Nú stendur yfir aðalmeðferð í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Þar er meðal annars tekist á um hvort það sé ólöglegt að lána eignarlausum félögum milljarða króna til að kaupa hlutabréf í banka sem enginn annar vildi kaupa einungis með veði í bréfunum. Þannig bar bankinn sjálfur alla áhættu af viðskiptinum en þeir einstaklingar sem fengnir voru til að eiga félögin sem „keyptu“ gátu hagnast hlutabréfin hækkuðu í verði.
Þessir einstaklingar eru oft kallaðir „bréfberar“, vegna þess að þeir héldu á hlutabréfum í bankanum. Og einn umfangsmesti bréfberinn í Kaupþingi var Egill Ágústsson, forstjóri Íslensk Ameríska.
Þessir einstaklingar eru oft kallaðir „bréfberar“, vegna þess að þeir héldu á hlutabréfum í bankanum. Og einn umfangsmesti bréfberinn í Kaupþingi var Egill Ágústsson, forstjóri Íslensk Ameríska.
Kaupþing hafði samband við Egil árið 2008 og bað hann um að eiga eignarlaust félag sem kallaðist Desulo Trading og var skráð á Kýpur. Frá því í júní 2008 og fram að bankahruni lánaði Kaupþing þessu eignarlausa félagi 13,4 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi, mest megnis af Kaupþingi. Síðasta lánveitingin til þessa var framkvæmd 25. september 2008, sama dag og persónulegar ábyrgðir starfsmanna Kaupþings á lánum til hlutabréfakaupa voru felldar niður,og örfáum dögum áður en bankinn féll. Hún var upp á rúma fjóra milljarða króna.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur auk þess fram að Desulo, sem átti þá minna en ekkert, þar sem hlutabréfin í Kaupþingi höfðu lækkað töluvert í verði, hafi gert framvirkan kaupsamning um hlutabréf í finnska félaginu Sampo í september 2008 upp á tæplega 30 milljarða króna. Sampo var í eigu Exista, stærsta eiganda Kaupþings.
Í fréttum RÚV í vikunni var sagt frá því að í réttarhöldunum í stóramarkaðsmisnotkunarmálinu hafi verið vitnað í skýrslu Egils Ágústssonar hjá lögreglu þar sem hann var spurður út í Desulo.
Þar kom fram að Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hafi falið undirmanni sínum að hafa samband við Egil að fyrra bragði og fá hann til að gerast bréfberi. Í fréttinni segir síðan: „Egill bar vitni hjá lögreglu og virðist ekki hafa hvarflað að honum hversu mikil viðskiptin urðu. „Ég frétti af fyrsta ... bunkanum sem var þá mjög stór hluti og mér náttúrulega alveg snarlega brá og ... hvað þetta var stórt. Og en það var aldrei haft samband við mig, ég beðinn um að undirrita einhverja lánapappíra, gefa einhverjar heimildir eða eitt eða neitt í sambandi við þetta ... alveg frá upphafi. ... Ég heyrði aldrei hósta eða stunu, hef aldrei fengið eitt yfirlit frá þessu fyrirtæki, ekki eitt uppgjör eða það hefur aldrei verið haft samband við mig um eitt eða neitt út af þessu fyrirtæki yfir höfuð.“
Í Bakherberginu er ítrekað horft á hið fræga Kaupthinking-myndband sem gert var fyrir Kaupþing til að sýna starfsfólki bankans að hann væri líklega ótrúlegasta fyrirtæki í heimi. Ekkert fangar stemmningu drambs og firru góðærisáranna jafn vel og myndbandið. Það sýnir að Kaupþing minnti um margt frekar á sértrúarsöfnuð en fjármálafyrirtæki og að leiðtogar bankans voru taldir vera einhvers konar hálfguðir sem væru að endurskilgreina fjármálastarfsemi.
Bakherbergisfólk hefur líka rifjað upp að í myndbandinu er ótrúlegur vöxtur Kaupþings meðal annars þakkaður því að bankinn fari fram yfir venjulega hugsun (e. beyond normal thinking).
Og „viðskipti“ Kaupþings við Desulo og Egil Ágústsson voru vissulega framúrstefnuleg bankaviðskipti, sannkallað Kaupthinking, enda vissi viðskiptavinurinn ekki sjálfur hvað var verið að lána honum né hvað hann var að kaupa.
https://www.youtube.com/watch?v=Rkz-hjpch38