Kristinn Karl Brynjarsson, sem situr í framkvæmdastjórn Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.
Nú hafa nokkrir einstaklingar stigið fram og sagt að þeir séu það efnaðir að þeir þurfi ekki á leiðréttingunni að halda. Þiggi þeir leiðréttinguna og þá með óbragð í munni, ætli þeir að láta leiðréttinguna renna til góðgerðarmála.
Þetta hljómar kannski ekki svo illa í fyrstu. En samþykki menn leiðréttinguna, þá hafa þeir ekkert með það að segja hvernig þeirri upphæð sem lánin þeirra verða leiðrétt um, verði ráðstafað.
Þessir einstaklingar munu því styðja góðgerðarmál með eigin peningum úr eigin vasa. En ekki leiðréttingarpeningunum.
Samþykki þessir einstaklingar leiðréttinguna, mun hún að sjálfsögðu lækka hjá þeim lánin. Þessir einstaklingar hafa bara ekkert val hvað það varðar.
Þeirra eina val er að samþykkja eða ekki samþykkja leiðréttinguna. Svo er það einnig þeirra val, hvort þeir greiði úr eigin vasa til góðgerðarmála.
Samþykki þeir ekki leiðréttinguna, sem þeim finnst fáranlegt að hafa fengið, þá verða einfaldlega þeir fjármunir sem þeir áttu að fá eftir í ríkissjóði. Þeim fjármunum væri því vel hægt að forgangsraða til grunnþarfa þjóðfélagsins, eins og til heilbrigðismála, velferðarmála og menntamála. Svo eitthvað sé nefnt.
Einstaklingar sem eru svo góðir að þeir láti fé úr eigin vasa renna til góðgerðarmála, eru nú varla að fara að þiggja fé „óverðskuldað“ úr ríkissjóði. Sér í lagi ef að slíkt er gert með óbragð í munni.