Kynslóðir sem kunna ekki að láta sér leiðast
Sömuleiðis hefur þörfin á afþreyingu aldrei verið meiri. Nú vaxa úr grasi kynslóðir sem kunna ekki og þurfa ekki að láta sér leiðast. Biðin eftir strætó, kartöflurnar í pottinum og röðin í Bónus eru orðin lítið annað en gluggar til þess að horfa á nokkur myndbönd, hlusta á tónlist, lesa fréttir eða tala við fólk. Jafnvel daðra við ókunnugt fólk. Við erum búin að afþreyingarvæða allan andskotann. Tími leiðindanna er liðinn og allt er fullkomið.
Nú vaxa úr grasi kynslóðir sem kunna ekki og þurfa ekki að láta sér leiðast. Biðin eftir strætó, kartöflurnar í pottinum og röðin í Bónus eru orðin lítið annað en gluggar til þess að horfa á nokkur myndbönd, hlusta á tónlist, lesa fréttir eða tala við fólk.
Þá kemur upp sú staða að við neyðumst til að lifa einhverskonar lífi í kringum alla þessa afþreyingu. Við þurfum að mæta í vinnu og sækja börn í leikskóla, elda kvöldmat og moka stéttina. Það fylgir ekki ennþá þvagleggur með hverjum sjónvarpsflakkara þannig að maður neyðist til þess að standa á fætur á nokkurra klukkustunda fresti á þungbúnum laugardegi þó að engum í myndinni sé mál. Og allt þetta fólk í þáttunum þarf ekki að hringja og vera númer átta í röðinni, borga reikninga eða fara til tannlæknis. Nema það þjóni söguþræðinum að sjálfsögðu.
Við þurfum líka að vera nokkuð sammála sögumanni um sannleika, forgangsröðun og gildismat, annars hættum við að horfa. Og auðvitað er öllum í sögunni ætlaður einhver allsherjartilgangur, ævistarf. Hverri persónu er ætluð eina rétta manneskjan til þess að eyða með ævinni. Og hver og ein aðalpersóna er miðpunktur söguheimsins. Þetta verður allt svo augljóst þegar maður er áhorfandi, þó að persónurnar vandræðist fram og til baka á skjánum. Þetta eru nú meiri hálfvitarnir þarna í Downton Abbey.
Og þetta hefur að sjálfsögðu ekki áhrif á það hvernig við hugsum, er það nokkuð?
Groundhog day eilífrar hamingju
Undirrituð er alls ekki svo viss um sinn eigin allsherjartilgang. Vissulega má setja sér markmið, en andspænis þessum tæpu hundrað árum sem heilbrigðri og heppinni manneskju er úthlutað eru flest þessara markmiða smávægileg og ómerkileg. Og flest framkvæmanleg á innan við tíu árum.
Þetta samræmist ekki þeirri heimsmynd sem við þekkjum í gegnum hina heilögu ritningu afþreyingarefnisins. Sú heimsmynd sem þar er borin á borð er fullbúin þriggja þátta línulaga frásögn: Fyrst þarf að gera allt tilbúið, svo nær lífið einhverskonar hámarki og síðan er uppskerutími fram að endalokum alls sem er.
Framhaldsskóli, háskóli, hámörkun. Íbúð, brúðkaup, barneignir.
Á meðan leikararnir taka af sér farðann er áhorfendum ætlað að vera nokkuð saddir af sögunni og horfa á eftir persónunum sigla inn í einhverskonar Groundhog day eilífrar hamingju og uppfylltra drauma. Varanlegrar lífsfyllingar með lífstíðarábyrgð.
Stóri gallinn er sá að þetta er bara plat. Sönnunargögn fyrir platinu má til dæmis sjá í þeirri staðreynd að allt raunveruleikasjónvarp er hluti af dagskrárgerð, lokaafurðin er eftir handriti og klippt ofan í áhorfendur til þess að setja á tímalínu, þjóna þessari frásagnarhefð sem er okkur svo nauðsynleg til að við missum ekki áhugann. Endirinn kemur í lokin, gott fólk.
En ég óska engum þess að láta blekkjast.
Hamingjan er ekki verðlaunagripur
Við þurfum að láta af hugmyndinni um þriggja þátta frásögn í eigin lífi og starfi, og í einkalífinu. Hættum að líta á hamingjuna sem verðlaunagrip. Hugmyndin um hinn eina rétta eða réttu er ekki bara lygi heldur líka skaðleg. Hvað ef kemur til skilnaðar, sjúkdóma eða dauðsfalls ástvina, fáum við þá aðeins eitt tækifæri á lífshamingju? Og hvað í fjandanum á að gera eftir að endakallinn er unninn og tjöldin falla?
Ég er ekki að biðja þig að slökkva á símanum, lesandi góður. Ég bið þig bara að gæta að því að lífið hendir fólk. Hendir því jafnvel út í skurð. Og þá er gott að muna að það er til fleiri en ein rétt leið, ólíkt því sem gerist í bíó.