Hryðjuverk eru úthugsuð og skipulögð. Markmið þeirra er að skapa andrúmsloft ótta og ringulreiðar. Skotmörk hryðjuverka eru ávallt annað og meira en fyrstu fórnalömbin. Hryðjuverk beinast gegn táknrænum en um leið oft tilviljanakenndum skotmörkum, oftast almennum borgurum.
Jakob Þór Kristjánsson.
Vestræn samfélög líta svo á að hryðjuverk séu óásættanleg þar sem þau ganga gegn viðteknum hefðum þegar leysa á deilur og ágreining. Meginmarkmið hryðjuverka er að hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir ríkisstjórna, eða einhverra tiltekinna samfélagshópa. Annað markmið er að sem flestir verði vitni að hryðjuverki á vettvangi eða í beinni útsendingu fjölmiðla, að sem flestir sjái ódæðið – horfi upp á fallna og særða – og grafa með þeim hætti undan trú almennings á að öryggi þeirra sé tryggt.
Ráðist gegn undirstöðum samfélagsins
Hryðjuverkahópar hafa pólitísk markmið, þeir hafa hinsvegar ekki unnið varanlega hernaðarsigra hingað til, en hryðjuverkahópum hefur tekist að þreyta ríkistjórnir og samfélög til samninga líkt og varð á Norður - Írlandi. Þó að hægt sé í grófum dráttum að skilgreina hryðjuverk sem einhverskonar hernað er augljós munur á þessu tvennu. Stríð eiga sér yfirleitt stað milli ríkja, hryðjuverkum er hinsvegar beitt gegn ríkjum í formi uppreisnar, ofbeldis á götum úti, skæruhernaði í borgum og jafnvel valdaráni.
Samþætting samfélaga er ekki aðeins nauðsynleg þar sem óöld ríkir heldur líka um veröld alla til þess að friður ríki og alþjóðalög séu virt.
Mýmörg dæmi eru um þetta í Mið-Austurlöndum og líka í Afríku, Evrópu, Asíu og Norður- Ameríku t.d. Nairobí 1998, New York 2001, London 2005, Boston 2013, Peshawar 2014 og nú í París. Oftar en ekki er ráðist gegn undirstöðum samfélagsins, lögum, tjáningarfrelsi, prentfrelsi, hornsteinum lýðræðisins. Rætur hryðjuverka eru oft í ríkjum þar sem ófremdarástand ríkir og stjórnvöld standa höllum fæti. Dæmi þessa höfum við séð í Afghanistan og nú í Írak og Sýrlandi. Áróður er eitt helsta vopn hryðjuverkahópa til þess að koma markmiðum sínum á framfæri, nútíma fjölmiðlun og netið léttir þeim það verk.
Vandinn vart leystur með hernaði
Hryðjuverkum er ætlað að skapa ringulreið í samfélaginu svo að lög og regla víki, þeim er ætlað að gera daglegt líf svo óbærilegt að stofnanir samfélagsins sem byggja á alþjóðalögum- og öryggi geti ekki brugðist við án þess að skerða almenn mannréttindi. Árásirnar beinast því oft að þeim grunnstoðum alþjóðasamfélagsins sem flest vestræn ríki telja best til þess fallin að stöðva hryðjuverk. Mörg vestræn ríki sjá ekki aðra leið en að bregðast við með hernaði þó vandinn verði vart leystur á þann hátt. Dæmi frá Afghanistan, Írak, Sýrlandi, Sómalíu og Palestínu sýna að herir eru ekki alltaf vel til þess fallnir að sigra hryðjuverkahópa þó þeir séu vel búnir hátæknivopnum.
Sigur á hugmyndafræði verður ekki unninn með vopnum einum saman. Samþætting samfélaga er ekki aðeins nauðsynleg þar sem óöld ríkir heldur líka um veröld alla til þess að friður ríki og alþjóðalög séu virt. Hér skipta fjölmiðlar miklu máli. Hvort það tekst er svo allt annað mál og á margan hátt undir okkur sjálfum komið – með penna að vopni.
Höfundur er sérfræðingur í alþjóðaöryggismálum og samskiptum.