Mikilvægt er að hagsmunaaðilar vandi umsagnir sem fara í samráðsgátt stjórnvalda. Allar forsendur útreikninga og útreikningarnir sjálfir verða að vera sem nákvæmastir ekki síst þegar viðfangsefnið er á sérsviði þeirra sem rita umsögnina.
Í samráðsgátt stjórnvalda er umsögn um drög að reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum frá Ísteka ehf. Á bls. 13 í umsögninni er fjallað um meint umhverfisáhrif af nýju reglugerðinni. Þar segir meðal annars:
„Kæmi til þess að skiptum til blóðtöku yrði fækkað úr 8 í 6, þá myndi það miðað við árið 2021 leiða af sér minnkun afurða um 13% að rúmmáli. Það segir þó ekki allt, þar sem blóðmagnið er ekki mælikvarði á magn hráefnis. Virkni blóðeininga er mjög mismunandi, þar sem ⅞ skipta hryssur eru með langmestu virknina yrði minnkun á virku hráefni um 22% þegar áhrif af ⅞ skipta hryssum hafa fjarað út.“
Þetta er ekki vönduð framsetning:
- Ísteka virðist ganga út frá því að vegna nýju reglugerðarinnar munu „áhrif af ⅞ skipta hryssum fjara út“. Það er frekar ólíklegt enda talsverð áhætta í því fólgin fyrir bændur að rækta einungis 6-skipta hryssur, ekki síst þar sem þær virðast ekki allar duga til 6-skipta sbr. það sem fram kemur í umsögn Ísteka. Þetta er eins og að halda því fram að kúabú skipti yfir í mjólkurminna kyn þar sem einingaverð á mjólk er fast.
- Þótt allir bændur bregði á það ráð í kjölfar nýju reglugerðarinnar að skipta yfir í 6-skipta hryssur tekur það langt á annan áratug að fullnýta þær ⅞-skipta hryssur sem nú eru til staðar auk þeirra sem verið er að rækta. Því sæjust litlar breytingar umfram þá 13% minnkun (skv. Ísteka) vegna nýju reglugerðarinnar fyrr en í lok næsta áratugar. Við þetta má bæta að blóðrúmmál sem tekið er úr hverri hryssu hefur aukist í áranna rás sem og fjöldi hryssa með tilheyrandi áhrifum á umhverfið og fátt segir að blóðmagn ársins 2021 sé rétt upphafsmagn eða upphafspunktur.
- Líklegt er að bændur haldi einmitt áfram að rækta hentugar blóðmerar (⅞ skipta merar) þrátt fyrir nýju reglugerðina því að það tekur 5 ár að rækta merar til blóðtöku samkvæmt henni og með þessu geta bændur minnkað óvissuna um hverjar þeirra verða vel til þess fallnar til blóðtöku.
- Loks er ekkert heilagt við verðskrá Ísteka og ekkert ólíklegt að 10. gr nýju reglugerðarinnar muni taka breytingum hvað verðlagningu varðar. Ekki er sjálfsagt að markaðsráðandi aðili ákveði verð til framleiðenda og ekki óeðlilegt að verðið verði ákveðið með svipuðum hætti og í öðrum greinum landbúnaðar þar sem einungis einn eða fáir kaupendur eru til staðar.
Fullyrðing Ísteka um að fjölga þurfi blóðmerum um meira en 1500 í kjölfar nýju reglugerðarinnar er því fráleit.
Að lokum er rétt að benda á að hormónið er í hámarksstyrk í blóði fylfullrar hryssu á 55.-70. degi meðgöngu en framleiðsla þess hefst á u.þ.b. 40. degi. Svo fyrsta blóðtakan er í kringum 40. dag og önnur blóðtakan í kringum 47. dag, þriðja í kringum 54 dag, fimmta í kringum 61, dag, 6. í kringum 68. dag. Við þriðju til sjöttu blóðtöku ætti því magn hormónsins að vera í hámarki en fara svo dalandi. Ef Ísteka telur að mesta hormónið komi í sjöunda og áttunda skipti blóðtöku má einfaldlega byrja að taka blóðið seinna, þ.e.a.s. í kringum 50. dag á meðgöngu.
Höfundar eru Guðrún Sch. Thorsteinsson hestaeigandi og læknir og Jón Sch. Thorsteinsson stærðfræðingur og framkvæmdastjóri.