Fnjóskadalur er glæsilegur dalur með margbreytilegu umhverfi. Um dalinn rennur ein lengsta og vatnsmesta dragá landsins og heitir Fnjóská eftir feysknum trjábolum sem trúlega hafa legið á bökkum hennar þegar menn komu fyrst í dalinn. Margar sætar æskuminningar á ég frá því þegar ekið var gamla Vaðlaheiðarveginn á sumrin á leið til ættingja í Reykjadal. Þá dáðumst við að Vaglaskógi ofan úr Vaðlaheiði en ég fékk að heyra líka að eitt sinn fyrir ekki svo löngu hefði myndarlegur birkiskógur teygt sig yfir hjá Hálsi og inn í Ljósavatnsskarð. Mennirnir hefðu eytt skóginum með sauðfjárbeit og skógarhöggi. Á þessum árum var Vaglaskógur afmarkaður í landinu og eins skógarnir innar í dalnum. Ekki sáust tré utan þessara skóga nema kannski lítils háttar heima við bæi. Um daginn var ég í Fnjóskadal og dásamaði með ferðafélögum mínum allan þann skóg sem nú breiðist út um dalinn báðum megin árinnar þökk sé minnkandi beit og hlýjum sumrum. Svona er þetta orðið víða á láglendi Íslands. Birkiskógar landsins breiðast víða hratt út og nýjar tölur um útbreiðslu birkiskóganna verða birtar í haust eða vetur. Eftirtektarvert er að aka um Bárðardal líka. Þar er birkið í mikilli sókn enda búskapur orðinn æði lítill í dalnum miðað við það sem áður var. Í hlíðinni ofan við bæinn Hlíðskóga var ekkert birki þegar sauðfjárbúskap var hætt þar fyrir rúmum áratug. Nú er að verða illfært þar um fyrir birkinu. Það hefur beðið í sverðinum og rokið upp þegar beitinni linnti. Dæmin eru víða um land.
Skógrækt er ein af leiðunum
Í vefritið Kjarnann 3. júlí skrifar Snorri Baldursson, líffræðingur og stjórnandi hjá Vatnajökulsþjóðgarði, og gagnrýnir frétt Ríkisútvarpsins með fyrirsögninni „Hægt að ná markmiðum með skógrækt“. Í fréttinni var rætt við Arnór Snorrason, skógfræðing á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Fram kom að ná mætti með skógrækt verulegum hluta þeirra markmiða sem Íslendingar hafa nú sett sér um kolefnisbindingu.
Snorri gagnrýnir að ekki skyldi minnst á aðra möguleika en skógrækt í fréttinni, svo sem að draga mætti úr koltvísýringslosun frá samgöngutækjum og iðnaði. Í fréttinni var skógrækt til umfjöllunar en ekki samgöngur eða iðnaður. Ekki var því haldið fram að skógrækt ætti að vera eina leiðin að þessu kolefnismarkmiði Íslendinga heldur að hún væri áhrifarík leið sem vert væri að fara. Sömuleiðis talaði Arnór um að eftir hrun hefðu framlög til skógræktar á Íslandi dregist saman um helming, sem er alveg rétt. Miðað við núverandi framlög til skógræktar er sýnt að markmið þau sem sett voru í lögum um landshlutaverkefni í skógrækt, að klæða 5% láglendis undir 400 metrum skógi á 40 árum, nást ekki að óbreyttu. Í Eyjafirði innan Akureyrar, að landi Akureyrarbæjar meðtöldu, er skógarþekja nú 4,5% og þykir engum of mikill skógur.
Verðum að minnka losun en líka að binda
Jafnvel þótt skógræktarfólk tali fyrir því að ræktun hraðvaxinna og hávaxinna trjátegunda sé vænleg leið til kolefnisbindingar þýðir það ekki að skógræktarfólki finnist þar með að kolefnisvandinn sé leystur. Það þýðir ekki heldur að þar með sé skógræktarfólk á móti náttúrlegri útbreiðslu birkis. Síður en svo, því nóg land er fyrir hvort tveggja. Að sjálfsögðu verður líka að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og það mun hraðar en gert hefur verið hingað til. Það hefur þó reynst þjóðum heims erfitt öðruvísi en að því fylgi einnig samdráttur í efnahagslífinu. Svo gleymist gjarnan allt það kolefni sem hefur verið losað út í andrúmsloftið frá iðnbyltingu, raunar allt frá því að menn fóru að ryðja skóg til landbúnaðar fyrir þúsundum ára. Í verstu tilfellunum varð landið að eyðimörk og þá losnaði enn meira kolefni. Við verðum að binda sem mest við getum af því kolefni sem þegar hefur verið losað jafnhliða því sem við drögum úr losun okkar nú og í framtíðinni. Skógrækt er öflug leið til þess. Íslendingar eiga mikið land sem nýta má til nytjaskógræktar án þess að það komi niður á annarri landnýtingu eins og hefðbundnum landbúnaði og ferðamennsku eða setji náttúruverndarsvæði í hættu.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_17/57[/embed]
25%, lítið eða mikið?
