Aðalsteinn Hákonarson
fv. endurskoðandi og
núverandi sttarfsmaður RSK.
Mörgum okkar, sem komin eru á sjötugsaldur og búin að borga vexti og verðbætur af verðtryggðum lánum mestan hluta ævinnar, blöskrar sú umræða sem nú er í gangi um réttindi og stöðu lántakenda.
Eru menn búnir að gleyma því að á upphafsárum verðtryggingarinnar skipti verðbólgan hér á landi yfirleitt tugum prósenta á ári. Það þótti réttlætismál að verðtryggja krónuna og nauðsyn þess var á þeim tíma brennd inn í vitund þjóðarinnar. Stjórmálamenn, bankamenn, lífeyrissjóðir og í raun allir sem höndluðu með peninga voru sammála því að þetta yrði að gerast. Sá sem fengi lánaðan einn pott af mjólk átti að skila einum potti af mjólk til baka ásamt einhverjum vöxtum, þannig átti kerfið að virka.
En þegar launin lækka allt í einu að raungildi þá verður til þetta misgengi sem raskar ríkjandi jafnvægi.
Svona kerfi hefur sýnt sig að vera í þokkalega góðu jafnvægi ef launin eru verðtryggð og vaxa í takt við vísitöluna eða jafnvel hraðar eins og oft var raunin. En þegar launin lækka allt í einu að raungildi þá verður til þetta misgengi sem raskar ríkjandi jafnvægi. Sigtúnshópurinn upplifði þetta t.d. líka en fékk engar bætur, mönnum hefði átt að vera þessi áhætta ljós á þeim tíma þótt sama skoðun sé ekki uppi nú. Þeir sem þá voru með verðtryggð lán hjá húsnæðisstofnun ríkisins urðu meira að segja að láta vaxtahækkun í ofanálag yfir sig ganga til að rétta af stöðu stjóðsins. Það var svona misvægi sem fylgdi hruninu og það er auðvitað ekki verðtryggingunni að kenna, það eru aðrir sem bera ábyrgð á því að verðgildi krónunnar féll og þar með kaupmátturinn.
Hún vill helst taka að láni einn pott af mjólk og skila einum potti af undanrennu í staðinn.
Nú er komin til skjalanna ný kynslóð sem virðist hafa gleymst að kenna þessi einföldu fræði. Hún er heldur ekki að sjá eins grandvör og forsjál og kynslóðin á undan þótt þekking og skólaganga hafi aukist. Hún vill helst taka að láni einn pott af mjólk og skila einum potti af undanrennu í staðinn. Hver spekingurinn á fætur öðrum kemur fram á útvarpsstöðvunum með vissu millibili og heldur því fram að þannig eigi þetta að vera, það sé réttlætismál. Í því felst í raun að seilst er ofan í vasann hjá einhverjum öðrum.
Það verður fróðlegt að sjá hvort sú kynslóð dómara sem nú sker úr ágreiningi meðal þjóðarinnar tekur undir þau sjónarmið sem nú eru uppi þegar niðurstaða fæst um neytendalánin. Að mínu mati fælist í slíkum dómi að hrunið sé verðtryggingunni að kenna en ekki þeim sem léku sér með fjöregg þjóðarinnar. Vonandi verður niðurstaðan þjóðinni farsæl.