Í nýsamþykktu Svæðisskipulagi Reykjavíkur og nágrennis er reiknað með 70.000 manna aukningu íbúafjölda á næsta aldarfjórðungi. Ný sýn Samtaka sveitarfélaga á svæðinu (SHH) í skipulagsmálum snýst í hnotskurn um byltingarkennt samgöngukerfi og byggðaþéttingu.
Fram kemur að núverandi byggð hafi dreifst um óvenju stórt svæði undanfarna áratugi. Því gerir áætlunin ráð fyrir að nýbygging næsta aldarfjórðungs fari að mestu fram innan núverandi borgarmarka.
Hryggjarstykkið í skipulaginu er nýtt samgöngukerfi, Borgarlínan. Áætlað er að byggð þéttist meðfram línunni, og almenningssamgöngur verði raunhæfari valkostur en áður. Borgarlínan mun sjá um fólksflutninga með hraðvögnum eða léttlestum.
Húsnæðisvandinn ekki nefndur einu orði
Umræðan eftir kynningu skipulagsins snýst að mestu um Borgarlínuna og kostnað vegna léttlesta. Húsnæðisvandamál höfuðborgarsvæðisins eru hins vegar ekki nefnd einu orði í þessari áætlun, sem öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins standa þó að.
Reykjavík og nágrenni er fyrir löngu runnin saman í landfræðilega heild. Fólksfjöldi svæðisins samsvarar hverfi í erlendri stórborg. Samt eru rekin sjö sveitarfélög í „hverfinu.“ Af hagkvæmnisástæðum er samvinna á svæðinu um grunnþjónustu á lífsnauðsynjum eins og vatnsveitu, orkudreifingu, vegagerð og svo framvegis.
Þeim mun merkilegra er að áðurnefnd sveitarfélög hafa enga sameiginlega sýn í húsnæðismálum. Þó Reykjavík og nágrenni sé löngu orðið eitt búsetusvæði.
Sveitarfélögin hafa sameiginlega sýn í samgöngumálum á svæðinu, vatnsöflun, byggðaþróun og fleiri grunnstoðum í nútímasamfélagi.
Engin sameiginleg sýn í húsnæðismálum
Þeim mun merkilegra er að áðurnefnd sveitarfélög hafa enga sameiginlega sýn í húsnæðismálum. Þó Reykjavík og nágrenni sé löngu orðið eitt búsetusvæði. Í húsnæðismálum tekur pólítíkin við. Sveitarfélögin hafa hvert sína eigin stefnu í húsnæðismálum.
Samnefnari er sér íslensk séreignastefna. Sem hefur um áratuga skeið skapað náttúrulögmál á Íslenskum leigumarkaði. Lesist neyðarástand. Það gilda þverpólítísk trúarbrögð í húsnæðismálum höfuðborgarsvæðisins. Þau eru að „frjáls“ (bygginga)markaður sé best fallinn til að útvega almenningi ódýrt og hentugt húsnæði. Þó að 75 ára söguspegill sanni andhverfuna.
Fjöldi fólks í ólöglegu húsnæði
Á höfuðborgarsvæðinu búa nú yfir 4 þúsund manns í ólöglegu húsnæði. Þessi fólksfjöldi samsvarar rúmlega íbúafjölda Seltjarnarness eða Vestmannaeyja. Þetta fólk býr í bílskúrum, kjallarakompum eða í iðnaðarhverfum þar sem verkstæðum er breytt í íbúðir.
Þetta búsetuform er að magni til sér íslenskt fyrirbrigði, og fá dæmi um slíkt í nágrannalöndum. Þetta vandamál er vel þekkt á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur margfaldast síðastliðinn áratug. Samt skautar nýsamþykkt skipulag yfir þennann vanda, eins og enginn væri. Húsaskjól er grunnþörf mannskepnunnar. Hvað gæti lítrinn af vatni kostað á höfuðborgarsvæðinu, ef þeirri nauðþurft væri dreift til borgarbúa eftir sömu formúlu og gildir í húsnæðismálum ?
Samkvæmt reiknivél velferðarráðuneytisins er lágmarksframfærsla einstaklings á höfuðborgarsvæðinu um það bil 235.000. krónur fyrir utan húsnæðiskostnað. Útborguð lágmarkslaun eftir skatt er svipuð tala. Húsnæðispólítík núverandi ríkisstjórnar gengur út á að fólk á þessum kjörum(leigjendur) safni sér fyrir íbúð.
