Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra náði viðspyrnu í lekamálinu svokallaða á sunnudag, þegar hún rúllaði upp viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni. Ráðherrann hitti allar réttu nóturnar sem almannatengslasérfræðingar hefðu ráðlagt henni að hitta, fyrst hún hefur valið þá leið að neita vitneskju um lekann fram í rauðan pólitískan dauðann.
Hún fór yfir þau ömurlegu áhrif sem fjölskylda hennar hefur orðið fyrir vegna þess ágangs sem hún sætir vegna málsins. Sagði frá alvarlegum morðhótunum, sem ömurlegt er til þess að hugsa að fyrirfinnist í íslensku samfélagi. Hún varpaði fram þeirri skoðun sinni að verr væri vegið að konum í pólitík en körlum. Þegar á gæfi hjá körlunum, taki þeir iðulega fast utan um hvern annan en skilji konurnar eftir einar úti á berangri við sömu aðstæður. Allt ofangreint er miður og engin á að þurfa að sitja undir slíku vegna starfa sinna í stjórnmálum. En ekkert ofangreint snýst um efnisatriði lekamálsins.
Staðreyndir málsins
Nokkrar staðreyndir liggja fyrir í málinu. Þær hafa verið opinberaðar í dómsskjölum. Það liggur fyrir að lögreglan, sem rannsakaði málið ítarlega og af því er virðist af töluverðri hörku, telur að átta starfsmenn innanríkisráðuneytisins hafi búið yfir vitneskju um minnisblaðið. Fimm af þeim eru embættismenn. Hinir þrír eru aðstoðarmenn innanríkisráðherra og ráðherrann sjálfur.
Það liggur líka fyrir að lögreglan telur sig hafa rökstuddan grun um að annar aðstoðarmannanna, Gísli Freyr Valdórsson, hafi lekið minnisblaðinu til Fréttablaðsins og mbl.is, sem birtu fréttir upp úr því þann 20. nóvember 2013. Í dómskjölum er sá grunur rökstuddur með því að lögreglan hafi farið yfir öll fjarskipti aðstoðarmannsins og þar komi fram að að hann hafi átt fjögur samtöl við fréttamann hjá Fréttablaðinu, það fyrsta klukkan 18:40 og hin síðar um kvöldið þann 19. nóvember 2013. Morguninn eftir átti sami aðstoðarmaður símtal við Harald Johannesen, annan ritstjóra Morgunblaðsins, rúmum klukkutíma áður en frétt byggð á minnisblaðinu birtist á mbl.is. Aðstoðarmaðurinn neitar því að samtölin sem hann hafi átt við umrædda fjölmiðlamenn hafi snúist um lekamálið. Það sé tilviljun að þau hafi átt sér stað við aðila innan sömu fjölmiðla sem birtu fréttir um málið svo skömmu áður en slíkar fréttir birtust.
Samkvæmt dómskjölum vistaði aðstoðarmaðurinn skjal sem innihélt minnisblaðið að kvöldi 19. nóvember. Lögreglan grunar að aðstoðarmaðurinn hafi bætt við meiðandi setningum neðst í skjalið. Aðstoðarmaðurinn heldur því hins vegar fram að skjalið hafi verið viðhengi í pósti sem hann hafi fengið og að hann hafi vistað það á skjáborði tölvu sinnar. Þess vegna hafi tölvan spurt um hvort hann vildi vista breytingar á skjalinu.
Ekki hægt að sanna neitt með óyggjandi hætti
Þegar Sigurjón M. Egilsson, sem stýrir Sprengisandi, spurði Hönnu Birnu út í þessi símtöl, sem eru sannarlega lykilatriði í lekamálinu, sagði ráðherrann ekkert óeðlilegt við að aðstoðarmaður sinn hafi átt umrædd símtöl. Orðrétt sagði hún: „Við erum í samskiptum við fjölmiðla allan daginn. Ráðuneytið mitt hefur fimmtíu málaflokka undir. Rannsóknin tengist því ekkert“. Með svari sínu tekur Hanna Birna sömu línu og aðstoðarmaður hennar gerði við yfirheyrslu hjá lögreglunni. Símtölin voru óheppilegar tilviljanir en sanna ekkert.
Og það er rétt að þau sanna ekkert. Það er ekki, með óyggjandi hætti, hægt að sanna að Gísli Freyr hafi lekið skjalinu. Hann neitar því og þeir sem bera ábyrgð á fréttunum sem skrifaðar voru um lekamálið neita, réttilega, að upplýsa um heimildarmenn sína. Lögreglumennirnir sem framkvæmdu rannsóknina virðast telja að slík upplýsing þurfi að eiga sér stað til að sönnunarfærsla þeirra verði uppfyllt. Það liggja hins vegar frammi nokkuð ítarlegar staðreyndir í málinu og hvað átti sér stað að kvöldi 19. nóvember og að morgni dagsins sem eftir fylgdi. Símtölin áttu sér stað og átt var við skjalið. Það liggur líka fyrir að sá hópur sem skynsamlega er hægt að ætla að hafi vitað af skjalinu er mjög lítill.
Tíaði aðstoðarmann upp til að falla á sverðið
Hanna Birna var mjög klók í tilsvörum varðandi þetta á Sprengisandi. Hún sagði aðstoðarmenn sína neita því að hafa lekið upplýsingum út úr húsi og að hún geti „ekki bara hent fólki út úr ráðuneytinu til að létta á mér pólitísku álagi“. Hún sagði hins vegar líka að ef það kæmi í ljós að einhver í ráðuneyti hennar hafi sent gagnið frá sér, þá hafi sá hinn sami algjörlega brotið trúnað gagnvart henni.
