Búðarhálsstöð, virkjun í eigu Landsvirkjunar, var tekin í notkun 7. mars síðastliðinn. Hún er 95 megavatta virkjun sem stendur við Sultartangarlón, á svonefndum Búðarhálsi. Virkjunin kostaði 230 milljónir Bandaríkjadala, um 30 milljarða króna á núverandi gengi (Dalur = 123 ISK).
Það hefur merkilega lítið verið rætt um eina af helstu forsendu byggingar virkjunarinnar, sem er sjöunda stærsta aflstöð landsins. Forsendurnar voru þær, að Landsvirkjun vildi mæta kröfum sem stór viðskiptavinur fyrirtækisins, Rio Tinto Alcan, setti fram um að það vantaði meiri raforku svo að álver fyrirtækisins í Straumsvík gæti stækkað. Ekkert hefur hins vegar orðið af stækkuninni, og því mallar virkjunin hjá Landsvirkjun nú beint á kostnað okkar skattgreiðenda án fastra langtíma gjaldeyristekna frá Rio Tinto Alcan eins og var yfirlýst ástæða byggingarinnar.
Stjórnmálamönnum virðist vera alveg sama um þetta, jafnvel þó þessi geiri atvinnulífsins, það er afleiðutengd raforkusala til stórfyrirtækja, sé öðru fremur með pólitískan grundvöll og sé hluti af þrasíþrótt þeirra alla daga. Hvers vegna ætli það sé? Af hverju eru stjórnmálamenn ekki að spyrja að þessu og veltu fyrir sér stóra samhenginu? Þetta er há upphæð sem eitt mikilvægasta og stærsta fyrirtæki íslenska ríkisins hefur lagt í virkjunina fyrir Rio Tinto, sem síðan gat ekki staðið við sitt.
Þetta ætti að gefa stjórnmálamönnum tækifæri til þess að velta fyrir sér stöðu Landsvirkjunar, áhættuumhverfi þess og rekstrartækifærum í framtíðinni. Þessi atriði voru meðal annars til umfjöllunar á haustfundi Landsvirkjunar 25. nóvember síðastliðinn.
Landsvirkjun hefur verið undir miklum þrýstingi frá stjórnmálamönnum um að fara í framkvæmdir, virkja, til að skapa störf í erfiðu árferði í efnahagsmálunum, einkum eftir hrunið.
Blessunarlega hefur fyrirtækið haft forstjóra, Hörð Arnarson, sem hefur staðið í lappirnar gagnvart þessu tali stjórnmálamannanna og nýtt sérþekkingu sína til að móta skynsama stefnu fyrir fyrirtækið, framtíðarsýn.
Á árunum 2010 til og með 2013 var fjármunamyndun í fyrirtækinu 100 milljarðar króna, 50 milljarðar fóru í niðugreiðslu skulda og 50 milljarðar í nýframkvæmdir. Það má reyndar deila um virkjanaframkvæmdirnar, í ljósi þess að ekkert varð af stækkun Rio Tinto Alcan. Hugsanlega hefði fyrirtækið einfaldlega átt að einblína bara á að borga niður skuldir og eyða þeim mun meira púðri að undirbúa framtíðaráformin. En þá hefðu umkvartanir stjórnmálamannanna líklega orðið enn meiri. Þeir hafa sýnt það að undanförnu að ef þeir fá greiðan aðgang að óvænt hugsanlega fengnu fé ríkissjóðs, jafnvel 70 til 80 milljörðum króna, þá vilja þeir samt ekki borga niður skuldir skattgreiðenda þó þær séu ískyggilega háar. Þeir vilja frekar gera eitthvað vinsælla, og fá atkvæðin í staðin, óháð öllu öðru. Þetta er svipað með tal sumra stjórnmálamanna um Landsvirkjun. Þeir virðast vilja helst nota fyrirtækið með pólitískri fjarstýringu til þess að skapa störf í sínum kjördæmum, óháð öllu öðru, þrátt fyrir að brugðið geti til beggja vona og áhættan sé mikil. Samanber þessi skakkaföll hjá Rio Tinto Alcan.
Að þessu leyti ættu stjórnmálamenn að taka stjórnun Landsvirkjunar sér til fyrirmyndar, hvað það varðar að vilja ganga hægt um gleðinnar dyr í framkvæmdum á meðan lánamarkaðir eru svo gott sem lokaðir. Virkjanastefna Landsvirkjunar hefur byggt á góðu lánshæfi íslenska ríkisins alla tíð en það hefur versnað frá hruni og setningu hafta. Þetta bitnar beint á ávöxtunarmöguleika þess að selja raforku til álvera á þeim forsendum sem hefur gert til þessa.
Stjórnmálamenn ættu að leggja frá sér fjarstýringuna – ekki síst af því að hún virkar illa eða ekki – og einblína á að teikna upp heildstæða framtíðarsýn fyrir orkugeirann á Íslandi. Skammtímasýnin getur verið kostnaðarsöm og jafnvel brugðist algjörlega, samanber gjaldeyristekjutenging Búðarhálsstöðvar. Í þessu samhengi mega þeir ekki útiloka það, að skynsamasta og besta leiðin til að stuðla að traustum rekstri til framtíðar litið, sem skilar almenningi á Íslandi miklum arði og betri lífskjörum, sé að tengja Ísland við útlönd. Þá er hægt að nýta orkuna betur, fá meira fyrir hana og kannski umfram allt; hætta að reiða sig alfarið á stórnotendur raforku hér á landi. Þeir geta brugðist eins og aðrir.
