Þegar íslenskt efnahagslíf hrundi haustið 2008 þá gerðist það í kjölfar þess að hópur Íslendinga, með fulla vasa af peningum erlendra banka sem dældu fé inn í tálmyndina um íslenska efnahagsundrið, fór vægast sagt ógætilega með þá ábyrgð sem þeim var annað hvort falin eða þeir tóku sér sjálfir. Þessi hópur naut, og nýtur að mörgu leyti enn, fjárhagslegra ávaxta þessarra gölnu tíma á meðan að restin af okkur sem hér búum fáum að axla afleiðingarnar af partýinu.
Þessi hópur á margt sameiginlegt. Hann var, og er, áhættusækinn, gráðugur, eigingjarn, sérhlífinn, á erfitt með að líta í eigin barm og hefur í einhverjum tilfellum ástundað glæpsamlega hegðun. Og hann er nánast einvörðungu skipaður körlum.
Í kjölfarið var ákveðið að ráðast í að skrifa nokkur þúsund blaðsíðna rannsóknarskýrslu um hvernig þessum körlum, og körlunum sem stýrðu að mestu stjórnmálunum og að öllu leyti Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu, tókst að skapa þessar stórhættulegu aðstæður og afleiðingar þeirra, sem enn lita líf okkar meira en nokkuð annað tæpum sex árum síðar.
Eitt af því sem við hefðum átt að læra er að innvinkla meirihluta þjóðarinnar, konur, meira í lykilákvarðanir sem hafa áhrif á samfélagið. Það hefur því miður ekki gerst. Raunar er það fjarri lagi. Þegar kemur að helstu valdastofnunum samfélagsins og sérstaklega stýringu fjármagns þá lifir feðraveldið ólseiga enn ótrúlega góðu lífi.
Skammvinnur vermir breytinga
Strax eftir bankahrunið varð krafan um fleiri konur mjög sterk innan stjórnmálanna. Eftir kosningarnar 2009 varð hlutfall þeirra á meðal þingmanna 43 prósent og Jóhanna Sigurðardóttir varð skömmu áður fyrsta konan í sögu lýðveldisins til að setjast í stól forsætisráðherra. Í fyrsta ráðuneyti hennar var kynjahlutfall ráðherranna hnífjafnt og af þeim 15 sem gengdu ráðherraembætti í öðru ráðuneyti Jóhönnu voru sjö konur. Tábú voru brotin.
Þá er kona, Birna Einarsdóttir, yfir einum af stóru bönkunum og önnur, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Auk þess var ákveðinn sigur unnin þegar Arion banki kaus sér nýja stjórn fyrir skemmstu þar sem konur eru í meirihluta. Það er í fyrsta sinn sem slíkt gerist í stjórn stóru bankanna hérlendis.
Í september 2013 tóku líka gildi lög sem gerðu þær kröfur að hlutfall hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn væri að minnsta kosti 40 prósent. Þetta leiddi til þess að ansi mörg fyrirtæki og lífeyrissjóðir þurftu að ráðast í miklar breytingar, enda var hlutfall kvenna í stjórnum sem féllu undir löggjöfina einungis 20 prósent í árslok 2009. Í lok árs 2013 hafði lagasetningin skilað því að 31 prósent þeirra sem í stjórnunum sátu voru konur, en einungis helmingur þeirra fyrirtækja sem falla undir skilyrðin hafa uppfyllt þau.
Þurfa að spila karlaleikinn
Maður fær það samt á tilfinninguna að þessum breytingum fylgi ekki nægjanlegt alvara. Að valdakarlarnir séu að leyfa konunum að vera með til að þær hætti þessu röfli. Áherslurnar í stjórnmálum og viðskiptum eru enn mjög karllægar og harðar. Konur þurfa að spila karlaleikinn til að fá að vera með.
Það var líka afturför í þessum málum í síðustu kosningum. Þá náðu 25 konur kjöri og hlutfall kvenna á meðal alþingismanna lækkaði í 39,7 prósent. Ríkisstjórnin sem mynduð var í kjölfarið inniheldur sex karla og þrjár konur. Leiðtogar hennar eru báðir karlar. Í komandi borgarstjórnarkosningum er þessi slagsíða sláandi. Af þeim framboðum sem hafa tilkynnt að þau ætli var lengi vel einungis eitt leitt af konu. Framsóknarflokkurinn fjölgaði þeim í tvö á lokametrunum. Sjálfstæðisflokkurinn teflir hins vegar fram miðaldra körlum í þremur efstu sætunum hjá sér.
