Margt hefur verið ritað og mörgu haldið fram við val á staðsetningu nýs spítala. Rökin gegn staðsetningu og skipulagi við Hringbraut hafa m.a. verið mikil umferðaraukning og óþægindi samhliða því, allt of stórar byggingar, stórt byggingarland, slæmt skipulag og mikill kostnaður þegar til lengri tíma er litið. Síðast en ekki síst hafa menn eilíflega haldið því fram að aðrar staðsetningar hafi ekki verið skoðaðar nægilega vel, t.d. Vífilstaðir eða Elliðaárvogur. Sömu menn hafa hins vegar kosið að horfa framhjá þeim gríðarlega ábata sem felst í uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.
Umferð
Undanfarið hefur mikið farið fyrir mönnum sem telja sig hafa reiknað út óskaplegan umferðarlegan sparnað af því að hafa spítalann annars staðar, t.d. í Elliðaárvogi. Þeir hafa haldið því fram að með því að reikna fjölda áætlaðra ferða, miðað við ímyndað „miðsvæði höfuðborgarinnar“ (að teknu tilliti til nálægðar mannfjölda við svæðið), sé þjóðhagslega hægt að spara fleiri milljarða árlega.
Það væri fróðlegt að nota sama reiknilíkan og reikna sparnaðinn sem fælist í því að flytja Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík niður í „miðsvæðið“ en í þessum tveimur skólum eru núna samtals um 18 þúsund nemendur og starfsmenn. Sá þjóðhagslegi sparnaður myndi skv. þessum sömu forsendum sennilega nægja fyrir framlögum ríkisins til háskóla á Íslandi árlega!!!
Auðvitað eru málin ekki svona einföld, og það að taka eina og eina breytu út fyrir sviga og beita henni fyrir sig nær ekki nokkurri átt. Það heitir að sjá ekki skóginn fyrir trjánum.
Á meðfylgjandi kökuriti er fjöldi starfsmanna og nemenda í HÍ og HR (núverandi) settar í samhengi við fjölda starfsmanna, sjúklinga og aðstandenda á LSH miðað við að öll starfsemin væri á Hringbraut. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að allir starfsmenn LSH færu til vinnu á sama tíma (væru ekki vaktavinnu), þá er samanlagður fjöldi þeirra sem koma á LSH ekki nema 26 prósent af þessum þremur stofnunum/háskólum. Þá á eftir að telja Íslenska Erfðagreiningu, Alvogen, flugvöllinn og Þjóðminjasafnið svo eitthvað sé nefnt. Ef við horfum enn lengja niður í miðbæ/vesturbæ og gerum ráð fyrir að helmingurinn af þeim sem þar vinna fari nú þegar um Hringbrautarsvæðið erum við að tala um 3000 manns í viðbót að lágmarki í þessa útreikninga.
Þetta þýðir einfaldlega að sú 5-15 prósenta aukning sem verður á heildarumferð um svæðið við það að allar deildir LSH sameinist á Hringbraut hefur engin úrslitaáhrif á umferð á svæðinu. Þessa smá aukningu og framtíðaraukningu næstu áratuga má einfaldlega endurheimta með því að fækka bílastæðum við HÍ og HR og setja gjaldmæli við þau sem eftir standa. Bara 10 prósenta fækkun bílaumferðar frá Háskólunum tveimur myndi vega vel upp á móti aukningu umferðar vegna nýs spítala við Hringbraut, þótt til lengri tíma sé litið.
Umferðarþunginn er mestur frá 1. september til 1. maí (vegna skólanna) milli 8-8:30 og 9-9:30 og svo aftur seinni partinn milli 4-4:30 og 5-5:30. Þetta eru 2-2 1/2 tími. Ég veit ekki betur en á þeim tíma sé sama umferðarteppan í kringum Ártúnsbrekku og inn/útaf Breiðholtsbraut, við Grensásveg, auk þess sem Bústaðavegur og Kringlumýrarbraut eru þétt pökkuð. Að auki benda allar greiningar Reykjavíkurborgar til þess að umferð við nýjan spítala við Hringbraut verði ekki vandamál.
Að setja hlutina í samhengi - Besti spítalinn
Í fyrsta lagi:
Það að koma starfsemi LSH fyrir á einum stað er langmikilvægasta verkefnið, um það geta allir verið sammála. Hvert ár sem líður án þess að það sé gert veldur milljarðatapi fyrir samfélagið.
Í öðru lagi:
Þeim rökum að nálægð við Háskóla Íslands hafi eitthvað með staðsetninguna að gera, hefur af andstæðingum staðsetningarinnar við Hringbraut bara verið ýtt út af borðinu, t.d. með orðunum: „Ég sé ekki að það hafi neitt með þetta að gera“.
Það athyglisverða við þetta er einmitt, að til að byggja upp fullkominn virkilega góðan spítala, sem getur veitt bestu mögulega þjónustu þá þarf sterka og nána tengingu við háskóla. Nánast öll bestu sjúkrahús í Evrópu og Bandaríkjunum hafa nána tengingu við háskóla og háskólar eru í nánasta umhverfi þeirra, oft í sameiginlegu húsnæði. Um 150 starfsmenn Landspítalans eru einnig starfsmenn Heilbrigðisvísindaviðs HÍ. Þar að auki er mikill fjöldi stundakennara sem bæði sinnir kennslu inni á Landspítalanum og við HÍ og HR.
Fyrirlestrar sem haldnir eru á Landspítalanum eru sóttir af starfsfólki og nemendum háskólanna og LSH og jafnframt koma starfsmenn Landspítala á fyrirlestra við HÍ og HR. Þar eru kynntar nýjar meðferðir, nýjar hugmyndir, ný lyf, ný tæki, nýjar uppgötvanir og möguleikar á nýjustu tækni/þekkingu fyrir sjúklinga og meðhöndlun þeirra. Þarna myndast einn suðupottur skapandi hugsunar og framfara sem þetta þjóðfélag þarf svo mikið á að halda. Ég má ekki til þess hugsa að slíkt tækifæri gangi okkur úr greipum.
Sú mikilvæga vísindastarfsemi, nýsköpun og tækniþróun sem á sér stað með samstarfi þessara aðila, má ekki eyðileggja með umferðarhnútarökum eða endalausri skipulagsdeilu. Besti spítalinn verður til í námunda við háskólaumhverfið, svo einfalt er það. Menn verða aldrei á eitt sáttir við staðsetningu, útlit og byggingu húsa eða hverfa. Því miður, en nú er mál að linni.
Í þriðja lagi:
Öll starfsemi sem flytur með sér fólk styrkir innviðina á svæðinu. Starfsmenn og gestir þurfa að fá sér að borða, setjast niður yfir kaffisopa eða bíða eftir ástvini sem er til athugunar. Með tilkomu fleira fólks opnast möguleikinn á fleiri stöðum sem standa undir sér í rekstri allan ársins hring, með tilheyrandi auðgun mannlífs, bæði á Landspítalanum, háskólasvæðinu og vonandi alla leið niður í miðbæ. Þannig að þó einhverjum finnist byggingarnar ljótar og skipulagið stórkallalegt eða umferðin þung, þá er það fólkið á spítalanum og nálægum byggingum sem er hornsteinninn og það er það sem byggir upp Landspítala-háskólasjúkrahús sem besta sjúkrahús sem við höfum átt.
Ég vil því nota tækifærið og hvetja núverandi heilbrigðisráðherra til dáða og að láta ekki háværar fortölur tefja framtíðaruppbyggingu við Hringbraut .
Höfundur er framkvæmdastjóri Lífeindar.