Athugasemd frá Ólafi Teiti Guðnasyni, upplýsingafulltrúa Rio Tinto Alcan.
Í leiðara Kjarnans 28. nóvember sl. skrifar Magnús Halldórsson um Búðarhálsvirkjun og þá framleiðsluaukningu álversins í Straumsvík sem virkjunin var m.a. byggð til að knýja.
Magnús segir: "Ekkert hefur hins vegar orðið af stækkuninni, og því mallar virkjunin hjá Landsvirkjun nú beint á kostnað okkar skattgreiðenda án fastra langtíma gjaldeyristekna frá Rio Tinto Alcan eins og var yfirlýst ástæða byggingarinnar."
Þetta er ekki rétt. Tæplega helmingur stækkunarinnar er kominn til framkvæmda og framleiðslugeta álversins á ársgrundvelli hefur þannig verið aukin um 15 þúsund tonn. Auk þess hefur í tengslum við aukna og breytta framleiðslu verið settur upp nýr búnaður sem notar nokkur megavött, rétt eins og áætlað var. Viðbótarorkan sem álverið kaupir af Landsvirkjun vegna þessa jafngildir nokkurn veginn fimmfaldri orkunotkun allra gróðurhúsa landsins samanlagt, eða einu kísilveri.
Það er því langur vegur frá því að álverið nýti ekki orkuna frá Búðarhálsvirkjun eða að virkjunin sé án tekna frá Rio Tinto Alcan, þótt vissulega hafi staðið til að framleiðsluaukningin yrði meiri. Eins og tilkynnt var eftir að leiðarinn birtist hefur nú verið samið um greiðslu vegna kostnaðarins sem það hafði í för með sér fyrir Landsvirkjun að byggja virkjunina fyrr en þörf krafði.
PS. Varðandi ávinninginn af Búðarhálsvirkjum má til frekari fróðleiks benda á að orkusamningurinn sem kallaði á virkjunina færði Landsvirkjun verðhækkun á öllu rafmagni til álversins í Straumsvík, ekki bara viðbótinni vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar. Haft var eftir forstjóra Landsvirkjunar í fjölmiðlum að verðhækkunin væri "umtalsverð" miðað við þáverandi álverð, sem er svipað og í dag. Ketill Sigurjónsson gerir einnig grein fyrir ávinningi Landsvirkjunar af þessum samningi í bloggfærslu á Mbl.is í gær (8. des.). Villandi væri að líta framhjá þessum ávinningi við mat á afkomu virkjunarinnar. Fjögur ár voru eftir af eldri orkusamningi álversins og fyrirtækið hafði enga sérstaka ástæðu til að afsala sér honum svona snemma, nema til að geta samið um viðbótarorku frá Búðarhálsvirkjun.
PPS. Fyrstu viðbrögð Kjarnans við athugasemd minni voru þau, að leiðarinn væri réttur vegna þess að framleiðsluaukning álversins hefði ekki orðið eins mikil og til stóð í upphafi. Þess vegna væri réttmætt að segja að "ekkert" hefði orðið af þeirri stækkun sem stóð til. - Slíkur málskilningur er mér algerlega framandi. Dæmi: Ef fjölmiðill fer af stað með áform um að koma út daglega en niðurstaðan verður sú að hann kemur út þrjá daga vikunnar, mætti þá segja að ekkert hefði orðið af útgáfunni? Mér þykir augljóst að það væri rangt.
Athugasemd við athugasemd Ólafs Teits Guðnasonar: Frá því leiðarinn birtist, 28. nóvember, hefur það komið fram, að Landsvirkjun hefur fsamið um greiðslu frá Rio Tinto Alcan upp á 17 milljónir Bandaríkjadala, um tvo milljarða króna, vegna þess að fyrirtækið náði ekki að klára áformin um stækkun og framleiðsluaukningu sem voru upphafleg ástæða fyrir því að Búðarhálsvirkjun var reist. Í tilkynningu frá Landsvirkjun vegna samkomulags við Rio Tinto Alcan segir orðrétt:
„Rio Tinto Alcan skilar Landsvirkjun 35 MW af ónotuðu afli, sem hægt er að nota til að auka framboð raforku á íslenskum raforkumarkaði.Rio Tinto Alcan hefur í nokkur ár möguleika á að endurheimta orku í samræmi við þarfir sínar, upp að því marki að aflnotkun álversins verði allt að 422 MW, enda leitar fyrirtækið nú leiða til að ná áður fyrirhugaðri framleiðsluaukningu með öðrum leiðum. Þetta myndi styrkja samkeppnishæfni álversins og einnig efla mikilvægt framlag þess til íslensks efnahagslífs. Rio Tinto Alcan greiðir Landsvirkjun 17 milljónir Bandaríkjadala, vegna kostnaðarins sem það hafði í för með sér fyrir Landsvirkjun að reisa Búðarhálsvirkjun fyrr en þörf krafði.“
Landsvirkjun er í eigu skattgreiðenda og því eðlilegt að halda því fram, að virkjunin hafa mallað (þó reyndar megi deila um það orð, og notkun þess) á kostnað þeirra, eftir að ljóst var að stækkunaráformin, eins og þau voru útlögð sem forsenda virkjunarinnar, gengu ekki eftir. Einmitt þess vegna er verið að gera samkomulagið, til þess að bæta Landsvirkjun og eigendum hennar upp skaðann af þessum forsendubresti.