Fyrir nokkrum árum, á nöprum og niðdimmum vetrarmorgni, sat ég á bekk ásamt annarri konu. Við vorum báðar kvenvinnuafl á útsölumarkaði íslenskrar valdastéttar, báðar í tveimur konu-vinnum, í tilraun til að láta enda ná saman sem virtist endalaus. Ódýrt kvenvinnuafl er jú mjög eftirsótt á vorum dögum á Jafnréttiseyjunni og því lítið mál fyrir vinnusamar konur að finna sér aukastarf; hér lifum við eftir lögmálum uppfundnum fyrir nokkur hundruð árum á annarri eyju, þó vissulega trúi því ýmsir að mennsk hönd hafi þar ekki komið að, þar sem ákveðið var að Kona skyldi ódýrasti varningurinn á markaði, svo hægt væri að nýta vinnuafl hennar sem mest fyrir sem minnst, þjóðhagslegri auðlegð til mikilla góða.
En nóg um það, sagan er af konum á bekk, ekki uppruna arðránsins í mannlegum samskiptum. Það var ekki aðeins myrkur úti, við vorum líka myrkvaðar inní okkur. „Hvað á ég að gera?“, spurði konan mig og ég hafði engin svör; hvað átti hún að gera, nú þegar fregnir höfðu borist um fyrirhugaða 20% hækkun á húsaleigunni hennar; hún var þegar í tveimur konuvinnum til að sjá fyrir fjölskyldu sinni og þrátt fyrir umtalsverðan dugnað var ekki alveg raunsætt að hún fengi sér þá þriðju.
Konur þurfa stundum að hvílast, líka ofur-arðrændar láglaunakonur. Ég veit það ekki, svaraði ég og það var satt, ég vissi ekkert hvað hún átti að gera. Hún var fangi í kramningsvél snarbilaðs fólks, meðlima íslenskrar arðránsstéttar, íbúa forréttindaturnsins sem árið 2017 gnæfði sannarlega hátt en hefur risið enn hærra síðan þá, svo hátt að þau sjá ekki til jarðar þar sem að eignalausar konur þeirra Jafnréttiseyju sem þau, útblásin af mont-vímu röfla stöðugt um, streyma til og frá um borgina, uppsprettur endalauss arðráns; „Það tilkynnist hér með að frá og með næstu mánaðamótum verður þyngt verulega í keðjunni sem heldur þér fanginni. Ef að þú hefur athugasemdir við það er þér bent á að bera harm þinn í hljóði. Það hefur enginn áhuga á að heyra þig væla.“ Ég vissi ekkert hvað hún átti að gera og við sátum áfram þöglar. En ég fann hvernig andúðin á kerfinu sem traðkar á eignalausum konum, heldur þeim fögnum alla þeirra daga, sogar úr þeim gleðina og orkuna, hellir inn í þær köldu myrkri kvíðans, kerfi knúnu áfram af auðvirðilegum sadisma arðræningjanna, líkt og holdgaðist, settist við hlið okkar og spurði: Ekki ætlarðu að gera ekki neitt?
Gömlu vopnin skila árangri
Það er oft á tíðum nokkuð þungbært fyrir okkur í Eflingu að upplifa hversu raunverulegt skeytingarleysið er gagnvart tilveruskilyrðum okkar og baráttu. Við erum ómissandi vinnuafl, verðmætasköpun samfélagsins hvílir á framlagi okkar, en samt er það svo að menn leyfa sér að hundsa okkur eða skipa fyrir eins og við séum ekki fullorðið fólk sem eigi virðingu skilið. Þegar við komum að samningaborðinu þar sem hið stórkostlega mikilvæga samtal fer fram um sanngjörn laun fyrir unna vinnu er okkur mætt með hroka og tilætlunarsemi. Það er sama hvað við opinberum um aðstæður Eflingar-fólks, sama hvaða staðfestingar á sjúkleika ástandsins við ræðum, þau sem bera ábyrgð á biluninni glápa á okkur eins og við séum vandamálið, eins og það að við tölum um staðreyndir og afleiðingar efnahagslegrar kúgunnar á láglaunafólki sé til marks um að við séum þau biluðu. Í stað þess að mæta okkur í Eflingu af skynsemi og samningsvilja er sett af stað tilraun til að hafa af Eflingu frelsið til að semja um þau laun sem Eflingar-fólk fær fyrir sitt vinnuafl. Tilraunin er óforskömmuð og ólýðræðisleg. Til að fela það er hún kölluð Friður á vinnumarkaði.
Við hugsuðum um þessar mögnuðu staðreyndir og tókum ákvörðun um að nota gömlu vopnin, þau sem skilað hafa mestum árangri. Og með því að nota þau komumst við áfram í baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti til handa því fólki sem þrátt fyrir grundvallarmikilvægi hafði verið dæmt til að hýrast út í horni óávarpað og lítt sýnilegt, áratugum saman, í nafni sjúkrar Þjóðarsáttar um óheft arðrán á alþjóðlegri stétt verka- og láglaunafólks á Íslandi. Þetta fólk færði sig úr horninu, myndaði nýja framvarðarsveit í íslenskri verkalýðsbaráttu og sannaði fyrir sjálfu sér og öðrum að enginn er betri í að berjast en þau. Mörgum er það mikið kappsmál að reka Eflingar-fólk aftur út í horn; hversu mikla upprisu vinnuaflsins geta menn eiginlega þolað? Hvað verður um „Frið“ á vinnumarkaði ef að samninganefnd Eflingar gefst ekki upp?
Sumt ljótt og leiðinlegt, annað kostulegt í fáránleika sínum
Margt hefur opinberast á síðustu árum. Sumt ljótt og leiðinlegt, annað kostulegt í fáránleika sínum. Og enn annað því sem næst óbærilegt í sjúkleika sínum, eins og sú staðreynd að ekkert virðist auðveldara fyrir pólitíska og efnahagslega valdastétt samfélagsins en að láta blákaldar staðreyndir um tilveruskilyrði vinnuafls höfuðborgarsvæðisins sem vind um eyru þjóta. Í stað þess að finna til löngunnar til að stíga niður úr turninum, og umgangast og hlusta á alþýðu fólks, er firringar-stiginn notaður til að príla enn lengra upp í forréttindaturninn. Það sást einstaklega skýrt um áramótin þar sem að forsætisráðherra gerði sér lítið fyrir og fullyrti í ávarpi til þjóðarinnar að í ný-undirrituðum samningum SA við SGS, VR og iðnaðarmenn væri áherslan á hækkun lægstu launa. Hverjum hún var að gera greiða með því að flytja þessi skilaboð veit ég ekki; staðreyndin er sú að hið þveröfuga var gert og áherslan lögð á að friða hálaunahópa Alþýðusambandsins, með samþykki allra sem að samningunum komu, enda hávær krafa um það frá hálauna-körlunum sem leiddu viðræður og sátu margumrædda maraþonfundi undir stjórn ríkissáttasemjara. Enn á ný sannast að ef efnahagslegur raunveruleiki segir ekki söguna sem að valdastéttin vill segja gerir það ekkert til, þau breyta einfaldlega söguþræðinum svo að til verði frásögn sem hentar.
Skeytingaleysi gagnvart lífsskilyrðum
Úti er napur og niðdimmur vetrarmorgun, á glænýju ári. Um alla borg eru á ferli Eflingar-konur sem nota vöðvaaflið sitt, heilann og hjartað til að halda öllu gangandi. Meirihluti þeirra hefur viðvarandi fjárhagsáhyggjur, sem kreista þær og kremja, taka frá þeim birtuna og fylla þær af myrkri. Mönnum nægir ekki að arðræna þær sem vinnuafl, nei, að þær hafi þak yfir höfuðið skal einnig vera ótæmandi gróðauppspretta reykvískrar borgarastéttarinnar sem í friðlausri gróða-sýki sinni fær aldrei nóg. Valdastéttin flaggar fánum kvenfrelsis þegar hentar en þegar viðfangsefnið er raunverulegar breytingar í efnislegum raunheimum þeim er við byggjum svo að líf kven-vinnuaflsins taki breytingum eru fánarnir snarlega teknir niður, og ófriðarsúla ójöfnuðarins tendruð með viðhöfn.
Það er oft þungbært fyrir okkur Eflingarfólk að sjá hversu raunverulegt skeytingarleysi efnahagslegrar og pólitískrar valdastéttar er gagnvart tilveruskilyrðum okkar. En þrátt fyrir það og vegna þess gefumst við ekki upp. Eignaréttur okkar á sjálfsvirðingunni, samstöðunni og vitneskjunni um að við erum ómissandi er algjör. Enginn fær því breytt. Við höfum lært að baráttuvilji okkar og eldmóður er árangursríkasta móteitrið við myrkvunar- og kúgunar tilraunum fólksins í forréttindaturninum. Þeim mun aldrei takast að svipta okkur frelsinu til að semja fyrir okkur sjálf, frelsi sköpuðu af hetjunum okkar, verkafólki fortíðar, með blóði, svita og tárum, af svo miklum eldmóði að hann ornar enn. Þeim mun aldrei takast að slökkva baráttuvilja okkar.
Á nýju ári skora ég á ykkur að styðja samninganefnd Eflingar. Hverjar þeirra tilrauna sem nú eru gerðar viljið þið að nái árangri? Viljið þið að efnahagsleg og pólitísk valdastétt nái árangri í tilraun sinni til að hafa af Eflingarfélögum sjálfstæðan samningsrétt, frelsið sem að svo miklar fórnir voru færðar fyrir, eða viljið þið sjá samninganefnd Eflingar, mannaða verka og láglaunafólki höfuðborgarsvæðisins, alþjóðlegu liði baráttufólks, vinna sigur í þeirri mikilvægu upprisu-tilraun sem hún stendur nú í, tilraun til að vernda frjálsan samningsrétt verkafólks, tilraun til að vinna sigur í baráttunni fyrir félagslegu og efnahagslegu jafnrétti í samfélagi okkar?
Ég vona af öllu hjarta að þið ákveðið að standa með okkur. Það er sannarlega mikið í húfi.
Höfundur er formaður Eflingar.