Í grein sinni í Kjarnanum notar Snorri Baldursson atviksorðið „aðeins“ um þá kolefnisbindingu sem næst í gróðursettum nýskógum á Íslandi árið 2020 ef fram fer sem horfir. Tölurnar eru úr skýrslu sérfræðinga sem unnin var fyrir umhverfisráðuneytið 2009. Þetta „aðeins“ samsvarar þó 25 prósentum nauðsynlegs samdráttar í kolefnislosun. Sjálfur myndi ég nota um þetta orð eins og „talsvert“ eða jafnvel „mikið“. Bindingin nemur 220.000 tonnum og í þessu felst að ef við hefðum verið fjórfalt duglegri að rækta skóg hefðum við náð að binda kolefni sem nam öllum þeim samdrætti sem við tókum á okkur.
Rétt er hjá Snorra að skógrækt er aðeins ein þeirra leiða sem unnt er að beita í baráttunni gegn auknu hlutfalli gróðurhúsalofts í lofthjúpi jarðarinnar. Hann nefnir endurheimt votlendis og enn sé hverfandi lítið gert af því. Hægt sé að bleyta upp í fjórðungi framræsts lands á allra næstu árum án þess að það komi niður á landbúnaði. Þar með megi draga úr losun sem nemur 400.000 kolefnistonnum en þá á Snorri væntanlega við koltvísýring. Með þessu sé hægt að uppfylla helming Kyoto-markmiðsins árið 2020. Þetta hljómar vissulega vel en á það má benda að megnið af framræstu landi hérlendis sem ekki hefur verið breytt í tún er nú notað til beitar og er með öðrum orðum í notkun í landbúnaði. Óvíst er að landeigendur, sem víða eru margir um sömu mýrina, vilji þetta. Ef bleytt er upp í framræstu landi minnkar sá gróður sem nýtist skepnum. Einnig má benda á að binding gróðurhúsalofttegunda með mýrarbleytingu er mjög óörugg aðferð og illa þekkt. Jafnframt virðist lítill áhugi vera á því hjá landeigendum að bleyta upp mýrar. Fáir brugðust við ákalli um slíkt fyrir nokkrum árum þótt vel heppnuð dæmi megi nefna eins og Gauksmýrartjörn í Línakradal.
Nýtt ár kemur eftir árið 2020 og áfram streymir endalaust. Hvort markmið um samdrátt og bindingu nást fyrir 2020 verður að koma í ljós en við þurfum að halda áfram. Með því að rækta skóg lítum við lengra fram á veginn. Tré sem ekki er gróðursett bindur ekki kolefni. Ef flóð verður og kjallarinn minn fyllist af vatni þarf ég ekki bara að stöðva rennslið inn í kjallarann. Ég þarf líka að dæla upp úr honum. Snorri segir að forvarnir séu yfirleitt betri en lækning en hér duga ekki forvarnir einar. Kolefnislosun í heiminum mun dragast saman á endanum en vegna þess að það gerist allt of hægt verðum við að dæla upp úr kjallaranum líka og binda kolefni. Það geta trén gert. Meiri útbreiðsla skóga á jörðinni getur læknað jörðina.
Náttúruarfur og óspillt náttúra
Snorri vitnar í fræga grein sem Halldór Laxness birti á gamlársdag 1970 undir heitinu „Hernaðurinn gegn landinu“. En Halldór gagnrýndi líka í greininni það skrum sem fælist í þeirri ímynd að á Íslandi „gefi að líta óspilta náttúru“. Af þeim orðum Halldórs að Íslandi hafi verið „spilt á umliðnum öldum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp“ má heldur ekki greina nokkra andúð hans á ræktun landsins: „Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vera að okkur sé nokkur vorkunn í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp. Nokkur svæði í miðjarðarhafslöndum Evrópu, einkum Grikkland, komast því næst að þola samanburð við Ísland að því er snertir spillíngu lands af mannavöldum.“
Með ofbeit sauðfjár hurfu birkiskógar landsins að mestu, skógar sem þöktu 40–45 prósent landsins við landnám. Þegar skógarnir voru horfnir gátu eyðingaröflin séð um afganginn og eyðimerkur urðu áberandi einkenni landslagsins. Enn er þó mikið lífrænt efni að rotna í jarðvegi margra íslenskra auðna og þegar það rotnar losnar kolefni. Ef við ræktum upp auðnirnar gerist aðallega tvennt, losunin stöðvast og binding hefst í staðinn. Ef við ræktum þær upp með framleiðslumiklum trjám tryggjum við árangur uppgræðslunnar til langs tíma og bindum enn meira kolefni, bæði í trjánum og í jarðveginum. Þar fyrir utan verða til mikil verðmæti í skóginum. Ef nytjaskógur er ræktaður fást verðmæti strax við fyrstu grisjun. Þessi verðmæti má selja kísiliðnaðinum og sá trjáviður kemur þá í stað innflutts viðar sem fluttur hefur verið um langan veg með tilheyrandi útblæstri koltvísýrings.
