Á meðan fólk hópaðist saman í kuldanum á Austurvelli sunnudaginn 6. nóvember til að mótmæla grimmilegum aðgerðum ríkisvaldsins gegn vanmáttugu flóttafólki ríkti annarskonar spenna í Laugardalshöll. Þar sat fólk í hlýjunni, hélt landsfund undir slagorðinu „frelsi“ (eitt orð var nóg) og fannst það vera komið á eina mestu „lýðræðishátíð“ landsins. En hvers konar frelsi er það sem fólkið í salnum þráði svo heitt og hverskonar hátíð lýðræðis var fagnað?
Úr Laugardalshöll bárust okkur þær fréttir að salan á Íslandsbanka hafi verið frelsisaðgerð, og að í nafni frelsis sé mikilvægt að selja áfengi í kjörbúðum og koma Ríkisútvarpinu af auglýsingamarkaði. Kannski er það rétt, ég finn samt ekki mikið fyrir frelsisskerðingu þótt ég geti ekki keypt mitt vín í næstu búð, heldur verði að fara í þá þarnæstu. Hvað söluna á Íslandsbanka varðar, þá hef ég hvorki fundið til meira frelsis eða aukinnar ánauðar við þá aðgerð og efast um að öðrum borgurum þessa lands sé annan veg farið. Nema kannski þeim fáu sem keyptu hlut og græddu fé og geta nú leyft sé aukinn munað, t.d. bætt við einni ferð suður í sólina.
Ég veit ekki hver var höfundur að slagorði landsfundar Sjálfstæðisflokksins í ár. Kannski Bjarni hafi sjálfur fengið þessa hugmynd þegar hann lagðist í heitt baðvatnið. Hann fær víst bestu hugmyndirnar þar. En spyrjum nú: Hvað er frelsi þessu fólki? Frelsið felst kannski einmitt í því að geta farið í bað þegar manni sýnist, geta keypt sér vín í sömu búð og mjólkina og brauðið, að geta höndlað frjálslega með hlutabréf í fjármálastofnunum (á milli hruna) og fleira í þeim dúr.
Um það bil sem búið var að dúka upp fyrir landsfundinn í Laugardalshöll var verið að handtaka fólk til að senda það á götuna í Grikklandi. Þetta fólk var ekki komið til Íslands í neina skemmtiför, heldur hafði það flúið harðræði í sínum heimalöndum, fyrst til Grikklands en síðan áfram norður uns lengra var ekki komist. Ein manneskja hafði komið sem fylgdarlaust barn til landsins. Þetta er fólk í leit að frelsi, en líka jafnrétti og bræðralagi, og kannski umfram allt mannúð. Tvær stelpur voru loksins komnar í skóla. Fyrir þeim var frelsi kannski einmitt það: að fá að læra.
Flóttafólkið sem var flutt í skjóli nætur á götuna í Grikklandi hefur verið svipt réttinum til að lifa í heiminum. Í allsleysi götunnar þar sem engin tækifæri bíða, þar sem enginn hlustar, þar sem tíminn er bið án enda, hefur fólk verið svipt þessum rétti. Um stundarsakir fengu sum þeirra ávæning af þessum rétti; sum þeirra leifðu sér kannski að hugsa um framtíð, gera áform, spyrja sig: Hvað langar mig að gera? Systurnar sem voru loks komnar í skóla leyfði sér kannski að dreyma um framtíð þar sem þær sjálfar gætu haft eitthvað um eigin örlög að segja. Það var þeirra lýðræðishátið. En svo var þessu öll svipt í burtu á einni nóttu. Réttur þeirra til að ganga í skóla var að engu gerður, rétturinn til að lifa í heiminum var tekinn frá þeim.
Höfundur er prófessor í heimspeki á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.