Með þessari yfirlýsingu er Hanna Birna að opna á þann möguleika að láta pólitískt skipaðan ráðgjafa sinn, sem starfa alfarið í hennar umboði, falla á sverðið fari svo að hann verði ákærður fyrir lekann án þess að hún segi af sér. Fari svo að lekinn yrði sannaður fyrir dómstólum myndi hún bera fyrir sig trúnaðarbrot gagnvart sér og sitja áfram. Aðstoðarmaðurinn yrði látinn bera ábyrgðina einn.
Snýst um „yfirhylminguna“ frekar en „glæpinn“
Það getur hins vegar enginn annar en Hanna Birna tekið ábyrgð á málinu. Það snýst nefnilega að svo litlu leyti um „glæpinn“, þ.e. lekann sjálfan. Sem blaðamaður veit ég að það er alvanalegt að gögn leki úr stjórnsýslunni. Þeir sem leka telja sig vanalega hafa einhvern pólitískan hag af lekanum. Það er blaðamanna að meta fréttnæmi þeirra gagna sem lekið er og taka síðan sjálfstæða ákvörðun um framsetningu frétta sem byggja á þeim ef niðurstaðan er sú að innihaldið eigi erindi við almenning.
Lekamálið snýst að svo miklu meira leyti um „yfirhylminguna“. Það er yfirmáta klaufalega meðferð innsta hrings Hönnu Birnu og hennar sjálfrar á umræðu og fréttaflutningi um málið. Að hún sé að hringja í ritstjóra fjölmiðla og segja þeim að reka einhverja blaðamenn, að hún sé að skamma þingmenn fyrir að spyrja út í málið í þingi, að ráðherrann sé í besta falli loðinn í tilsvörum þegar hún er spurð út í málið eða sé jafnvel að segja ósatt og að meðhöndlun hins aðstoðarmanns hennar og fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins á samskiptum við fjölmiðla vegna málsins hafi verið algjör hörmung og virkað sem olía á tortryggniseldinn hefur allt saman búið til skrímsli úr þessu máli sem það þurfti ekki að verða í upphafi. En alvarlegast af öllu er annars vegar að ráðuneytið hafi látið fara fram hvítþvottsrannsókn sem hafi skilað þægilegri niðurstöðu og hafi ætlað að láta þar við sitja, þrátt fyrir að rannsókn lögreglu hafi síðar sýnt að allt hafi legið öðruvísi. Hins vegar eru alvarlegustu fletir málsins samskipti Hönnu Birnu við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.
Ótrúlegt dómgreindarleysi sem verður að hafa afleiðingar
Það er huglægt mat hvað sé þrýstingur. Hanna Birna getur ekki sagt það frekar en ég hverskonar samskipti undirmaður hennir upplifir sem þrýsting. Það að Hanna Birna ákvað að sitja áfram sem dómsmálaráðherra landsins á meðan að lögreglurannsókn fer fram á ráðuneyti hennar, þar sem pólitískir skipaðir aðstoðarmenn hennar eru með réttarstöðu grunaðra, er að mínu mati ótrúlegt dómgreindarleysi af hennar hálfu. En að telja það í lagi að ræða málið og koma á fram gagnrýni á rannsóknina við yfirmann lögreglunnar á meðan að á henni stendur jaðrar beinlínis við heimsku.
Slík samskipti falla auðveldlega undir hatt valdníðslu og þá má ekki láta slíka eiga sér stað innan íslensks stjórnkerfis.
Skiptar skoðanir
Nú fer vonandi að glitta í einhverskonar niðurstöðu í lekamálinu, að minnsta kosti tímabundna. Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að niðurstöðu ríkissaksóknara sé að vænta fyrir miðjan ágústmánuð.
Skiptar skoðanir eru á meðal lögfróðra manna sem ég hef rætt við hvort þessi líkindi sem lögreglan telur sig hafa fyrir því að aðstoðarmaðurinn hafi lekið skjalinu muni leiða til þess að hann verði ákærður.
En eftir stendur að málið mun hafa miklar afleiðingar fyrir Hönnu Birnu hvort sem henni tekst að sitja áfram eða ekki. Mjög veik stuðningsyfirlýsing formanns flokks hennar í gær, sem kom eftir að hann hafði ekki viljað tjá sig um málið dögum saman, og áhyggjur margra samflokksmanna hennar sýna þær pólitísku afleiðingar sem málið hefur þegar haft fyrir hana. Það mun hið minnst gera henni mjög erfitt að ná þeim pólitíska hæðum sem óbilandi metnaður hennar stendur til í að ná.
Hverjum trúir þú?
Og svo mun hún þurfa að glíma við almenningsálitið. Það er flóknara viðfangsefni. Hvort sem ákært verður í málinu eða ekki. Gagnvart því stendur nefnilega eftir mjög einföld spurning. Hverjum trúir fólk? Trúir það því að grunsemdir lögreglunnar um að aðstoðarmaður ráðherrans hafi lekið skjalinu, og símtöl hans við starfsmenn þeirra fjölmiðla sem birtu fréttir um málið og skjalabreytingar á tölvu hans styðji þær grunsemdir, eða trúir fólk því að símtölin og skjalabreytingin sé einfaldlega mjög óheppileg tilviljun?
Svarið við þessum spurningum mun líklega ráða miklu um pólitíska framtíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.