Nú hafa sumir minnst á nauðsyn þess að sýna ábyrgð í málefnum flóttamanna á þá leið að hið ábyrga í stöðunni sé að halda að sér höndum svo ekki fari allt gjörsamlega úr böndunum hér á landi. Þeir hafa sömuleiðis minnst á að brýnara sé að huga að málefnum bágstaddra á Íslandi, áður en hugað sé að málum hætt staddra annars staðar í heiminum. Gjörla má hins vegar sjá að rök þessi eru til einskis annars ætluð en að dreifa athygli fólks og ala á sundrungu.
Orðræða þessi felur þá leynt og ljóst í sér að ef við tökum á móti fleiri flóttamönnum til landsins, muni kjörum ákveðinna Íslendinga hraka að einhverju leyti. Að hugsa sér, kjörum Íslendinga muni hraka! Þannig er athygli fólks í raun beint að eigin vanda og fólk hvatt til að líta í eigin garð, í stað þess að koma öðrum til aðstoðar, þar sem koma fleiri flóttamanna hingað hljóti á endanum að koma niður á okkur sjálfum.
Enn fremur mætti kalla aðferð þessa í hæsta máta ósvífna bæði með tilliti til þess að ekki er oft gripið til þessara röksemda nema þegar letja á fólk til athafna og svo til þess að stuttu eftir að sjónarmiðum þessum var haldið á loft hefur einmitt verið hvatt til þess gagnstæða. Eftir að talað var um sjálfa nauðsyn þess að koma öryrkjum fyrst til hjálpar og veita þeim, sem öðrum bágstöddum Íslendingum, aukinn stuðning hefur þvert á móti verið æst til nornaveiða gegn öryrkjum og öðrum „aumingjum“ landsins!
Þannig má sjá það svart á hvítu að rök þessi eru úr lausu lofti gripin til þess eins að halda aftur af þeim sem vilja allt í sínu valdi gera til að hjálpa hætt stöddum. Það fer hreinlega ekki á milli mála að það að vera ábyrgur felur, þessu samkvæmt, ekki í sér að taka á móti fólki sem hefur neyðst til að flýja skelfilegar aðstæður í heimalandi sínu. Það snýst því greinilega ekki um hina samfélagslegu ábyrgð okkar gagnvart fórnarlömbum stríðs og ófriðar úti í heimi, heldur snýst það aðallega um að gæta eigin hagsmuna – að vernda heimkynni okkar fyrir ágangi, jafnvel árásum, þessa utanaðkomandi fólks.
Enda er oft bent á það að menning þessa fólks sé svo ólík okkar eigin að enginn vegur sé fyrir marga flóttamenn að aðlagast íslensku samfélagi. Það sé þá á okkar ábyrgð að vernda menningu okkar fyrir fjölmenningarsamfélaginu með því að veita ekki fleiri flóttamönnum inngöngu. Þannig er menning okkar gerð að einhverjum óyfirstíganlegum múr, eins konar eðlislægum mun, sem aðskilur okkur frá útlendingunum. Er þessi meinti menningarmunur jafnframt eina handhæga vopnið í baráttunni gegn innflytjendum: það eina sem hægt er að nota án þess að ljóstra algjörlega upp um eigin útlendingaandúð.
Þannig kemur ómerkilegt orðagjálfur þeim sjálfum að notum sem kvarta jafnan mest undan fagurgala „hinnar pólitísku rétthugsunar“. Í stað þess að tala um hlutina berum orðum er nefnilega talað um ábyrgð og menningu, hugtök sem láta vel í eyrum flestra landsmanna og erfitt er að mæla á móti. Í stað þess að segja að við viljum helst loka augunum fyrir vanda heimsbyggðarinnar og njóta eigin forréttinda í friði hér á hjara veraldar, segja menn að okkur beri nauðsyn ein til þess að gera nú ekki of mikið. Við verðum að vernda það sem er okkar. Við verðum að vera ábyrg. Við verðum að hafa okkar Lebensraum!
Látum það þá liggja á milli hluta að við gætum jafnt veitt öllum hinum bágstöddu Íslendingum sem og fjölmörgum hætt stöddum flóttamönnum stuðning, ef viljinn væri bara til staðar hjá stjórnvöldum. Hér gætum við gefið mun fleirum rými til þess að lifa góðu lífi.