Á seinustu dögum hafa fjölmiðlar réttilega hælt Sigurði Inga Jóhannssyni og hossað honum fyrir viðbrögð hans við niðurstöðu umboðsmanns Alþingis hvað varðar hið svokallaða Fiskistofumál. (Sjá hér).
Umboðsmaður Alþingis taldi sem sagt að rangt hafi verið að málum staðið og vinnubrögð ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Ráðherrann gekkst auðmjúkur við því og viðurkenndi mistök. Í viðtali við RÚV sagði hann réttilega að enginn væri yfir það hafinn að læra af verkum sínum og hann gengist við áliti umboðsmanns Alþingis. Viðbrögðin voru ráðherranum til sóma og til eftirbreytni.
Nú má búast við því að þessi sami ráðherra nálgist eins önnur álit umboðsmanns Alþingis. Vart fer ráðherrann að velja hvaða álit hann virðir og lærir af og hvaða álit hann hundsar og telur að ekki þurfi að læra af né fara eftir.
Nú hljóta bæði fjölmiðlar og aðrir að bíða þess í ofvæni að Sigurður Ingi Jóhannsson stígi fram og gangist við áliti umboðsmanns Alþingis frá 30. júní sl. í máli þar sem hann komst að hliðstæðri niðurstöðu. Sem sagt að þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi ekki staðið rétt að úthlutun á makrílkvóta.
Niðurstaðan var ótvíræð. Svo vitnað sé orðrétt í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis :
„Af framangreindu leiðir að sú ákvörðun stjórnvalda að hlutdeildarsetja ekki makrílstofninn frá þeim tíma [þ.e. frá 2011] var ekki í samræmi við lög.“
Samfélagið í Vestmannaeyjum og víðar hafa orðið fyrir miklum skaða hvað þessa ólögmætu úthlutun varðar. Áætlað hefur verið að í Vestmannaeyjum hafi tjónið legið nærri 5 til 6 milljörðum króna frá árinu 2011 til dagsins í dag vegna þessa. Tjón fyrirtækjanna og ekki síst starfsmanna þeirra er verulegt. Áætlað er að bara árið 2011 hefðu tapast 1.250 milljónir út úr samfélaginu hér í Eyjum. Þar af voru tapaðar launatekjur sjómanna 133 milljónir og tapaðar tekjur landverkafólks 71 miljón- bara það árið. Síðan þá hefur skaðinn undið upp á sig og vaxið.
Víðtækasti skaðinn vegna þess alls er þó sennilega sú mikla óvissa sem skapast í sjávarútvegi þegar stöðugt er verið að hræra í viðskiptaumhverfinu og það jafnvel með ólögmætum hætti.
Sigurður Ingi hefur réttilega sagt að hann virði niðurstöður umboðsmanns Alþingis, vilji læra af þeim og haga embættisgjörðum í samræmi við þær. Álit umboðsmanns á makrílúthlutun liggur fyrir. Það er til að mynda að finna hér (álit umboðsmanns á makrílúthlutun).
Sigurð Inga hef ég þekkt í mörg ár og veit að hann er maður orða sinna.