Kári Stefánsson telur að fé ríkisins sé betur varið til að kaupa jáeindaskanna en til að ljúka við það verk að reisa hús yfir margs konar starfsemi í íslenskum fræðum. Lengi má deila um slíka forgangsröðun og eðlilegt að menn greini á. En miðað við nýjungar í læknavísindum og kostnað við öflun tækja til lækninga er ljóst að best væri að moka sem fyrst ofan í holu íslenskra fræða á Melunum, ef viðhorf Kára eiga að ráða. Endalaust mun Kári geta bent á ný tæki sem mikilvægari séu en þetta hús, þótt jáeindaskanninn verði keyptur. Spurningin er þá hvort slík rökræða um val milli óskyldra verkefna hafi einhverja merkingu eða geti leitt til nokkurrar vitrænnar niðurstöðu.
Spurninguna um hús eða ekki hús setur Kári þannig fram að hún snúist um að stjórnvöldum þyki „gaman að bjóða fólki upp á nýtt og gott húsnæði fyrir vinnustað og ... gaman að taka á móti gestum í slíku húsnæði, en ... gaman ... hlýtur að víkja fyrir nauðsynjum,“ segir hann í grein í Fréttablaðinu 21. apríl. Ég er alveg sammála því að starfsemi er mikilvægari en hús, en starfsemi þarf aðstöðu. Nú er á það að líta að Háskóli Íslands vex hratt, stúdentum fjölgar og rannsóknastarfsemi eykst. Alveg eins og bent hefur verið á um Landspítala er óhagkvæmt og til lengdar ómögulegt að hýsa aukna starfsemi sem gerir kröfur um nútímatækni í gömlu, dreifðu og alltof þröngu húsnæði. Það verður áreiðanlega gaman fyrir forráðamenn Landspítalans að bjóða starfsfólkinu inn í nýtt húsnæði, ef þeim tekst einhvern tíma að komast að niðurstöðu um hvar það eigi að vera. Þar verður vonandi jáeindaskanni og alls konar græjur „til gamans“. En fleira er matur en feitt ket.
Það verður áreiðanlega gaman fyrir forráðamenn Landspítalans að bjóða starfsfólkinu inn í nýtt húsnæði, ef þeim tekst einhvern tíma að komast að niðurstöðu um hvar það eigi að vera. Þar verður vonandi jáeindaskanni og alls konar græjur „til gamans“. En fleira er matur en feitt ket.
Með orðalagi sínu ýjar Kári að því að sýningaraðstaða fyrir handrit sé einkum til þess ætluð að menn geti montað sig af henni þegar þeir fá fína erlenda gesti. Það er vissulega gaman að leyfa góðum gestum sjá að við búum vel að menningararfi okkar og kynningu hans, en það er afar lítill hluti af starfi kringum handritasýningu. Þann áratug sem handritasýning Árnastofnunar var í Safnahúsinu komu þangað hvern dag mikinn hluta ársins íslensk skólabörn til kynnast þessum arfi, fengu kennslu og höfðu mikla ánægju af. Þangað komu líka nemendahópar erlendis frá, fjöldi erlendra ferðamanna greiddi húsinu aðgangseyri og gladdist yfir sýningunni án þess að tekið væri á móti þeim með sérstakri viðhöfn.
„Íslensk fræði hafa næsta lítið ef nokkuð með listir að gera og hafa harla lítil áhrif á ríkjandi menningu,“ segir Kári. Rétt er það að það er munur á fræðastörfum og list, jafnvel þótt fræðin glími m.a. við list. Við gætum líka sagt að rannsóknir í erfðafræði lækni engan. Íslendingar hafa lengi spjallað um ættareinkenni og ættarfylgjur, það má kalla þjóðleg fræði. Þau geta verið skemmtileg en ná skammt til skilnings á sjúkdómum og heilsufari. Ef íslensk fræði væru ekki stunduð á akademískum grunni væri skilningur okkar á menningu okkar og vitneskja um hana ekki upp á marga fiska. Froðusnakkar mundu vaða uppi með þjóðrembu og heimóttarskap eða grunnfæran flysjungshátt í enn meira mæli en þeir gera nú. Listin getur auðvitað lifað án fræðanna, en fjölmargir listamenn nýta sér og njóta góðs af rannsóknum á íslenskri menningu og þeim söfnum sem m.a. eru varðveitt á Árnastofnun. Listin nærist á menningararfinum ásamt áhrifum utanfrá og sköpunarkrafti að innan. Spyrjið tónskáld, myndlistarmenn, leikhúsfólk, kvikmyndagerðarmenn og rithöfunda. Sjálfra okkar og sjálfsvirðingar okkar vegna þurfum við að leggja rækt við menninguna, líka fræðilega. Það kostar nokkuð, og það er illt ef þeir sem eru aflögufærir tíma ekki að skila samfélaginu svo miklu af því sem þeir fá í sinn hlut að við getum bæði lagt rækt við líkamlega og andlega heilsu og listir og fræðastarfsemi.
Spyrjið tónskáld, myndlistarmenn, leikhúsfólk, kvikmyndagerðarmenn og rithöfunda. Sjálfra okkar og sjálfsvirðingar okkar vegna þurfum við að leggja rækt við menninguna, líka fræðilega.
Að lokum: Hvað á að gera í húsi íslenskra fræða? Þar á að fara fram öll kennsla í íslensku og íslenskum fræðum í Háskóla Íslands: þjálfun rannsóknafólks, móðurmálskennara, kennsla í íslensku sem öðru máli og fyrir útlenda stúdenta. Ásókn erlendra stúdenta í nám í íslensku og íslenskum miðaldafræðum hefur lengi verið miklu meiri en hægt er að verða við. Þetta fólk mun leggja stund á íslensk fræði heima hjá sér, þýða íslenskar bókmenntir, kynna íslenska menningu. Í húsi íslenskra fræða eiga að fara fram rannsóknir á menningararfi sem safnað hefur verið allt frá dögum Brynjólfs biskups Sveinssonar og Árna Magnússona, handritum, hljóðritum með tali og söng, orðasöfnum, örnefnasöfnum. Þar er unnið að rannsóknum og öðru starfi sem á að leggja grunn að því að íslenska geti lifað af í vélvæddum heimi upplýsinga. Þar á að varðveita allt safnaefnið við bestu skilyrði, gera við handrit, gera stafræn eftirrit af safnkosti svo að hlífa megi honum sem allra mest við notkun og sliti. Jú, og þar á að sýna handrit og fræða gesti og gangandi um þau.
Verkefnin eru nóg, en fjármuni skortir átakanlega, enda hafa fjárveitingar til Árnastofnunar og annarra menningarstofnana eins og Landsbókasafns-Háskólabókasafns verið jafnmikið skornar niður á undanförnum árum og til Landspítalans, þótt það sé ekki jafnvel auglýst.
Ég er ekki „á móti“ jáeindaskanna, og ég býst ekki við að Kári Stefánsson telji sig vera á móti Húsi íslenskra fræða, en að setja þetta upp sem valkosti er einmitt bjánaskapur. Fyrsta heimastjórn bláfátækrar þjóðar taldi brýnasta verkefni að reisa safnahús, sem enn stendur og ber upphafsmönnum sínum fagurt vitni. Á krepputímum var lagt í að reisa Háskóla og Þjóðleikhús. Kannski var það allt bjánaskapur, en mig langar ekki til að vera hluti af metnaðarlausri þjóð, jafnvel þótt hún verði heilsuhraustust og langlífust allra.
Höfundur er fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar.