Það kom líkast til fæstum á óvart að nýjar traustmælingar MMR sýndu mest vantraust gagnvart Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Hann er gífurlega umdeildur í störfum sínum og hefur ítrekað tekist að setja samfélagið á hliðina með yfirlýsingum sínum og athöfnum. Aldrei hafa jafn margir sagst treysta honum frekar eða mjög lítið og nú (63,2 prósent) og er vantraustið á svipuðum slóðum og það var lengi vel gagnvart Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur á síðasta kjörtímabili, en ríkisstjórn þeirra var ekki síður umdeild.
Sömuleiðis kom það fáum á óvart að traust á Sigmund mældist ekki mikið (17,5 prósent treysta honum frekar eða mjög mikið). Það er í takt við fallandi fylgi Framsóknarflokksins í könnunum.
Það vakti hins vegar athygli að annað árið í röð rekur Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, lestina í traustmælingunum. Hann er eini stjórnmálaleiðtoginn sem sigrar forsætisráðherrann þegar kemur að því að mæla hversu fáir treysta honum vel. Sömuleiðis eykst vantraust á Árna Pál töluvert á milli kannanna og hann er eini stjórnarandstöðuformaðurinn sem yfir 50 prósent aðspurðra treysta frekar eða mjög lítið. Sjaldgæft er að stjórnarandstöðuleiðtogi njóti jafn mikils vantrausts.
Auk þess hlýtur það að vera áhyggjuefni hjá Árna Páli að hlutfall þeirra sem treysta honum vel hefur minnkað í hverri einustu traustkönnun sem framkvæmd hefur verið frá því að hann varð formaður Samfylkingarinnar. Og hlutfall þeirra sem treysta honum illa aukist í þeim öllum sömuleiðis. Og enn meira áhyggjuefni hlýtur að vera að færri bera traust til hans en nokkru sinni Jóhönnu Sigurðardóttir, forvera hans í starfi. Á meðan að Jóhanna leiddi á tíðum afar óvinsæla ríkisstjórn í gegnum gríðarlegan ólgusjó stórkostlegra átaka fór traustfylgi hennar aldrei neðar en 16,9 prósent.
Til viðbótar hlaut Samfylkingin eina verstu útreið sem stjórnmálaflokkur hefur fengið í kosningum vorið 2013 þegar flokkurinn fékk einungis 12,9 prósent atkvæða, sem eru einu kosningarnar sem Árni Páll hefur leitt flokkinn í gegnum. Áður hafði minnsta fylgi flokksins í kosningum verið 26,8 prósent.
En verst af öllu fyrir Samfylkingarfólk hlýtur að vera að flokkurinn tekur ekki til sín neitt óánægjufylginu sem hefur skapast vegna óvinsælda sitjandi ríkisstjórnar.
En verst af öllu fyrir Samfylkingarfólk hlýtur að vera að flokkurinn tekur ekki til sín neitt óánægjufylginu sem hefur skapast vegna óvinsælda sitjandi ríkisstjórnar. Flokkurinn virðist fastur í mælingum með um 15 prósent fylgi, þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu og í miðju stríði á vinnumarkaði, en sögulega hefur Samfylkingin og forverar hennar verið stjórnmálaflokkar verkalýðsins. Án Evrópusambandsumsóknar virðist flokkurinn hins vegar ekki vita með fullu hvar hann eigi að fóta sig í hinu pólitíska litrofi.
Í stað þess að safna vopnum og marka skýra stefnu á nýlegum landsfundi Samfylkingarinnar fór hann að mestu í afar umdeilda formannskosningu sem óumdeilanlega skaðaði flokkinn umtalsvert. Umboð Árna Páls, ofan í allar slæmu kannanirnar, er veikt eftir að hann sigraði Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur með einu atkvæði. Í stað þess að koma út af þeim fundi með allar byssur á lofti og skýra stefnu er flokkurinn jafnvel enn daufari eftir landsfundinn en hann var fyrir hann. Og laskaðan formann sem kosinn var til næstu tveggja ára.
Flokkurinn á reyndar mjög sterkan leiðtoga í Degi B. Eggertssyni borgarstjóra (hann mælist með 37 prósent traust í könnunum MMR) sem leiddi flokkinn til kosningasigurs í Reykjavík í sveitastjórnarkosningunum í fyrra. Vandamálið er að Dagur vill hvorki verða formaður flokksins né fara í landsmálin.
Í bakherbergjunum eru menn því sammála um að Samfylkingin sé að upplifa fordæmlausa leiðtoga- og hugmyndafræðilega krísu. Áhugavert verður að sjá hvernig flokkurinn hyggst vinna úr henni.