Merkilegt hvernig menning og listir túlka veruleikann á annan hátt en allar aðrar greinar mannlegrar tjáningar. Þess vegna getum við ekki lifað án listar og menningar.
Fyrirsögn þessa greinarkorns vaknaði eftir að ég hafði horft á lok þáttaraðarinnar, Verbúðin. Skáldskapurinn birtir sannleikann betur en nokkuð annað þegar mannleg tjáning á í hlut. Þættirnir birtu okkur á ljósan hátt hvernig græðgi og spilling grasserar í mannlífinu.
Þessi brotalöm, eða synd, er í okkur öllum, en við getum varist henni með því að vera árvökul í daglegu lífi og leitast við að lifa í takti við réttlæti og sannleika, og styðja við hið sama í samskiptum okkar við annað fólk, í nefndum og ráðum, í félögum og stjórnum, á vinnustað og heimili og síðast en ekki síst, í kjörklefanum!
Svo er það athyglisvert að á íslensku tölum við um menningu meðan á flestum öðrum tungumálum sem eru skyld okkar, þ.e.a.s. evrópskum tungumálum, er notað orðið kúltúr, sem vísar til ræktunar. Minn góði og fróði prófessor, Einar heitinn Sigurbjörnsson, vakti athygli okkar, nemenda sinna, á þessu forðum daga í guðfræðideild HÍ.
Menning er af orðinu maður. Í guðfræðinni eru tvær táknmyndir um manninn sem rísa hæst. Önnur er Adam hinn fyrsti maður sem brást og kallast því hinn gamli Adam. Hin er Jesús Kristur, hinni nýi Adam, sem ekki féll fyrir meini heimsins, syndinni, sem á frummáli Nýja testamentisins er hamartia og merkir geigun eða brotalöm. Menningin fæst því við að túlka mannlífið í glímunni sem stendur milli hins góða og illa og ætti í því sambandi að horfa til Mannssonarins, sem var eitt af tignarheitum Krists, sem birti mennskuna/menninguna í sinni tærustu mynd. Kristnin hefur fært okkur þessa túlkun og skilning á tilvist mannsins, manneskjunnar.
Ég hef kallað syndina galla í stýri og vísa þar með til fyrsta bílsins sem ég eignaðist. Hann var af sænskri gerð, en ég gef ekki upp tegundina! Hlaup var í stýrinu og þess vegna leitaði hann ætíð út af veginum og mitt hlutverk var að halda honum á réttum vegi. Og bíllinn á sinn skáldlega hátt færði mér heim sanninn um að ég er einmitt haldinn samskonar hlaupi í stýri og á það því til að leita út af veginum.
Á Alþingi sátu menn, sem voru hreinir agentar sérhagsmuna, þegar kvótalögin voru samin og samþykkt, agentar þeirra sem mynduðu græðgis- og valdaklíkur, sem í a.m.k. sumum tilfellum, hafa í tímans rás afhjúpað sig sem glæpaklíkur. Agentunum tókst að sannfæra meirihlutann um óréttinn, m.a. með flokksagann sem tyftara.
Og enn er Alþingi ófært um að laga skekkjuna, geigunina, hlaupið í stýrinu, syndina í kerfinu, þrífa upp óþverrann. Á Alþingi sitja enn agentar og varðhundar sérhagsmunanna, sem mæla flátt og hugsa lágt. Um þá koma mér í hug orð hins þjáða Jobs, sem varð fyrir ótrúlegum órétti af hálfu vina sinna, og varð að hlusta á makalaust tal þeirra:
„Því að sannlega samtvinnið þér lygar og eruð gagnslausir gutlarar allir saman." (Job 13.4)
Ég hef leyft mér, oftar en einu sinni, í málflutningi mínum, að breyta einum staf í orðinu þjóðþing og skipt út ð fyrir f. Þingið er í þeim sporum að standa vörð um þjófnaðinn og arðránið sem þjóðin verður fyrir alla daga meðan hið bölvaða gjafakvótakerfi er við lýði. Þingmenn sem vilja breytingar á þessari spillingu og eru í minnihluta, sitja uppi með að vera nytsamir sakleysingjar, sem ná engu fram og verða þar með hluti af óhreinu mengi - þjófþingi.
Alþingi hefur breytt Íslandi í lénsveldi á ný og lénsherrarnir eru kvótagreifarnir. Þeir munu græða á því um aldur og ævi meðan þjóðin lætur þá og þjóna þeirra á Alþingi og í ríkisstjórnum, skammta sér þunnan graut í skál.
Auðvitað þurfti að setja bönd á fiskveiðar, kvótakerfi í einhverri mynd, en ekki þeirri sem nú er. Og athyglisvert er að kerfinu var ætlað að koma í veg fyrir ofveiði. Hvers vegna berst minni afli á land nú en þegar óbermis kvótakerfið var sett á? Hefur því ekki mistekist að koma böndum á græðgina?
Stjórnlagaráð setti fram auðlindaákvæði sitt með réttlátum og sanngjörnum hætti í 34. grein um Náttúruauðlindir:
Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námuréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.
Hér er tekinn af allur vafi um eignarhald og veðsetninga. Gengið er út frá því að aðgangur að auðlindunum skuli vera „gegn fullu gjaldi". Þetta studdu 83% kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur Stjórnlagaráðs árið 2012 og 67% sögðust vilja leggja tillögur ráðsins fram sem grunn að frumvarpi um nýja stjórnarskrá.
Að þessu orðalagi „gegn fullu gjaldi" hefur ítrekað verið gerð atlaga m.a. af núverandi forsætisráðherra og flokki hennar VG. Þá liggur það í augum uppi að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn vilja ekki heldur þetta orðalag, en kjósa þess í stað að skiptast á um, ásamt með VG, að klæðast jólasveinabúningi og útdeila „gjöfum sínum" til lénsherranna með því að gegnisfella orðin - „fullt gjald".
Allir þingmenn, sem kosnir voru til yfirstandandi þings og allra þinga, voru kosnir sem fulltrúar hagsmunaafla og þess vegna eru þingmenn ófærir um að rita þjóðinni nýja stjórnarskrá. Þjóðin fól það öðru fólki, sem kosið var af þjóðinni, sem einstaklingar, en ekki agentar flokka og sérhagsmuna. Þessu verklagi hefur verið fylgt meðal margra lýðræðisþjóða með góðum árangri.
Baráttan er harðvítug við spillingaröflin í landinu sem smeygja sér allsstaðar inn eins og veira sem sýkir allt, veikir og skælir hið góða, fagra og fullkomna.
Syndin, hlaupið í stýrinu, geigunin, er eins og veira, hún er eins og húsasótt, sem hefur lagst á Alþingishúsið og breiðist þar út og gerir þingmönnum erfitt fyrir að standa uppréttir á vegi réttlætisins, en lætur þá í staðinn skriplast á skötu í sínum lagasetningum og skrifa lög sem minna á myndhverfingu um skrattann á hálum ís sem skakklappast á hálum hófum og párar illan og groddalegan boðskap með járnkarli á svellið. Réttlætissólin mun í fyllingu tímans bræða það svell vondra laga og sökkva ljótum áformum spillingaraflanna í djúpan sæ. En til þess að svo megi verða, þarf þjóðin að vakna af sínum Þyrnirósarsvefni.
Aðkoma Hæstaréttar er svo kapítuli út af fyrir sig sem Þorvaldur Gylfason hefur gert rækileg skil í grein sinni í Fréttablaðinu 18. febrúar 2021 sem hann ritaði ásamt Lýði Árnasyni og Þórði Má Jónssyni, undir yfirskriftinni: Vanhæfni í Hæstarétti.
Ég veit ekki hvort þú tókst eftir því í lokasenu síðasta þáttar Verbúðarinnar, að Harpa sem uppnefnd var Vestfjarða-nornin, horfði út um glugga herbergis síns á Hótel Sögu þegar hún var flúin að vestan með gróðann í reiðingum. Þar sást Neskirkja handan Hagatorgs. Það gladdi mig því þar þjónaði ég í ein 15 ár og talað ítrekað af prédikunarstóli um óréttinn í þjóðfélaginu, um auðlindir landsins og mannsins mein og sár og leitaðist við að benda á veginn til hins góða fagra og fullkomna. Hún horfir út um gluggann áður en skipt er niður á Alþingi þar sem Jón Hjaltalín flytur ræðu sína og endar með orðunum: Góða nótt!
Og enn ríkir nóttin!
En lifi menningin, lifi skáldskaparhefðin, með hinu ríka myndmáli og hnífskarpri gagnrýni!
Þakkir til ykkar í Vesturporti fyrir hugrekki, hnífskarpa sýn og skáldlega takta!
Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur.