa miklu tíma hér á landi. Ég er viss um að mikil tækifæri felist í dýpri áhrifum internetsins á líf okkar, en ógnanir sömuleiðis.
Útibú Kaupþing banka í Lúxemborg.
5. Það verður að afnema ríkisábyrgð á fjármálaþjónustu einkarekinna banka. Því miður virðist langt í þetta. Blessunarlega er umræða um bankastarfsemi og ömurlega siðferðisbresti hennar, sem felst í þjóðnýtingu tapsins ef illa fer en einkavæðingu gróðans þegar vel gengur, komin af stað. En betur má ef duga skal. Ennþá finnst mér sá atburður, þegar bankamenn í Kaupþingi ákváðu að fella niður persónulega ábyrgð á tugmilljarða skuldbindingum sínum, rétt áður en bankinn hrundi eins og spilaborg, vera einhver siðlausasti gjörningur íslenskrar viðskiptasögu. Hæstiréttur hefur blessunarlega dæmt þetta ólögmætt og snúið áhrifunum frá því sem bankamennirnir sjálfir vildu. Nokkrum vikum eftir þetta voru 500 milljónir evra lánaðar til Kaupþings, allt á ábyrgð ríkissjóðs, sem endaði með ömurlegu 35 milljarða tapi skattgreiðenda. Ef þetta hefði allt verið á ábyrgð hluthafana eingöngu, þá hefði þetta verið skárra.
6. Um tólf prósent fólks kann ekki að fara með peninga. Þetta sagði mér mætur hagfræðingur ekki fyrir svo löngu. Það skiptir engu máli hvort það er góðæri eða ekki. Þetta hlutfall fólks er alltaf í peningavandræðum og hluti þess í vanskilum. Þetta eru gömul sannindi sem mikilvægt er að hafa bak við eyrað. Það hafa það ekki allir gott í því sem kallað er góðæri. Góðæri er bara orð sem væntanlega blaðamenn eða stjórnmálamenn hafa fundið upp. Var til dæmis góðæri víða á landsbyggðinni fyrir hrunið? Í útflutningsgeiranum? Nei. Það var ekki þannig. Það er ekkert algilt efnahagsástand til. Sumir hafa það gott, meðan aðrir berjast í bökkum. Það eru ekki allir undir sama hatti.
Leigjendur hafa fengið neikvæðu áhrifin af hruninu af miklum þunga.
7. Það er of lítið hugsað um komandi kynslóðir þegar svona atburðir verða. Kjörtímabilin eru fjögur ár og stjórnmálamenn eru að flýta sér að koma miklu í verk. Umboðið verður kannski ekki endurnýjað, hugsa þeir. Þetta leiðir til þess að komandi kynslóðir fá höggin á sig, hvort sem það er vegna mikillar hækkunar fasteigna- og leiguverðs, þar sem einblínt var á að grípa inn í markaðsforsendur fólksins sem skuldar núna, frekar en að styðja við þá sem eru að koma út á markaðinn síðar. Þetta eru valkostir sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir og mér finnst stundum hafa komið í ljós að komandi kynslóðir eru oftar en ekki aftast á forgangslistanum.
8. Forsendubrestur er orð sem ég skil ekki almennilega. Sérstaklega þegar kemur að íbúðafjárfestingum. Fólk er misjafnlega í stakk búið til að fjárfesta í húsnæði. Sumir eiga mikinn pening, aðrir lítinn, osvfrv. Forsendur fyrir lántöku eru aldrei almennar að þessu leyti, og aðstæður geta verið hagfelldar sumum en ekki öðrum. Staðsetningar fasteigna skipta líka máli, tímalengd lána og hvort um er að ræða fyrstu, aðra eða þriðju eign, svo dæmi séu tekin. Allt eru þetta forsendur sem skipta máli. Hvenær bresta forsendurnar allar í einu hjá öllum, alveg sama hvernig staðan er hjá fólki? Ég skil ekki þetta orð og finnst eins og þetta sé fyrst og fremst pólitískt vinsældarorð, uppgvötað af stjórnmálamönnum.
9. Það er ekki til fullkomið réttlæti þegar svona atburðir gerast. Og það þýðir ekkert að pirra sig á því. Fyrst og fremst eru þetta áhugaverðir tímar að upplifa. Ég trúi því líka að stjórnmálamenn séu að reyna sitt besta, og gangi gott eitt til, en það þýðir samt ekki að treysta á þá alfarið.
10. Lífið er stutt, maður verður að njóta þess með sínu fólki. Af hverju lærir maður það af þessum hrun atburðum? Af því þeir mega ekki taka frá manni of mikla orku, eins og þeir geta hæglega gert þar sem Ísland er lítið og öll þekkjum við fólk sem hefur glímt við ýmsa erfiðleika sem tengjast hruninu. Þegar öllu er á botninn hvolft er margt miklu alvarlegra en hrunið og eftirleikur þess.