Það skortir lík í umferðinni. En ekki hvaða lík sem er. Helst þarf þetta ákveðna lík að finnast í almennri umferð og vera af manneskju sem notar reiðhjól mikið til að komast leiðar sinnar. Staðreyndin er nefnilega sú að það verður ekki fyrr en einhver hjólandi vegfarandi lætur lífið í umferðinni, að Lögregla, Samgöngustofa, Ökukennarafélag Íslands og aðrir sem málið kemur við, fara hugsanlega að bregðast við og taka hlutverk sín alvarlega.
Dæmin um aðgerðaleysið eru mýmörg. Frá gildistöku nýrra laga hafa fjölmörg atvik verið kærð til lögreglu þar sem farið er fram á rannsókn á vítaverðu gáleysi við framúrakstur. Öll slík mál hafa veið látin niður falla og því iðulega kennt um að rannsókn skili ekki nægum sönnunargögnum til að sakfelling ökumanns teljist líkleg. Jafnvel þó með kærunni fylgi myndband af atvikinu.
Nýlega var látin niður falla rannsókn á ákveðnu umferðaratviki, sem gerðist þann 11. Júlí 2020. Þá ók ökumaður á vörubifreið utan í hjólreiðamann við framúrakstur nærri Borg í Grímsnesi. Framúraksturinn gerðist þar sem framúrakstur er algerlega bannaðar, af fjölmörgum ástæðum. Þarna er einungis ein akrein til staðar, afmörkuð af steyptum vegköntum, vegriði og heilli, óbrotinni miðlínu. Gatnamót eru í grennd og einnig töluvert um gangandi vegfarendur. Öllu þessu horfði ökumaður framhjá og sýndi mjög einbeittan brotavilja og hlýtur nú ekki svo mikið sem áminningu fyrir.
- Getur verið að þegar ökumaður bifreiðar er ekki kallaður til skýrslutöku fyrr en um 7 mánuðum eftir að atvik er kært, sé viðkomandi kannski búinn að gleyma flestu sem að gagni gat komið við rannsókn málsins?
- Getur hugsast að vitni að atvikinu hafi átt erfitt með að greina nákvæmlega frá því hvar þau voru stödd eða hvað þau heyrðu og sáu þegar atvikið gerðist, 8 mánuðum áður en rannsókn málsins hófst?
- Er hægt að kalla þannig vinnubrögð „rannsókn”?
- Er hægt að hugsa sér að áverkavottorð frá slysamóttöku hafi einfaldlega of litla þýðingu þegar ekki er um að ræða dánarvottorð?
- Hverjum er ætlað að kenna nýjum ökumönnum hvaða þýðingu nýlegar breytingar á umferðarlögum hafa?
- Hver ber ábyrgð á því að fylgja því eftir að áhrif lagabreytinganna séu kennd í ökunáminu?
- Hvernig geta ökunemar komist í gegnum fullt ökunám og hlotið full ökuréttindi án þess að hafa nokkurn tíma upplifað akstur í grennd við hjólandi umferð?
- Eru einhver viðurlög við því að stunda stórhættulegan framúrakstur þar sem hann er greinilega bannaður með bæði vegriði og heilli miðlínu?
Það er staðreynd að allt of margir ökumenn kunna ekki eða vanvirða vísvitandi þær reglur sem vernda líf og heilsu annarra vegfarenda. Allt of margir aka eins og þeir eru vanir, ekki eins og lög eða reglur segja til um. Þeir sem kunna reglurnar eru allt of viljugir til að brjóta þær, því brot á þessum umræddu reglum hafa engar afleiðingar. Þeir sem eiga að framfylgja reglunum eru alltof viljugir til að sleppa því, sem gerist einnig án afleiðinga. Við hvert slíkt tilvik færumst við nær því að finna líkið.
Á meðan enginn fræðir nýja ökumenn um þær breytingar sem hafa nýlega verið gerðar á umferðarlögum, er ekki hægt að ætlast til að fólk fari eftir þeim. Þegar hjólandi vegfarendur eru sjálfkrafa afskrifaðir og taldir ótrúverðug vitni af þeirri einu ástæðu að hafa valið reiðhjól sem sinn ferðamáta og lögregla reynir ekki einu sinni að ná tali af þeim, eru frekar litlar líkur á að framburður þeirra verði tekinn alvarlega. Á meðan enginn reynir að framfylgja lögunum um að við framúrakstur verði að vera að lágmarki 1,5 metrar frá bifreið að reiðhjóli, styttist biðin efir líkfundinum.
Því miður hafa allt of fáir af þeim aðilum sem bera ábyrgð á öryggi hjólandi vegfarenda sýnt því einhvern raunverulegan áhuga að hindra fyrsta dauðaslysið. Svo nú bíðum við bara. Er einhver sem býður sig fram?
Höfundur er formaður Reiðhjólabænda sem eru stærsta hjólreiðasamfélag landsins, með tæplega 7.300 meðlimi.