Ég útskrifaðist úr heimspeki snemma á árinu. Eðlilega hafa starfstilboðin hrannast inn, aðallega frá fjármálafyrirtækjum sem vilja endilega finna leið að komast aftur inn í kassann eftir að hafa týnt honum í kjölfar mjög svo skapandi fjármálafimleika. Subway er víst einnig alltaf að leita að góðu fólki en sem jafnaðarmaður get ég þó ekki með góðri samvisku unnið þar eftir að hætt var með jafnaðarkaupið vinsæla, ég vil ekki vera hræsnari. Ég verð að finna verkefni sem ég verð stoltur af, sem heimspekingur.
Helsta afrek heimspekinga virðist þó að skilja eftir sig einhverja grípandi frasa sem eiga að ná gríðarlega mikilli og djúpstæðri visku í samþjappaða setningu. Descartes átti „Ég hugsa, þess vegna er ég“, Íslendingar mega margir byrja að vera meira ef þið vitið hvað ég meina, hehe hoho. (Þegar ég segi Íslendingar þá meina ég í raun fólk yfir höfuð, mér finnst bara líklegara að fólk tengi við þessa setningu ef það hugsar um óþolandi nágranna eða skoðanaglaða vinnufélaga sinn en ekki sem eitthvert abstrakt vandamál mannkyns. Þetta á þó að sjálfsögðu ekki við um þig, auðvitað ekki, þú ert flott(ur).
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_21/48[/embed]
Nietzsche sagði „Guð er dauður“, þau skilaboð bárust nýlega inn á borð dagskrástjóra Rúv sem lét hætta að biðja til hans, eða ekki hans eftir því hvernig þú lítur á það. Síðan hætti hann við að hætta að biðja til hans. Sú ákvörðun sýnir mögulega raunverulegan mátt bæna, sem á engan sinn líka ef undanskilin er fjölmenn Facebook-grúppa. Guð vinnur á óútskýranlegan hátt. Nietzsche sjálfur hefur samt verið dauður í rúmlega öld þannig að boðleiðirnar eru greinilega langar upp í Efstaleiti. Kannski er ágætt eftir allt saman að koma öllu batteríinu á eina hæð, rífa niður veggi og leigja efri hæðina út á siðlausum prís á AirBnB. Nýja Rúv verður bara eins og Google, aldrei lengra en 50 metrar í mötuneyti!
Það næsta sem ég hef komist því að semja svona frasa er líklega „Frelsi er að kúka með opnar dyr“. Ég verð að viðurkenna að þegar ég ber þetta úttak saman við stóru hetjur heimspekinnar finnst mér eins og ég eigi langa leið eftir.
Ég reyni þó að gera gagn. Sem heimspekingur hef ég reynt að tileinka mér að skilja hugtök, einfalda fyrir mér hugtök og í raun að ná einhverjum tökum á hugtökum. Það sem hefur verið hvað nærtækast er hugtök eins og fátækt og hamingja. Það sem mér finnst einkennilegt er að ekki sé fjallað meira um þetta tvennt saman. Því að það er nokkurn veginn vitað hvað fólk þarf til að sleppa við almenna óhamingju. Það er í kringum hálf milljón á mánuði.
Sú tala ætti örugglega ekki að koma neinum lesanda á óvart. Það sem er þó eftirtektarvert er að jákvæð áhrif tekna á hamingjuna hætta að hækka eftir rétt rúmlega 700 þúsund. Það er því ekki galið að draga þá ályktun að ef við gætum aðeins hjálpað fólki að komast upp á þetta bil yrðu langflestir mun ánægðari, og fólk sem á miklu meira en þetta er hvort sem er ekkert að verða hamingjusamara.
Ég veit að þetta hljómar dáldið eins og ég hafi verið að kjammsa á útlensku nautakjöti af þannig áfergju að landslið toxoplasma sé að skriðsynda í spaðmollunni minni, og ég meina, hvernig færum við að því að ná þessari edómónísku útópíu? Enginn skal örvænta, því þótt annað heilahvelið mitt sé einfeldningslegur kattarheili (sem styður enn fremur toxoplasmakenningu margra) sem vill bara klóra í sófa, sofa og líða vel er hinn helmingurinn praktískur. Þeir vinna mjög vel saman og eftirfarandi skilaboð er frá þeim helmingi: Við spörum í heilbrigðiskerfinu með því að svo gott sem útrýma stresstengdum sjúkdómum (fátækt fylgir stressi). Við spörum í réttarkerfinu með því að stórminnka innbrot og heimilisofbeldi (fátækt fær fólk til að gera örvæntingarfulla hluti). Við spörum í velferðarmálum, eða í raun ekki, við breytum velferðarmálum, við breytum öllu í velferðarmál. Og þá situr eftir, hvernig minnkum við þessa fátækt?
Mín praktíska pæling snýst einfaldlega um þetta: Gefum öllum ókeypis pening.
Ríkið borgar þér fyrir að vera manneskja, enda er það ekkert auðvelt hlutskipti. Allir fá það sem kallast skilyrðislaus grunnframfærsla, sem væri einhver 200.000 þúsund kjell, eða ég veit ekki, ég er ekki vísindamaður eða hver sem það er sem fattar tölur, ég er bara heimspekingur sem útvarpar bestu hugmynd síðan einhverjum datt í hug að tungumál væri betri leið til að miðla merkingu en að tjá hana í gegnum dans (sem ætti þó alltaf að vera fyrsti valkostur í samskiptum fólks). Og ef fólk vill eiga meira, þá fær það sér bara smá hliðardjobb, lágmarkslaunadjobb kemur fólki mjög hátt í þá upphæð sem þarf til að hafa ekki áhyggjur. Mér finnst í raun ótrúlegt að Framsókn sé ekki löngu búin að lofa þessu.
Þetta er til dæmis miklu meiri peningur fyrir miklu meira fólk og um leið miklu sanngjarnara en nokkurn tímann „ef þú tókst þetta lán þá viljum við laga allt fyrir þig“-„leiðréttingin““ sem skilaði Framsókn titlinum í ár. Fáránlega góð taktík, það verður ekki tekið af þeim. Svipað góð og Van Gaalíska uppbótartímavaramarkmannsinnáskiptingin hennar Sveinbjargar í borginni. Það er ekki hægt að segja annað um Framsókn en að hún spili sókn. Þessi hugmynd sem ég lýsi er hins vegar algjörlega fordómalaus, ég veit ekki hvort þar liggur hnífurinn í hreinu íslensku úrvalskúnni sem mér heyrist samkvæmt forsætisráðherra okkar að sé að fara að skapa næstu góðærisbólu okkar. Kominn tími á næsta góðæri segi ég.
Annars verð ég við símann ef oddvitar og Oddssynir stjórnmálaflokka vilja heyra meira af þessari tímamótapælingu. Ég sé ekki annað en að stjórnmálaflokkar muni nú slást um mig. Hver veit, kannski munu stjórnmál ná að gera einhvern ánægðan til tilbreytingar í næstu kosningum. Kommentakerfin munu standa auð, þingið hættir að karpa og byrjar að knúsa og veðrið.... já, það er síðan næsta verkefni. Hvernig við lögum helvítis sumurin. Ég er að hallast að gríðarlegri koltvísýringslosun, ég á þó eftir að skoða það nánar.