Á síðustu árum hafa orðið kerfisbreytingar í fréttamennsku. Fréttaveitur á netinu hafa tekið við af pappírnum, og sumar þessarar fréttaveita hafa orðið einskonar skyndibitastaðir fyrir fréttaþyrsta. Fréttaskyndibitinn er borinn á borð í formi fyrirsagna sem ætlað er að grípa lesandann. Smellir og heimsóknafjöldi eru núna hugtök sem koma í stað dreifingar og lesturs. Kappið um smellafjöldann er þannig að velflestir fréttamiðlar birta lista yfir mest lesnu fréttirnar, svo að keppninni sé haldið til haga. Í lok ársins eru gefnir út árslistar yfir mest lesnu fréttirnar. Flestu smellina (e. clicks). Bestu fyrirsögnina.
Þetta form er bara eins og það er. Þetta hefur færst nær auglýsingamennsku og fjær fréttamennsku. Form sem er hinumegin á kvarðanum við rannsóknarblaðamennsku. Kannski mætti tala um nýtt listform í skapandi skrifum, hina fullkomnu veffyrirsögn. Gullgerðarmenn gætu jafnvel reynt að finna upp formúlur. Margir hafa eflaust reynt.
Þó eru ennþá engar deildir í listaháskólum tileinkaðar forminu, og í staðinn virðast vindar eða tískustraumar ráða því hvaða fréttir fá flesta smelli. Þau mál sem helst eru í tísku í þjóðfélaginu hverju sinni. Vinsælar skoðanir, vinsælt fólk. Og svo er allt hitt, þetta dimma og ljóta sem er svo ljótt að maður getur ekki litið undan. En kannski ætti maður að gera það.
Óhugnanlegar fyrirsagnir notaðar til að selja smelli
Með þessari þróun hefur færst í aukana að nota grafískar lýsingar á stríðs og ofbeldisglæpum í slíkar fyrirsagnir. Það er ekki nýtt í fréttasögunni heldur fyrirbæri sem lengi hefur verið verið notað til að selja fréttir. Athugið þó að hér er talað um að selja fréttir. Nýlundan er sú að í dag eru þessar óhugnanlegu fyrirsagnir notaðar til að selja smelli. Fréttrnar sem fylgja slíkum fyrirsögnum eru hvorki fréttaskýring né eiginleg frétt, heldur oftar en ekki smellibeitur, stuttleg viðbót við lýsinguna sem eingöngu er ætlað er að vekja hroll hjá lesandanum og dýpkar þessvegna ekki skilninginn á því í hvernig samhengi svona hlutir gerast. Lesandinn bregst við eins og við áhorf á hryllingsmynd, finnur til skammvinns ótta og æsings, grípur ef til vill nafnið á gerandanum sem oftar en ekki eru einhver samtök eða öfgahópur, en svo er haldið áfram á næstu fyrirsögn. Hér er enginn raunverulegur áhugi fyrir hendi, eða fróðleikur í boði um ástand mála, heldur eingöngu afþreying sem hefur fengið að taka á sig sama form og fréttamolar úr poppkúltúr: Hverjir voru hvar, hverjir voru pyntaðir hvernig.
Íslenskir fjölmiðlar hafa svo sannarlega fengið far með þessari lest, en á síðustu misserum virðist hafa verið bætt um betur og þegar eitt dugir ekki lengur er gripið til örþrifaráða.
Íslenskir fjölmiðlar hafa svo sannarlega fengið far með þessari lest, en á síðustu misserum virðist hafa verið bætt um betur og þegar eitt dugir ekki lengur er gripið til örþrifaráða. Pyntingar og ofbeldisglæpir gegn börnum er nýjasta æðið í smelliveiðikúltúrnum.
Eitt einkenni á þessum smellibeitum er að þessir ofbeldisglæpir beinast undantekningalaust að börnum erlendis og þá helst í fjarlægum löndum. Fólk virðist ennþá kunna sér hóf þegar málin snúa að innlendum fréttum, eins og sjá má á fréttaflutningi um innlent barnaníð. Maður sér ekki grafískar lýsingar í fyrirsögnum þannig frétta. Ekki ennþá, og mikið vona ég að það gerist aldrei.
Auglýsingatækni sem elur á umtali og ótta
Það versta er að þetta er ekki saklaus skemmtun, heldur vekur þessi tegund fréttamennsku, ef svo skyldi kalla, eingöngu tilætluð áhrif hjá þeim sem fremja þessi ódæðisverk. Nafn þeirra samtaka eða afla sem standa að baki ofbeldinu kemur oftar en ekki fram í fréttinni. Þetta er borðleggjandi auglýsingatækni sem elur á umtali, ótta og áframhaldandi dreifingu óttans sem er nákvæmlega það sem ofbeldinu er ætlað að gera.
Þeir sem falla fyrir þessum smelligildrum eru þannig óafvitandi orðin ómissandi hluti af vélinni sem elur af sér meiri þjáningu, ofbeldi og hrylling. Samfélagið þarf að hætta að neyta ofbeldis gegn börnum sem markaðsvöru og leitast þess í stað við að kynna sér slík málefni af alvöru.
Krefjumst ábyrgrar fréttamennsku, og tökum ábyrgð á smellunum.