Svo eru Seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og aðalhagfræðingur þess banka auðvitað allir karlar.
Karlar stýra nánast öllum peningunum
En verst er ástandið í fjármálageiranum. Eða, réttara sagt, á meðal þeirra sem stýra íslensku fjárfestingaumhverfi og fjármálakerfi. Í úttekt sem Kjarninn gerði í febrúar, og náði til 88 æðstu stjórnenda slíkra fyrirtækja, kom í ljós að 82 þeirra er stýrt af körlum. Sex stjórnendanna, eða 6,8 prósent, eru konur.
Einum viðskiptabanka er stýrt af konu. Töluverður meirihluti annarra framkvæmdastjóra þeirra þriggja stærstu, sem eru með yfir 90 prósent markaðshlutdeild, eru karlar. Engu sjóðsstýringar- eða eignarstýringarfyrirtæki, engu orkufyrirtæki, kortafyrirtæki, öðrum minni fjármálafyrirtækjum eða tíu stærstu lífeyrissjóðum landsins, sem eiga rúmlega 80 prósent af þeim 2.700 milljörðum króna sem lífeyriskerfið á, er stýrt af konu. Af þeim 26 lífeyrissjóðum sem til eru í landinu er einungis tveimur stýrt af konum. Saman eiga þessir tveir sjóðir tæplega 3,2 prósent allra eigna íslenska lífeyriskerfisins.
Tvær konur stýra sparisjóði, en önnur er reyndar forstöðumaður sparisjóðs sem heyrir undir annan. Sparisjóðsstjóri hans er karl. Af þeim tíu fyrirtækjum sem skráð eru á markað er einu, VÍS, stýrt af konu. Þau sex félög sem hafa annað hvort tilkynnt um, eða verið orðuð við, skráningu á þessu ári er ekkert með forstjóra sem er kona.
Ef litið er niður fyrir framkvæmdastjórastigíð í öllum ofangreindum fyrirtækjum og sjóðum, og í eignastýringar þar sem fjárfestingum og þar með peningum er stýrt, er kynjahlutfallið jafnvel enn verra. Niðurstaðan er nokkuð skýr. Karlar stýra nær öllu peningunum á Íslandi.
Litlir karlar þurfa völd
Mér er meinilla við að hólfa kynin niður. En mér finnst konur búa í meira mæli yfir ákveðnum eiginleikum sem marga karlmenn skortir. Þetta eru eiginleikar á borð við varfærni, ábyrgð, getuna til að líta í eigin barm og horfa til lengra tíma frekar en að einblína alltaf á skammtímaáhrif ákvarðanna sinna.
Rannsóknir sýna líka að fyrirtæki með fleiri konum í stjórnunarstöðum skila marktækt betri árangri en fyrirtæki með engar konur í slíkum stöðum. Þetta má meðal annars sjá í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey frá því í fyrra, sem ber heitið „Women Matter 2013: Moving corporate culture, moving boundaries“. Þar segir einnig að það sem hindri framgang kvenna sé fyrst og síðast fyrirtækjamenning sem sé konum óhliðholl.
Það er því eðlilegt að spyrja hvað valdi því að karlar haldi svona þétt um alla valdatauma íslensks samfélags þegar það hefur sýnt sig að þeir eru verri stjórnendur, fara verr með fé, sýna minni ábyrgð og hafa tilhneigingu til að haga sér á margar hátt mun óskynsamlegra en konur?
Svarið er minnimáttarkennd. Valdakarlarnir, litlu karlarnir, þekkja valdakarlaheiminn og vilja viðhalda honum. Þeir hræðast breytingarnar því þær gætu opinberað enn frekar að litlir karlar standa ekki undir þeirri ábyrgð sem þeir hafa sjálfir tekið sér. Og þeir þurfa á öðrum litlum körlum að halda til að leikurinn gangi upp.
Oft er sagt að konur séu konum verstar. Á sama hátt má vel fullyrða að karlar séu körlum bestir. Að minnsta kosti litlir karlar.
Pistillinn birtist fyrst í 15 ára afmælisútgáfa FKA-blaðsins sem kom út um miðjan maí.