Á áttunda áratug síðustu aldar tók ég í fyrsta skipti víxillán til að koma þaki yfir mig og fjölskylduna. Magnús (Jónsson) frá Mel, fyrrum ráðherra á vegum Sjálfstæðisflokksins, var þá bankastjóri Búnaðarbankans.
Hann spurði mig hverra manna ég væri.
Kurteis og auðsveipur frammi fyrir bankavaldinu gerði ég grein fyrir mér. Hafði að vísu ekkert flokksskírteini og var ekki spurður um slíkt. En bankinn vildi vita einhver deili á ábyrgðarmönnum eða bakhjörlum lántakanda með hliðstæðum hætti og Sjálfstæðisflokkurinn hélt fyrir áratugum bókhald yfir pólitískar skoðanir fólks. Já hverjum er treystandi?
Snemma árs 2021 skrifar fræðimaðurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson umsögn í Morgunblaðið um bókina Málsvörn Jóns Ásgeirs eftir Einar Kárason. Lætur þar í veðri vaka að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hafi gefið lánastarfsemi banka frjálsa í þeim skilningi að hætt hafi verið í hans tíð að spyrja lántakendur um flokksskírteini áður en lánað væri. Nú skyldi frjálslyndið ráða för.
Þessum langrækna forsætisráðherra ofbauð þó frjálsræðið, sem Hannes Hólmsteinn segir að sé þó frá Davíð komið, þegar Búnaðarbankinn löngu síðar lánaði fjandmanni hans, Jóni Ólafssyni kaupsýslumanni, stórfé. Ógnandi kallaði hann bankastjórann á teppið. Hann vissi að umbun og refsing er til þess fallin að viðhalda hollustunni og auðsveipninni.
Og svo einkavæddi Davíð ríkisbankana. Allt frágengið og klárt snemma árs 2003.
Eftir margvíslegan annan undirbúning hrundi allt bankakerfið liðlega fimm árum síðar þegar langræknin rak þennan sama Davíð, þá seðlabankastjóra, til þess að þjóðnýta Glitni. Bankinn sá var þá á áhrifasvæði Jóns Ásgeirs, en þann fjandmann hafði Davíð smíðað sjálfur og slegist við árum saman. Davíð fékk þjóðnýtinguna í gegn þótt hættan á dómínóáhrifum væru yfirþyrmandi.
William Black, sá er skrifaði bókina „The Best Way to Rob a Bank is to Own One“ var meðal þeirra sem komu hundruð bankstera á bak við lás og slá í miklu fjármálahneyksli í Bandaríkjunum fyrir meira en aldarfjórðungi. Hann kom til Íslands eftir hrun, hélt fyrirlestra og gaf góð ráð.
Með stofnun embættis Sérstaks saksóknara kom íslenska réttarvörslukerfið nokkrum fjölda bankamanna og fjármálajöfra bak við lás og slá eftir bankahrunið 2008. Í því felast engar ofsóknir. Aðalatriðið er að réttarvörslukerfið aflaði þekkingar og kunnáttu til að rannsaka og saksækja fyrir flókin efnahagsbrot. Allir eru jafnir fyrir lögunum. Þessir menn hafa tekið út sína refsingu. Þeir mega nú vera frjálsir og eru kannski löghlýðnir eins og flestir borgarar eru.
Getur þetta verið satt?
En höfuðfjandi Davíðs, Jón Ásgeir, slapp nokkurn veginn þrátt fyrir áralangan málatilbúnað og málaferli af hálfu hins opinbera. Ekki þó í þeim skilningi að hann varð að segja sig frá mörgum góðum viðskiptatækifærum í Bretlandi eins og glögglega kemur fram „Málsvörninni“ eftir Einar Kárason. Meðal annars vegna húsleita og lögreglurannsókna í fyrirtækjum hans á Íslandi. Var þeim aðgerðum fjarstýrt af Davíð? Einar Kárason vitnar til orða Jóhanns R. Benediktssonar, fyrrverandi lögreglustjóra og sýslumanns í Málsvörninni: „Hann sagði frá því að örskömmu fyrir innrásina í Baug, eða húsleitina frægu, þann 28. Ágúst 2002, hefði hann verið á Þingvöllum í boði forsætisráðherrans ásamt öðrum sýslumönnum og lögreglustjórum. Hann hafi staðið á tali við Davíð ásamt fleirum þegar ríkislögreglustjórinn (Haraldur Johannessen) kom og tilkynnti ráðherranum að nú ætti að fara að láta til skarar skríða gagnvart Baugi. Jóhann R. Benediktsson sagði að þetta hefði hitt viðstadda mjög illa, og bætti við: „Davíð fyrtist við og sussaði ríkislögreglustjórann í burtu, augljóslega þar em ekki mátti tala um þetta svo að aðrir heyrðu.“ (bls. 173)
Kannski hafa þeir eitthvað lært sem fengu dóm og tóku út refsingu. Augljóslega er Jón Ásgeir reynslunni ríkari eftir að ríkisvaldið hafi árangurslaust varið ógrynni fjár til þess að koma honum bak við lás og slá.
En nú virðist sem þetta sama ríkisvald sé ekkert í mun að slá í eða hotta á eftir rannsókn á mútu- og spillingarmálum Samherja. Þær eru ekki margar stórútgerðirnar sem hafa nú allt þjóðfélagið í greip sinni líkt og Davíð Oddsson taldi að ætti við um Baugsveldið forðum.
