Það var áhugavert að fylgjast með endapunkti skuldaniðurfellingarvegferðar ríkisstjórnarinnar á þriðja blaðamannafundinum sem haldinn var á einu ári vegna hennar. Með hverjum fundinum hafa ábyrgðarmennirnir, formenn ríkisstjórnarflokkanna, og aðkeypt almannatengslateymi þeirra slípast til í að fela mesta óréttlætið sem felst í aðgerðinni með því að draga fram valin dæmi og setja þau fram með hæpnum forsendum. Samt er þetta alltaf sama varan sem þeir eru að selja.
Hin hressa „á-bið“ tónlist sem spiluð var áður en kynningin hófst, og þýð kvenmannsröddinn sem leiddi fólk í gegnum leiðbeiningarmyndbandið um hvernig eigi að nálgast peningagjöfina úr ríkissjóði, lét manni líða eins og maður væri staddur í Icelandair-flugvél og geðug flugfreyja með skáhatt væri að selja manni Saga-Boutique varning.
Halldór Benjamín Þorbergsson hagfræðingur stóð sig líka vel í hálftíma langri kynningu á því sem ríkisstjórnin vill að við fáum að vita um Leiðréttinguna. Djúp rödd hans, réttar áherslur og úthugsuð framsetning valinna dæma gerði það að verkum að þetta hljómaði allt í einu ágætlega.
En svo var glærupakkinn birtur.
Millifærsla milli kynslóða
Því er sífellt haldið fram að skuldaniðurfellingin sé almenn aðgerð vegna þess að fólk þurfti að sækja um hana. Það er hún ekki. Hún er sértæk aðgerð fyrir fólk sem var með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. Þeir sem falla í þann hóp eru 91 þúsund einstaklingar. Það eru 28 prósent þjóðarinnar. Og hluti þessa hóps fær meira að segja ekkert frá ríkinu. Ekki frekar en leigjendur, öryrkjar, þeir sem eru skuldlausir eða öll hin 235 þúsundin sem þurfa að horfa upp á ríkið gefa peninga úr ríkissjóði til hluta þjóðarinnar.
Um 155 þúsund Íslendingar eru yngri en 33 ára. Það er tæpur helmingur landsmanna. Samkvæmt kynningunni fær þessi hópur um tíu prósent af stóru millifærslunni, um átta milljarða króna.
Um 155 þúsund Íslendingar eru yngri en 33 ára. Það er tæpur helmingur landsmanna. Samkvæmt kynningunni fær þessi hópur um tíu prósent af stóru millifærslunni, eða um átta milljarða króna. Það þýðir að 90 prósent fer til eldri kynslóða. Í kynningunni í gær var lögð mikil áhersla á að 68 prósent milljarðanna 80 færu til þeirra sem voru yngri en 50 ára árið 2009. En það þýðir að 32 prósent upphæðarinnar, um 25,6 milljarðar króna, fer til fólks sem er 56 ára eða eldra í dag.
Þegar skuldaniðurfellingaraðgerðin var kynnt í Hörpu fyrir um ári síðan var það gert undir yfirskriftinni „Sáttmáli kynslóðanna“. Einhvern veginn er það til efs að þær kynslóðir sem borga pakkann með skattfé sínu, þær yngri, séu jafn sáttar og þær sem fá pakkann, þær eldri.
Blekkingardæmin
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mættu á sitthvora sjónvarpsstöðina í gær til að verja aðgerðina. Báðir lögðu mikla áherslu á það í máli sínu að aðgerðirnar gætu lækkað höfuðstól lána um 20 prósent. Á þessu var líka hamrað í kynningunni í gær.
En til að lækka höfuðstól lána þinna um 20 prósent þá þarftu að vera með lán frá árinu 1996. Þá var móðir mín jafngömul og ég er í dag. Og til að ná þeirri lækkun þarf að fá góða millifærslu úr ríkissjóði, hluta af 20 milljarða króna skattaafslættinum sem tekin verður af samneyslu barna framtíðar og borga séreignarsparnaðinn sinn í steypu í nokkur ár.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á þriðja skuldaniðurfellingarblaðamannafundinum á einu ári.
Tæplega 30 þúsund með litlar skuldir fá peninga
Í framsetningu á niðurstöðum millifærslunnar var einnig tilgreint að um 70 prósent samþykktra umsókna séu frá einstaklingum sem skulda undir 15 milljónum króna og hjónum sem skulda undir 30 milljónum króna. Þetta var sett fram eins og um frábærar fréttir væri að ræða.
Ef þú skuldar undir tíu milljónir króna íbúðarhúsnæði á Íslandi í dag þá ertu ekki í skuldavandræðum. Þá ertu raunar í mjög góðri stöðu.
Í glærukynningunni er hins vegar hægt að sjá að 17.960 aðilar, 8.727 einstaklingar og 9.233 hjón eða sambúðarfólk, sem skulda undir tíu milljónum króna í húsnæðislán fá niðurfellingu. Það þýðir að 27.193 einstaklingar með svo lágar skuldir fá niðurfellingu. Ef þú skuldar undir tíu milljónir króna íbúðarhúsnæði á Íslandi í dag, þá ertu ekki í skuldavandræðum. Þá ert þú raunar í mjög góðri stöðu.
Þá fengu 3.281 aðilar, 539 einstaklingar 2.742 hjón eða sambúðarfólk, sem skulduðu yfir 45 milljónir króna samþykkta leiðréttingu. Ef þú skuldar yfir 45 milljónir króna í íbúðarhúsnæði, og hefur ekki nýtt þér önnur skuldaniðurfellingarúrræði hingað til, þá ertu væntanlega í mjög dýru húsnæði og með helvíti fínar tekjur til að þjónusta skuldirnar sem því fylgja.
Glærurnar urðu síðan bara skrýtnari og skrýtnari. Þar var til að mynda sett fram sem jákvæð niðurstaða að um 70 prósent millifærslunnar fari til hjóna sem eiga minna en 25 milljónir króna í eigið fé og einstaklinga sem eiga minna en ellefu milljónir króna í eigið fé.
Það þýðir að 30 prósent fara til hjóna sem eiga meira en 25 milljónir króna í eigið fé og einstaklinga sem eiga meira en ellefu milljónir króna í eigið fé. 24 milljarðar króna af skattfé renna til þessa hóps.
Valin dæmi og raunskiptingin falin
Mesta almannatengslasnilldin var samt sú að gera áhorfendum algjörlega ókleift að lesa nokkra skiptingu á gæðunum út úr kynningunni aðra en þá sem valið var að kynna. Flestar glærurnar voru settar fram með einhverskonar hlutfallsbilum og ómögulegt var að sjá skiptingu milli aldurs-, tekju- og eignahópa utan þeirra dæma sem valin voru til að sykra upp niðurstöðuna.
Frekara niðurbrot hlýtur hins vegar að vera væntanlegt. Ef ríkisstjórnin sér ekki sóma sinn í að birta það fljótlega hlýtur stjórnarandstaðan að krefjast þess.
Gömul rangindi ekki rök fyrir nýjum
Söngurinn um að þetta sé jákvæð efnahagsaðgerð fyrir alla er löngu orðinn marklaus. Nánast allir greiningaraðilar, nema þeir sem vinna sérstaklega fyrir Leiðréttinguna, segja að 80 milljarða króna peningagjöf til einhverra muni valda verðbólgu og ruðningsáhrifum á fasteignamarkaði sem geri öðrum hópum samfélagsins mun erfiðara um vik að halda í við þiggjendurna í lífsgæðakapphlaupinu.
Já, það var ósanngjarnt að þeir sem tóku gengistryggð húsnæðislán, að mörgu leyti áhættusæknustu lántakendurnir, hafi fengið rúmlega 100 milljarða króna niðurfærslu. Sú niðurfærsla var hins vegar vegna þess að lánin voru ólögmæt og kom frá bönkum, ekki ríkinu. Og já, það var ósanngjarnt að allar innstæður voru tryggðar í hruninu á meðan að virði eigna allra þeirra sem áttu ekki innstæður féll eins og steinn.
En það gengur ekki að nota rangindi fortíðar til að rökstyðja rangindi dagsins í dag.
En það gengur ekki að nota rangindi fortíðar til að rökstyðja rangindi dagsins í dag.
Ný stéttarskiptingarlína
Ný stéttarskiptingarlína hefur verið dregin í sandinn. Slík lína var áður dregin á níunda áratugnum þegar verðtryggingunni var skyndilega komið á. Þá hafði ríkið borgað upp, í gegnum verðbólgu, húsnæði fjölmargra. En á þeim tíma var línan dregin með kerfisbreytingu. Allt í einu áttu ekki fleiri að fá.
Í dag er línan dregin á blaðamannafundum. Nú standa jakkafataklæddir menn glottandi og gefa himinháar fjárhæðir úr ríkissjóði til hluta þjóðarinnar. Sá hluti er nú með forskot á hina. Og ýtt hefur verið verulega undir aukna misskiptingu.
Lærdómurinn sem draga verður af þessu öllu saman er sá að stjórnmálamenn taka nánast alltaf rangar ákvarðanir. Tilvera þeirra snýst um að láta kjósa sig á fjögurra ára fresti og líftími flestra þeirra er það stuttur að þeim er oftast sama um langtímaáhrif ákvarðanna sinna.
Við hin þurfum hins vegar að lifa með þeim.