Endurgerð náttúra
Snorri ræðir á rómantískan hátt um hugtakið vistheimt, aðgerðir sem miða að því að endurskapa sams konar eða sambærileg vistkerfi og spillst hafa. Lífríkið breytist með stórvöxnum trjátegundum, segir hann. Það er alveg rétt. En Fnjóskadalur breytist líka mikið núna þegar birkið veður upp um allar hlíðar. Þar er sjálfkrafa vistheimt í gangi og eins í Bárðardal. Snorri segir að Skógasandur og Mýrdalssandur séu „einn bylgjandi lúpínuakur næst vegi, blár í júní, annars grænn, þar sem áður var svartur sandur. Ekki er enn hægt að spá fyrir með vissu hvers konar gróðurlendi eða vistkerfi slík landgræðsla skapar á endanum“. Samt er það vitað og staðfest að lúpína hörfar úr landi fyrir öðrum gróðri þegar hún hefur búið til niturríkan jarðveg sem dugar til dæmis birki til vaxtar. Mikið er gert úr því að skógarkerfill taki sums staðar við af lúpínu en ekki er síður algengt að blágresi, brennisóley, sigurskúfur og hvönn geri það, tegundir sem kallaðar eru alíslenskar. Og ekki er heldur sjaldgæft að finna reynivið, víði og birki í lúpínubreiðum. Birki Bæjarstaðaskógar hefur nú breitt sig út þangað sem margir óttuðust að lúpínan hefði tekið völdin.
Þegar land er friðað fyrir beit vex ekki upp hinn snöggbitni mela- og móagróður sem mörgum finnst vera íslenskt gróðurfar heldur verður landið smám saman skógi vaxið með hávöxnum jurtum í skógarbotninum. Þetta á við víðast hvar á láglendi og gerist hraðar ef „stórkarlalegar“ aðferðir, svo sem lúpínusáning eða gróðursetning stórvaxinna trjáa, eru notaðar, hægar ef stólað er á sjálfsáningu.
Vilji menn viðhalda mela- og móagróðri þarf að viðhalda sauðfjárbeit. Óvíst er að beit fari minnkandi á næstu árum og ekki eru horfur á að skipulagi beitar verði breytt þannig að betur sé farið með landið. Skógar, lúpínubreiður og annar „stórkarlalegur“ gróður verður því áfram takmarkaður við svæði sem sérstaklega eru friðuð fyrir beit og þau verða takmörkuð umfangs. Ótti við að melar og móar hverfi er því ástæðulaus. Í Danmörku er einum manni sérstaklega borgað fyrir að vera með fé til að viðhalda síðasta lyngmóanum á Jótlandi, að því er virðist svo fólk geti séð hversu rýrar jósku heiðarnar voru einu sinni. Annars myndi fólk ekki trúa því. Því miður er langt í að svo verði hér.
Maður og náttúra
Náttúra Íslands er að langmestu leyti mörkuð búsetu mannsins hér í 1.100 ár. Meira að segja jöklarnir minnka þótt það sé mannkyni öllu að kenna, ekki Íslendingum einum. Markmið nytjaskógræktar eru margvísleg, ekki einungis að binda kolefni eða græða land. Markmiðið er ekki síst að skapa verðmæti. Þessi verðmæti sjáum við nú þegar í sölu grisjunarviðar til Elkem á Grundartanga, sem dregur úr innflutningi trjáviðar til þessara nota, bætir þar með gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar, styrkir skógrækt í landinu, eflir byggð í dreifbýli og stuðlar að því að lokauppskeran úr skóginum verði í fyllingu tímans meiri að magni og gæðum en líka verðmætari.
Ræktaðir skógar þekja nú um 0,4% landsins og talsvert af því eru birkiskógar. Villtir birkiskógar eru á rúmu prósenti landsins. Illa eða ógróið land á láglendi Íslands þekur hins vegar 12% landsins, eða um 12 þúsund ferkílómetra. Mikið af þessu landi, einkum sandar Suðurlands, hentar mjög vel til skógræktar. Þar er hægt að slá margar flugur í einu höggi, stöðva kolefnislosun úr jarðvegi og uppblástur lands, binda kolefni í nýjum gróðri, skapa auðug og fjölbreytileg vistkerfi, mynda skjól og búa til verðmæta auðlind komandi kynslóðum til nytja. Af 1.000 hekturum 50–70 ára gamals nytjaskógar má uppskera trjávið fyrir að minnsta kosti tvo milljarða króna. Þá er ótalinn allur arðurinn sem fengist hefur fram að því með grisjunarviði og líka öll kolefnisbindingin í skóginum, atvinna, skjól o.s.frv.
Alþjóðlegi vinkillinn
Undir þessari millifyrirsögn setur Snorri fram þá túlkun að nytjaskógrækt með hávöxnum trjám sé brot á alþjóðlegum sáttmálum. Hann rökstyður ekki hvernig nytjaskógrækt getur stofnað líffjölbreytni í hættu. Þvert á móti má færa rök fyrir því að innfluttar trjátegundir auki líffjölbreytni á landinu með öllu því jurta, dýra- og sveppalífi sem þeim fylgir. Ekki er auðvelt að koma auga á vísbendingar um að nytjaskógrækt komi í veg fyrir að við getum verndað villt dýr og plöntur á Íslandi. Hvernig nytjaskógrækt gengur í berhögg við alþjóðlega samninga er ekki gott að sjá heldur. Hins vegar er skiljanlegt að fólk sé á móti barrskógum ef því finnst þeir ljótir. Um smekk er vandi að deila. Enn erfiðara er þó að finna út hvað kalla megi sannan íslenskan náttúruarf. Náttúran breytist. Við höfum breytt náttúrunni í 1.100 ár og snúum aldrei til baka til einhvers sem var, sama hvað við gerum. Og hvernig ættum við að ákveða hvar á stigi þróunarinnar hið æskilega náttúrufar er sem við vildum snúa aftur til? Er eitt ártal betra en annað í því?
Unnendur íslenskrar náttúru þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því að birkiskógar, sem Snorri Baldursson kallar náttúru- og menningararf okkar, séu í hættu. Birkiskógar munu breiðast út á komandi tíð með minnkandi beit sauðfjár og hlýnandi loftslagi. Þeir munu stækka hraðar en nytja-skógarnir. Barrviðarskógar munu ekki bera birkiskógana ofurliði næstu aldirnar, jafnvel þótt við ákveðum að taka nokkur prósent landsins undir nytjaskóga með barrviði. Á endanum gæti samt farið svo, kannski eftir önnur 1.100 ár, að Ísland yrði eins og Skandinavía, að mestu vaxið barrviði en birkiskógar yxu aðallega til fjalla. Því munu íbúar landsins venjast smám saman og ekki vilja sleppa hendinni af skógum sínum. Þá skipta tilfinningar okkar sem nú lifum ekki máli. Í Ársriti Skógræktar ríkisins sem er nýkomið út er forvitnileg grein eftir Björn Traustason, Þorberg Hjalta Jónsson og Bjarka Þór Kjartansson, sérfræðinga á Mógilsá, þar sem fram kemur að ef meðalhiti á Íslandi hækkar um 2 °C hækki skógarmörk á Íslandi svo mikið að birki geti vaxið á mestöllu hálendi Íslands. Birkið, flóra Íslands og annar náttúruarfur virðist því ekki í neinni hættu.
Græðum jörðina
Mikilvægt er að jarðarbúar græði upp auðnir og gróðurlítil svæði. Rétt eins og þjóðir hafa skyldum að gegna við náttúruarf sinn, að gæta þess að einkennandi jurtir og vistkerfi varðveitist, má líta svo á að þær þjóðir sem eiga auðnir sem orðið hafa til af mannavöldum hafi skyldum að gegna við mannkynið – og jörðina sjálfa – að klæða þessar manngerðu auðnir gróðri aftur. Ásamt því að stöðva fólksfjölgun, hætta losun gróðurhúsalofttegunda og láta af ósjálfbærum lifnaðarháttum hlýtur mannkyninu að bera skylda til að rækta gróður sem tryggir að áfram verði hægt að lifa á jörðinni. Ísland er á jörðinni.