Íslendingum hefur í gegnum tíðina þótt vænt um ríkisfjölmiðilinn sinn. Hann er hluti af sögu þjóðar. Flestar stærstu fjölmiðlastundir Íslendinga hafa haft ríkisútvarpið allt umlykjandi. Á hverjum degi snýr hluti þjóðarinnar sér til RÚV eftir fræðslu, fréttum og/eða afþreyingu. Sjálfur nota ég ríkismiðilinn þó nokkuð, sérstaklega útvarpið. Mér þykir vænt um hann. Finnst hann stundum hlutdrægur en þykir vænt um hann. Hvað sem væntumþykjuna varðar þá er hér eftir sem áður um að ræða ríkisstofnun sem verður að lúta þeim ramma sem henni eru sett. Ríkiseining sem á að vera í stöðugri endurskoðun. Ef aðrar leiðir að sömu markmiðum eru betri þá á að fara þær.
Í erfiðu árferði er ríkisframlagið hækkað
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Víða um land er ekki lengur veitt fæðingaþjónusta, takmarka þarf aðgengi að framhaldsskólum, dregið hefur verið úr viðhaldi vega, almenn læknaþjónusta er á hverfandi hveli. Það er veruleikinn. Í þeim veruleika hyggst núverandi ríkisstjórn nota 3 milljarða og 500 milljónir í rekstur ríkisfjölmiðils. Það er gert eftir að skuldir hans við ríkið hafa verið afskrifaðar upp á 2000 milljónir (frá 2006) og lagt því til um 570 milljónir í hlutafé þegar eigið fé þess var uppurið (2009). Og já…. framlög ríkisins –skattborgara- hafa hækkað um 485 milljónir frá 2013. Við sem notum RÚV gleðjumst yfir því að starfsemin skuli vernduð en vitum sem er að það er gert á kostnað annarrar þjónustu eða skattheimtu.
Tungumálið og lýðræðið í hættu
Stjórnarandstaðan heldur því fram að lýðræðisleg umræða og tungumálið sjálft sé í hættu ef útvarpsgjaldið verði lækkað um 1600 krónur á næsta ári (úr 19.400 niður í 17.800) og um 1400 krónur árið 2016 (úr 17.800 niður í 16.400). Þótt ég vilji RÚV allt hið besta þá held ég að það sé ekki rétt hjá stjórnarandstöðunni.
Pólitísk aðför
Hallgrímur Thorsteinsson núverandi ritstjóri DV og fyrrverandi starfsmaður RÚV segir að ríkisútvarpið sæti grimmilegri og grímulausri pólitískri aðför. Þótt sannarlega taki stjórnmálamenn ákvörðun um forgangsröðun þá held ég að þetta sé ekki rétt hjá Hallgrími.
Lýðræðið í hættu
Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur er sannfærður um að lækkun útvarpsgjaldsins sé til marks um óbilgjarnar árásir öfgasinna undir forystu Davíðs Oddssonar. Hann telur að fyrir þessu vonda fólki vaki að skapa sundrung og ala á hatri. Að RÚV sé það eina sem kemur í veg fyrir að illska þessa vonda fólks nái fram að ganga. Að hið góða eigi lögheimili í Efstaleitinu. Það að skerða framlög til RÚV sé eins og að leggja niður Esjuna. Það held ég að sé ekki rétt hjá Guðmundi Andra.
Hæðst að þingmönnum
Ingvi Hrafn Óskarsson formaður stjórnar RÚV og fyrrverandi formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna tekur hlutverki sínu eðlilega alvarlega. Hjá RÚV starfa um 300 manns við þá merku iðju að upplýsa, fræða og skemmta. Eðlilega reynir hann að tryggja fjármagn til reksturs. Bestu leiðina til að gæta hagsmuna RÚV telur stjórnarformaðurinn vera að hæðast að þingmönnum og skamma þá. Jafnvel má skilja sem svo að hann sé stoltur af því ef ríkismiðillinn er notaður til að veita þingmönnum „hirtingu“. Ég er ekki viss um að þetta sé besta leiðin.
Fleiri á leik B-liðs ÍBV og Þróttar en á samstöðufundi um RÚV
Viðbrögð starfsmanna RÚV við fjárlögum hafa verið sterk. Saman héldu þau á Austurvöll og kölluðu eftir samstöðu þjóðarinnar um RÚV. Á samstöðufundinn mættu um 300 manns. Um helmingi færri en mættu til að horfa á bikarleik B liðs ÍBV og Þróttar hér í Vestmannaeyjum. Ef til vill er það til marks um að þjóðin deili ekki með mér ánægju með RÚV. Ef til vill bendir það frekar til þess að RÚV sé að einangrast. Ná til minni og minni hluta þjóðarinnar. Sé að verða elítumiðill. Í ljósi þess að allir Íslendingar eru látnir greiða fyrir aðgengi að miðlinum þá þykir mér það slæmt. Jafnvel þótt sjálfur tilheyri ég þeim hópi sem þykir vænt um RÚV og sé dyggur notandi miðilsins. Sé ef til vill í elítunni með Hallgrími Thorst., Guðmundi Andra, Ingva Hrafni og starfsmönnum RÚV.
Tímamót
Veruleikinn er sá að ríkismiðlinn kann að vera á tímamótum. Þessi tímamót ætti hann að nota til að aðlaga sig að notendum. Reyna að ná stöðu einingar meðal þjóðarinnar. Forðast hlutdrægni í fréttaflutningi, teygja sig út til almennings, sleppa virkri þátttöku í dægurstjórnmálum og reyna heldur að miðla hlutlausum upplýsingum. Ríkismiðillinn okkar ætti aldeilis ekki að sjá það sem sitt hlutverk að „hirta“ þingmenn og krefjast hækkunar nefskatts á eigendur sína. Á þjóðina. Ríkismiðllinn ætti heldur að standa fyrir virku samtali við þessa eigendur um það hvernig hægt sé að aðlaga starfsemi og dagskrá að nýjum tíma og nýjum fjárhagsramma.
Eru aðrar leiðir að sama markmiði betri?
Á sama hátt ætti ríkið sem handhafi valds yfir þessari stofnun óhikað og á öllum tímum að endurskoða þörfina fyrir ríkisreksturinn. Ef aðrar leiðir en rekstur ríkisfjölmiðils skila betur því hlutverki sem ætlast er til af honum –upplýsa, fræða og skemmta- þá á óhikað að ígrunda þær leiðir. Skilgreina e.t.v. hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna. Verði það til þess að menningararfur sá sem Ríkisútvarpið ohf. hefur umsjón með verði gerður aðgengilegri almenningi þá er til mikils unnið.