Ef draga ætti einn lærdóm af þeirri fjármálakreppu sem hófst fyrir nokkrum árum, ætti það að vera eftirfarandi: Skattgreiðendur eiga ekki að gangast í ábyrgð fyrir taprekstur fjármálafyrirtækja. Tilraunir standa nú enda yfir í að draga úr þessari ábyrgð. Alþjóðafjármálastöðugleikaráðið (FSB), sem G20 ríkin settu á laggirnar árið 2009, kynnti í byrjun þessa mánaðar nýjar reglur sem eiga að tryggja að lánveitendur en ekki skattgreiðendur taki á sig reikninginn þegar bankar fara í þrot. Reglurnar fela það meðal annars í sér að stórir og kerfislega mikilvægir bankar taki til hliðar meira fjármagn til að mæta áföllum, í formi strangari eiginfjárkrafna og eiga að taka gildi í byrjun árs 2019.
Mark Carney, stjórnarformaður FSB og bankastjóri Seðlabanka Englands, hefur sagt að nýja regluverkið marki þáttaskil. Ríkisstjórnir um allan heim hafa á síðustu árum dælt út hundruðum milljarða til að koma í veg fyrir gjaldþrot kerfislega mikilvægra banka. Flestir eru eflaust á þeirri skoðun að nú sé mál að linni.
En hverju munu þessar reglur breyta í raun og veru? Væri ekki nær að ráðast að rót vandans og gera tilraunir til að endurskipuleggja fjármálakerfið frá grunni? Walter Bagehot, sem var breskur blaðamaður og smíðaði kenninguna um hlutverk seðlabanka sem lánveitanda til þrautarvara, hélt því fram að fjármálaáföll yrðu þegar “hið blinda” fjármagn almennings (með öðrum orðum hefðbundinn sparnaður) væri notað í óskynsamar spekúlatívar fjárfestingar. Þó að fjármálakreppan sem hófst árið 2007 eigi sér margar flóknar ástæður má segja að rót hennar liggi einmitt í þessu. Bankar, sem í grunninn gegna einföldu hlutverki, hófu að nýta fjármögnun í formi sparnaðar í áhættusamar fjárfestingar, í krafti óbeinnar ríkisábyrgðar.
Það er óumdeilt að bankar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Mikilvægast af þeim er hlutverk þeirra sem milliliður sparnaðar og fjárfestingar. Bankar eru hverju hagkerfi lífsnauðsynlegir því þeir stuðla að bættri hagkvæmni og betri nýtingu takmarkaðra verðmæta. Starfsemi stórra alþjóðlegra banka er hins vegar komin langt út fyrir þau hlutverk sem eru réttlætanleg út frá hagsmunum fyrirtækja og heimila og samfélagsins í heild. Bankar stunda áhættufjárfestingar á eigin reikning sem líkjast frekar fjárhættuspili en eðlilegum lánaviðskiptum.
Notkun afleiðusamninga átti þátt í að skapa þann vanda sem að lokum varð til þess að efnahagskerfi víða um heim léku á reiðiskjálfi. En hvernig stendur á því? Er ekki tilgangur afleiðusamninga að draga úr áhættu? Jú, það var upphaflegi tilgangurinn. Hið andstæða virðist hins vegar hafa orðið raunin. Afleiður breyttust í mörgum tilfellum úr því að verja áhættu í að vera notaðar sem tæki til að auka hana og þar með hámarka skammtímahagnað. Urðu í reynd svo flóknar að markaðsaðilarnir sjálfir – fjárfestar, lánveitendur, stjórnendur banka og matsfyrirtæki - skildu þær ekki lengur. Þetta og skortur á gegnsæi afleiðumarkaðarins jók áhættuna í fjármálakerfinu í aðdraganda alþjóðlegu fjármálakreppunnar sem hófst árið 2007. Þrátt fyrir þann almenna skilning að svo hafi verið hefur afleiðumarkaðurinn stækkað stöðugt á síðustu árum. Heildarmarkaðsvirði afleiða í heiminum nam um 20 þúsund milljörðum dollara árið 2013, samanborið við 11 þúsund milljarða dollara árið 2007, samkvæmt Alþjóðagreiðslubankanum í Basel (BIS). Það eitt og sér ætti að hringja viðvörunarbjöllum – og nýjar og strangari reglur um eiginfjárkvaðir munu blikna í samanburði við þann vanda sem gæti skapast í kerfinu. En afleiðumarkaðurinn er bara eitt dæmi þess að lítill árangur virðist hafa náðst í að draga úr kerfisáhættu. Stærstu bankar í heimi hafa aldrei verið stærri. Raunar eiga sex stærstu bankar Bandaríkjanna nú um 70% allra eigna fjármálastofnana þar í landi, samanborið við um 40% árið 2008. Bónusgreiðslur til bankamanna, sem byggja oft á skammtímahagnaði, eru að aukast á ný.
Það ætti að vera eitt af mikilvægustu verkefnum alþjóðastofnana og leiðtoga ríkja um allan heim að sporna við þessari þróun. Það þarf annað og meira til en að setja fleiri og strangari reglur, ef byggja á á sama hugsunarhætti og sama kerfi. Í þessu sambandi ætti eitt fyrsta verkefnið að vera að endurskoða hlutverk seðlabanka, m.a. í þeim tilgangi að reyna að breyta hvötum þeirra sem stýra bönkum. Tilvist seðlabanka sem lánveitanda til þrautavara skapar óbeina ríkisábyrgð á rekstri fjármálafyrirtækja og brenglar hvata. Á meðan bankar geta sótt fyrirgreiðslu til seðlabanka þegar illa árar, munu skattgreiðendur líklega sitja uppi með þær byrðar sem fjármálakreppum fylgir – og eitt er víst, þær munu skella á aftur.