Undir lok þessa kjörtímabils birti ríkisstjórnin nokkrar aðgerðir til eflingar og stuðnings menningu, listum og skapandi greinum. Bandalag íslenskra listamanna fagnar þeim, enda er um að ræða langþráðar ákvarðanir eins og að koma Listaháskóla Íslands undir eitt þak í eigin húsnæði, hefja nám í kvikmyndagerð á háskólastigi, gera átak í kynningu lista og skapandi greina á erlendum vettvangi og efla rannsóknarstarf í greinunum.
Margt gott en ýmislegt ógert
Ríkisstjórnin lagði að vísu upp með áform um ýmsar fleiri aðgerðir í upphafi ferðar og sumar af þeim hafa komist til framkvæmda að öllu eða einhverju leyti, eins og breyting á skattlagningu höfundagreiðslna, skráning hagvísa menningar og skapandi greina og aukinn stuðningur við bókaútgáfu, þó raunar hafi upphaflega verið áformað að afnema virðisaukaskatt af bókum.
Það er ástæða til að fagna ýmsu af því sem náðst hefur á stjórnartíma þessarar ríkisstjórnar og þessi sprettur undir lokin var ánægjulegur. Það standa þó ennþá út af nokkur mikilvæg verkefni sem ekki hefur tekist að koma í framkvæmd. Bandalag íslenskra listamanna harmar að ekki hafi tekist á stjórnartímanum að efla stjórnsýslu málaflokksins, að aðgerðaáætlun á grunni samþykktrar menningarstefnu hafi ekki verið birt og að efling launa- og verkefnasjóða listgreina sé ekki í höfn. Allt eru þetta atriði sem BÍL og aðildarfélög þess hafa lengi lagt hart að stjórnvöldum að framkvæma.
Heimsfaraldur í flóknu starfsumhverfi
Þetta hefur vissulega verið undarlegt kjörtímabil og flestum verkefnum verið stjórnað af dagskrárstjóra sem engin þekkti til í upphafi, Covid-19. Þetta ástand hefur verið listamönnum sérstaklega erfitt og snúið, ekki síst einyrkjum sem starfa í afar flóknu starfsumhverfi. BÍL átti í samtali við stjórnvöld um ýmis úrræði til þess að milda höggið af faraldrinum fyrir listamenn og þó einhver þeirra hafi nýst vel þá er vandi hins samsetta vinnuumhverfis í raun óleystur og bíður þeirra þingmanna, sem taka við stjórnartaumunum að loknum kosningum, að finna lausn á og færa til betri vegar. Bandalag íslenskra listamanna hefur undanfarið átt í samtali við forystufólk flokkana um málefni menningar og lista, með það að markmiði að mikilvægi málaflokksins verði viðurkennt í komandi stjórnarsáttmála og þar verði sett fram metnaðarfull markmið um að hann eflist enn frekar og dafni.
Menning og skapandi greinar í fimm ráðuneytum
Bandalag íslenskra listamanna hefur lengi haldið því fram að forsenda þess að efla málaflokkinn sé öflugri og skilvirkari stjórnsýsla og það verði best gert með stofnun sérstaks menningarmálaráðuneytis að norrænni fyrirmynd. Á undanförnum árum hefur stjórnsýslu menningar, lista og skapandi greina verið tvístrað þannig að nú skiptist hún milli fimm ólíkra ráðuneyta, sem hvert um sig hefur sjálfstæða sýn á hlutverk menningar og listsköpunar í störfum sínum og verkefnum. Þetta ráðslag veikir málaflokkinn og gerir hagsmunasamtökum eins og BÍL mjög erfitt að gæta fjölþættra hagsmuna listamanna í stjórnkerfinu. Þess vegna kalla listamenn eftir sjálfstætt starfandi ráðherra menningarmála, til að tryggja málaflokknum óhindraðan aðgang að ríkisstjórnarborðinu, sem hefur verið vandkvæðum bundið, þar sem umfangsmikil og flókin mál menntunar og skóla eru ævinlega tekin fram fyrir. Niðurstaðan er því oftast sú að HINN málaflokkur ráðherrans, þ.e. listir og menning verður útundan.
Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti
Bandalag íslenskra listamanna hefur ítrekað komið þessum sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld, allt frá árinu 2015. Ýmsir hafa tekið vel í málið, þó sumir hafi haldið því fram að sjálfstætt menningarmálaráðuneyti verði lítið og veikburða en aðrir hafa einfaldlega talið óráðlegt að fjölga ráðherrum um of. Þessar áhyggjur telur BÍL auðvelt að sefa og telur þær í raun með öllu óþarfar. Ef horft er til hinna Norðurlandanna þá eru menningarmálaráðuneytin öflugar stjórnsýslueiningar sem sinna margþættum, litríkum og mikilvægum málaflokkum menningar í löndum sínum. Hér verða ekki taldir upp einstakir málaflokkar sem norrænu menningarmálaráðuneytin sinna en fullyrt að menningarmálaráðuneyti Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur verði seint talin veikburða.
Sjálfstæð rödd við ríkisstjórnarborð
Bandalag íslenskra listamanna leggur til að stjórnmálaflokkarnir, sem nú bjóða fram krafta sína til að fara með framkvæmdavald okkar næstu fjögur árin, taki alvarlega til skoðunar að koma málefnum lista, menningar og skapandi greina fyrir í öflugu, sjálfstæðu menningarmálaráðuneyti. Sé mönnum alvara með þeim málflutningi að undirstaða framtíðarhagkerfa sé hugverkadrifið atvinnulíf sem byggi á auðlindum þekkingar og sköpunar þarf að tryggja menningu, listum og skapandi greinum stöðugleika og sjálfstæða rödd við ríkisstjórnarborðið. Við erum þess fullviss að slík ráðstöfun yrði mikið gæfuspor.
Höfundar eru núverandi og fyrrverandi forsetar Bandalags íslenskra listamanna.