Vonandi er þó íslensk þjóð betur varin gegn alvarlegum efnahagsbrotum en áður. Fjöldi af hæfu fólki hefur nú þekkingu og kunnáttu til að rannsaka slík brot. Þessir sérfræðingar náðu valdi á mikilvægri greiningu efnahagsbrota m.a. í störfum sínum fyrir sérstakan saksóknara. Löngu fyrir bankahrunið hafði GRECO bent á nauðsyn þess að Ísland efldi sérhæfingu og kunnáttu til þess að rannsaka og ákæra fyrir alvarleg efnahagsbrot.
En það eru enn til stjórnmálaöfl sem vilja helst ekkert eftirlit hafa í nafni almannahagsmuna. Þau aðhyllast dólgakenningar um að ríkið eigi ekki að gera annað en að reka vita og kannski eitthvað fleira smátt. Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn létu það verða eitt af sínum fyrstu verkum eftir kosningarnar 2013 að tilkynna um niðurskurð á fjárframlögum til helstu eftirlitsstofnana þjóðarinnar, þar á meðal til embættis sérstaks saksóknara. Og enn er höggvið í sama knérunn. Fjármálaeftirlitinu komið fyrir innan Seðlabankans. Háværar kröfur frá máttugum fyrirtækjum og hagsmunasamtaka þeirra um að koma Samkeppniseftirlitinu á kné. Embætti skattrannsóknastjóra á að leggja niður og koma fyrir í skúffu hjá Skattinum. Og löngu er búið að skera niður framlög til embættis héraðssaksóknara (áður sérstakur saksóknari) umfram það sem eðlilegt mátti telja. Það er tilgáta mín að það séu sömu öflin sem þrengdu árum saman að Baugsfeðgum sem nú sjá til þess að hæfilega sé gefið eftir í rannsókn og saksókn fyrir spillingarbrot Samherja. Annað hvort eru menn þóknanlegir valdinu eður ei.
Fátt breytist – enn að minnsta kosti
Kannast einhver við að hafa heyrt um að opinber saksóknari í þjóðríki hafi fengið heimild til húsleitar hjá skattrannsóknastjóra í sama þjóðríki? Jú mikið rétt. Það gerðist snemma árs 2008 á Íslandi þegar skattrannsóknastjóri neitaði saksóknara um gögn sem gátu leitt í ljós hvort skattkerfið mismunaði borgurunum. Hvort þeir sem hefðu flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins upp á vasann fengju silkihanskameðferð en hinir, sérlegir óvinir Davíðs Oddssonar, væru sendir lögreglurannsókn. Flokksgæðingurinn fékk í kyrrþey að að semja við yfirskattanefnd um sektir fyrir vantaldar tekjur en Jón Ásgeir og fleiri sendir í lögreglurannsókn með yfirvofandi kröfu um 6 ára fangelsi. Samt höfðu þau öll fengið milljónir úr sama sjóðnum á sama tíma; líka flokksgæðingurinn.
Forhert hlutdrægni varð æ augljósari í eltingaleik ríkisvaldsins við feðgana í Baugsmálinu eftir því sem fleiri gögn voru birt. En spilltri og hlutdrægri meðferð opinbers valds er ekki lokið af hálfu stjórnvalda. Hún var augljós hjá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann lagðist gegn því í fyrra að Þorvaldur Gylfason yrði ráðinn ritstjóri við hagfræðirit í Skandinavíu. Vafasöm meðferð hans á valdinu hafði áður náð hæðum þegar hann (sem fjármálaráðherra) stakk tveimur skýrslum undir stól sem komu honum og flokki hans illa fyrir þingkosningar. Þessi hlutdrægni og forherðing kemur einnig fram í þeim orðum Hannesar Hólmsteins á netinu að Sverrir Hermannsson flokksbróðir hans um tíma hafi stofnað stöðu handa honum við Háskóla Íslands (sem er reyndar ekki rétt, en hann réði hann án auglýsingar). Að Birgir Ísleifur Gunnarsson flokksbróðir Hannesar Hólmsteins og þáverandi menntamálaráðherra hafi ráðið hann til HÍ gegn vilja Félagsvísindadeildar vegna skoðana sinna. Að Bjarni Benediktsson og Árni Mathiesen, fjármálaráðherrar íslensku þjóðarinnar, hafi hvor um sig afhent Hannesi Hólmsteini 10 milljónir króna af almannafé til að skrifa gagnslausar áróðursskýrslur.
Þessum greinarstúf er ekki ætlað að vera bókarumsögn um „Málsvörn Jóns Ásgeirs“ efir Einar Kárason. Miklu fremur eru þetta hugleiðingar sem vöknuðu við lestur bókarinnar. En bókin rennur vel og heldur manni við efnið. Aðrir hafa lýst efni hennar af meiri nákvæmni en ég og fellt um hana dóma.
Davíð Scheving Thorsteinsson frumkvöðull og iðnrekandi sagði mér fyrir margt löngu að hann hefði hitt roskinn auðmann í Bandaríkjunum sem hann átti einhver viðskipti við. Sá gamli sagði við Davíð Scheving að hann hefði þrisvar orðið gjaldþrota á ævinni og skipti helst ekki við aðra en þá sem hefðu farið á hausinn svo sem tvisvar til þrisvar sinnum. Öðrum væri ekki treystandi.
Kannski á þessi saga við um Jón Ásgeir nú. Það kemur í ljós.
Einar Kárason: Takk fyrir læsilega bók.
Höfundur er blaðamaður.