Séreignastefna
Ríkisstjórnin á eins og sveitarfélögin sjö bara til eina formúlu í húsnæðismálum. Sem er sama séreignastefna. Ríkisstjórnin niðurgreiðir þessa pólítík um 80 miljarða af almannafé. Fyrir þá upphæð mætti byggja nýtt borgarhverfi á borð við Breiðholt. Og koma leigumarkaði höfuðborgarinnar á réttan kjöl.
Á Íslandi hefur hins vegar húsnæðispólítík höfuðborgarsvæðisins svo til eingöngu snúist um séreignastefnu. Á Íslandi er séreignaprósentan ein sú hæsta sem þekkist á byggðu bóli.
Sveitarfélögin gætu sem best sameinast um byggingu og rekstur á ódýru leiguhúsnæði víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Sú nálgun rímar fullkomlega við nýja sýn á byggðaþróun. Áratuga hefð er fyrir þessu búsetuformi erlendis. Sem dæmi má nefna sænska milljónaverkefnið, (Miljonprogrammet) sem er 50 ára á þessu ári. Síðan 1965 hafa Sænsk sveitarfélög byggt yfir miljón leiguíbúðir um allt landið. Með stöðlum og magninnkaupum nást einingaverð niður og þar með leiga niður. Markmiðið er að leiga sé almennt ekki yfir fjórðung ráðstöfunartekna. Svipað kerfi er þekkt frá Danmörku, Þýskalandi og víðar. Margir Íslendingar þekkja þetta búsetuform frá námsárum sínum erlendis.
Á Íslandi hefur hins vegar húsnæðispólítík höfuðborgarsvæðisins svo til eingöngu snúist um séreignastefnu. Á Íslandi er séreignaprósentan ein sú hæsta sem þekkist á byggðu bóli. Að sama skapi er fjöldi ódýrra leiguíbúða í eigu sveitarfélaganna í algjörri mýflugumynd miðað við nágrannalöndin. Í Reykjavík væru líklega reknar 20 til 25 þúsund leiguíbúðir ef non-profit húsnæðispólítík væri á pari við Danmörku eða Svíþjóð. Þar af væri líklega uppundir helmingurinn í eigu borgarinnar, og sama hlutfall hjá hinum sex sveitarfélögunum.
Lífeyrissjóðir stunda grímulaust húsnæðisbrask
Ef sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins vilja ekki sjálf byggja og reka ódýrt leiguhúsnæði, geta þau tæplega ætlað öðrum lögaðilum það. Í miðborginni stunda lífeyrisssjóðir nú grímulaust húsnæðisbrask gegnum fasteignafélög með hækkandi húsnæðisverð sem viðskiptamódel. Þessi félög hugsa í ársfjórðungum, en alþýða þarf áratuga lausnir í húsnæðismálum. Þessi félög leysa ekki vandamál ungs fólks á leigumarkaði.
Í Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi getur fólk búið í öruggu leiguhúsnæði alla ævi. Leigan er yfirleitt sanngjörn. Á íslandi getur langtímaleiga þýtt árs leigusamningur, með fyrirframgreiðslu á borð við þokkalegan fólksbíl. Barnafjölskyldur hrekjast milli skólahverfa á örfárra ára tímabili.
Bankar, verktakar og lífeyrissjóðir ráða ferðinni í húsnæðismálum. Stjórnmálamenn sitja í aftursætinu, ef þeir eru yfirleitt með. Húsnæðispólítíkin er sami grautur í sömu skál og fyrir hrun. Nýtt borgarskipulag er staðfesting á því, frekar en hitt. Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið bólar ekkert á nýrri hugsun í húsnæðismálum á Íslandi. Í málefnum leigjenda er klukkan 1980.
Á næsta aldarfjórðungi geta leigjendur ferðast með léttlest, og speglað sig í glerhvelfingum fjármálafyrirtækjanna. Þeir geta horft á byggðaþéttinguna (30 hæða turnbyggingar) líða fram hjá í landslaginu. Sumir tómir, aðrir á þriðju kennitölu. Milli línanna í skipulaginu 2015 til 2040 má lesa tvennt : Húsnæðisekla höfuðborgarsvæðisins verður 100 ára 2040. Og Íslensku fátækrahverfin eru komin til að vera.
Verður Borgarlínan með kvöldferðir í iðnaðarhverfin ?
Höfundur er sjómaður og áhugamaður um launa- og húsnæðismál íslenskrar alþýðu.