Snemmsumars 2007 gáfumst við hjónin upp á að sofa á jörðinni í tjaldi – fórum í búð og keyptum okkur tjaldvagn. Tókum smá lán fyrir hluta kaupverðsins til þriggja mánaða eða svo – sem greitt var upp með fullum skilum á réttum tíma.
Í mörg sumur elti þessi tjaldvagn jeppann okkar staðfastlega um fjöll og firnindi, jafnt yfir jökulár sem eyðisanda og bjó okkur skjól um nætur. Tjaldvagninn var samviskusamlega talinn fram með öðrum jarðneskum eigum okkar á skattaskýrslum, jafnvel af nokkru stolti; örlítill vottur af eignum á móti öllum skuldunum sem skapast af því að reyna að eignast húsnæði og mennta sig drjúgan hluta ævinnar.
Tjaldvagna ber að færa reglulega til skoðunar þegar aldurinn færist yfir. Notkun þessa tiltekna eðalvagns hefur þó verið lítil síðustu 5 árin, því ennþá notalegri græja hefur fengið þann sess að vera svefnstaður okkar hjóna á ferðalögum. Því gleymdist það algjörlega að fara með tjaldvagninn góða í skoðun að þessu sinni. En við búum við afskaplega fullkomið eftirlitskerfi í þessu landi og svona trassaskapur er alls ekki liðinn. Sýslumaðurinn á Ísafirði birtist vaskur á vettvangi í formi bréfs þar sem ég var bæði áminntur og sektaður – með tilvísan í lög, reglugerðir og reglugerðakafla.
Í bréfinu gat þess þó að ég væri alls ekki eigandi míns kæra tjaldvagns sem mér þótti í meira lagi furðulegt svo vægt sé til orða tekið. Enda stoltur talið hann sem mína eign til skatts í 14 ár og bundist honum ákveðnum tilfinningaböndum. Fékk að vísu þann heiður að teljast „umráðamaður ökutækis“. Í bréfi sýslumanns var einhver Ergo skráður eigandi, sem ég kannast barasta ekkert við – það er enginn Ergo í minni fjölskyldu eða vinahópi. „Ergo“ er raunar latína og merkir „þar af leiðandi“ eða eitthvað svoleiðis – en það er önnur saga.
Nú var strax hringt í sýslumann sem gaf sig ekki með þetta og sagði mér að hringja í Ergo sjálfan, sem ku víst vera fjármögnunarþjónusta. Það gerði ég samstundis, nokkuð ör í lundu. Og viti menn, Ergo taldi sig eiga gripinn. Ég maldaði í móinn, ákveðinn en sæmilega stilltur í tali, og taldi amboðið mína eigu og sagðist ekki skulda neinum neitt og síst af öllu lán fyrir þessum tjaldvagni. Svörin sem nú fengust gætu hafa komið beint úr skets í Spaugstofunni sálugu. Víst var það rétt að ég hafi greitt upp lánið fyrir 14 árum, en mér hafi láðst að greiða um 2000 krónur, og jú ég var víst ekki rukkaður um þær, en hefði þó átt að greiða þær til að færa gripinn á mitt nafn með lögformlegum hætti. Um þetta væri raunar getið í smáaletri í samningi sem gerður var þarna fyrir 14 árum síðan. Allt mér að kenna, eins og vanalega. Þessi „mistök“ komu þá því aðeins í ljós að það gleymdist að færa vagninn til skoðunar. En þessu væri hægt að kippa í liðinn ef ég greiddi 2830 krónur núna.
Það virðist vera Ergo um megn að tryggja hag þessa vesalinga sem þurfa að leita hjá honum ásjár með smá lán – og sérstaklega kann það að vera bratt fyrir fyrirtækið ef kúnninn er skilvís og greiðir upp lánið. Svo er alltaf gott að eiga svona fínan tjaldvagn í eignasafninu – allavega hefur mér fundist það. Mér kom helst í hug að skilja tjaldvagninn eftir í hlaðinu hjá Ergo og klára málið þannig – enda er verðmætið kannski lítið eftir allt volkið sem þessi vagn hafði þurft að ganga í gegnum. En tilfinningagildið hafði yfirhöndina svo ég reiddi fram uppsett verð og varð loksins nú – eftir 14 ára notkun – hinn sanni eigandi tjaldvagnsins. Þetta voru vitaskuld ákveðin tímamót sem var fagnað með viðeigandi hætti.
Ég vona bara að gjörningurinn hafi ekki mikið tjón í för með sér fyrir Ergo og eignasafnið hans, en ergo, ég velti því fyrir mér hvort það sé mikið af svona eignum í því safni.