Þessa dagana er erfitt annað en að fyllast vonleysi yfir heimsfréttunum. Viðbjóðurinn og vægðarleysið er algjört. Meðan þokkalega saklaust fólk á Íslandi er vonlaust er varla hægt að gera sér tilfinningar almennings á Gasa í hugarlund.
Það þurftu rúmlega 500 Palestínumenn, konur og börn að deyja áður en Obama Bandaríkjaforseti og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kröfðust vopnahlés á Gasasvæðinu. Þá höfðu líka þrettán ísraelskir hermenn látist. Fram að því sat þetta fólk bara hjá og talaði um réttinn til að verja sig.
Nú hafa enn fleiri dáið úr röðum beggja þótt palestínsku fórnarlömbin séu miklu fleiri, eins og alltaf. Ráðist hefur verið á hús almennra borgara, heilu fjölskyldurnar stráfelldar og sprengjum er meira að segja látið rigna á spítala þar sem reynt er að koma fórnarlömbunum til bjargar.
Og jú, auðvitað bera bæði Hamasliðar í Palestínu og stjórnvöld í Ísrael einhverja ábyrgð á ástandinu. Það er augljóst. Ábyrgðin er samt ekki jöfn og ekkert getur réttlætt árásir eins og þær sem almenningur á Gasa hefur orðið fyrir að undanförnu. Almenningur ber nefnilega ekki ábyrgð, fólkið sem er á Gasa er þar margt hvert því það neyddist til þess að fara þangað og það getur ekkert annað farið. Það kemst ekki burt.
Sitthvor hliðin á sama peningnum
Þökk sé samfélagsmiðlum og tækni er bæði auðveldara að miðla því sem er að gerast til umheimsins, og að sama skapi erfiðara að villa eins mikið fyrir í átökum og oft hefur verið mögulegt að gera. Við höfum séð myndir og myndbönd af særðum, dánum og syrgjandi og getað fylgst með sprengjuárásum og landhernaði nánast í rauntíma. Við fáum jafnframt innsýn inn í hugarfar fólks á svæðinu, og þar er margt mjög sorglegt að sjá. Mannhatrið sem er til og magnast í svona löngum deilum er óhugnanlegt, hvort sem það eru Palestínumenn sem fagna dauða ísraelskra hermanna eða Ísraelar sem safnast saman með popp og kók til að fylgjast með sprengjum rigna yfir Gasa.
Hugmyndin sem hreiðrar um sig er að önnur þjóðin sé rétthærri og betri, af því bara. Þess lags hugsunarháttur er langt frá því að vera einskorðaður við þetta svæði því hann fyrirfinnst því miður alls staðar, líka á Íslandi, eins og við höfum séð. Þessi hugsunarháttur elur af sér hatur, vegna trúar, kynþáttar eða kynhneigðar. Múslimahatur og gyðingahatur er bara sitthvor hliðin á sama peningnum.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_24/4[/embed]
Ísland taki af skarið
Gunnar Bragi Sveinsson hefur staðið sig vel fyrir hönd Íslands í málinu. Hann fordæmdi ofbeldisverkin snemma og lýsti yfir réttmætum áhyggjum af getuleysi Öryggisráðsins. Síðan þá hefur hann tjáð sig bæði á samfélagsmiðlum og við fjölmiðla og nú síðast var ákveðið að ríkið veiti tólf milljónir í neyðaraðstoð á svæðinu.
Raunar hafa öll viðbrögð íslenskra stjórnvalda hingað til verið fín. Viðbrögð fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og bréf forsætisráðherra til kollega síns í Ísrael voru góð næstu skref, enda nauðsynlegt að koma mótmælunum á framfæri á alþjóðavettvangi. Ríki eins og Ísland, sem hefur viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki, hefur ákveðnum skyldum að gegna í ljósi þeirrar viðurkenningar og verður að reyna að vera hávært og beita sér. Alveg sama hversu lítil áhrif það hefur eða mjóróma rödd Íslands er, það er betra en ekki neitt.
Hópur Íslendinga hefur lengi látið sig málefni Palestínu varða og þessi hópur hefur farið sífellt stækkandi, sem sést best á fjölmennum mótmælum í gær. Það er líklega erfiðara en nokkru sinni fyrr að leiða ástandið hjá sér, þökk sé ekki síst samfélagsmiðlum. Því er ekkert skrýtið að vanmáttugur almenningur á Íslandi kalli eftir því að meira sé gert. Þess vegna má alveg ræða kosti og galla þess að slíta stjórnmálasamstarfi við Ísrael, þótt ólíklegt sé að það verði ofan á eins og er eða sé endilega það skynsamlegasta í stöðunni. Á meðan má benda á sniðgönguhreyfinguna BDS sem vill að einstaklingar og fyrirtæki sniðgangi Ísrael og ísraelskar vörur og að viðskiptaþvingunum verði beitt gegn ríkinu, að fyrirmynd þeirra aðgerða sem gripið var til gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku. Þær aðgerðir geta haft raunveruleg áhrif, breiðist þær nægilega út, og íslensk stjórnvöld gætu tekið af skarið í þeim málum.
Eftir þessa frammistöðu íslenskra stjórnvalda gætu þau líka litið inn á við og notað þessar hörmungar sem hvatningu til þess að taka á hatursorðræðu sem viðgengst í garð minnihlutahópa hér á landi, og einnig sem hvatningu til að taka betur á móti flóttafólki frá stríðhrjáðum löndum. Það skýtur nefnilega mjög skökku við viðurkenna hörmungarástandið á Gasa án fyrirvara núna, en vísa samt Palestínumönnum burt úr landinu. Í þessum efnum skiptir rödd íslenskra stjórnvalda nefnilega öllu máli og með þessum aðgerðum myndu þau sýna að þau í raun og veru standi með mannréttindum.
Leiðrétt klukkan 24. júlí kl. 23:08.
Vegna mistaka birtist eldri útgáfa af leiðaranum hér á vefnum. Rétt útgáfa er nú birt hér eins og í tímaritinu.