Stjórnmálamenn hafa ekki verið vinsælasta stéttin á Íslandi frá því fjármálakerfið hrundi haustið 2008, en nú þegar forystumenn ríkisstjórnarinnar, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafa kynnt áform um leið út úr höftum og þrýstingi á gengi krónunnar vegna slitabúa föllnu bankanna, þá er tilefni til þess að staldra við og meta hvert við erum komin.
Margt bendir til þess, að nú sé að sjá til lands eftir mikla erfiðleika og tæknilega erfið úrlausnarefni, í næstum sjö ár frá hruni fjármálakerfisins. Staðan var fordæmalaus í efnahagssögu heimsins og óhætt að segja að hún hafi reynt á flest ef ekki öll þolgæði samfélagsins.
Nokkur atriði hafa skipt sköpum, þegar kemur að viðbrögðum við hruni fjármálakerfisins, sem má segja að myndi keðju atburða sem hafa lagt grunninn að þeirri endurreisn sem nú blasir við. Þar skiptir ekki sköpum hvaða flokkar það voru sem gerðu hvað, heldur frekar að þeir stjórnmálamenn sem voru í forystu á hverjum tíma, breyttu rétt. Og það sama má segja um eftirlitsstofnanir, eins og Seðlabanka Íslands.
Fáein dæmi eru nefnd hér, ef við horfum til tímans eftir hrunið:
-
Neyðarlögin hafa reynst algjör lykilaðgerð við endurreisnina, og markað veginn fram á við, með almannahagsmuni að leiðarljósi. Jafnvel þó ekkert annað hafi komið til greina, þá hefur gengið vel að vinna úr aðstæðunum sem sköpuðust. Endurreisn fjármálakerfisins hefur byggt á þessum aðgerðum, og nú er útlit fyrir að íslenska ríkið hagnist vel á því, þegar yfir lýkur, að hafa fengið kröfuhafana til að deila áhættunni af endurreisn bankanna með ríkinu. Þeir peningar skila sér til almennings, og raunar gott betur, þegar nýkynnt áform ríkisstjórnar ná fram að ganga. Samhliða öllu þessu var síðan endurreisn efnahags heimila og fyrirtækja, sem hefur gengið hraðar fyrir sig en flestir bjuggust við í kjölfar hrunsins.
-
Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lántökur frá erlendum þjóðríkjum hafa reynst vel, líkt og endurgreiðslur á þessum lánum hafa bæði gengið hraðar en margir óttuðust í upphafi. Þetta hefur hjálpað til við að endurheimta traust erlendis og einnig hér á landi.
-
Setning fjármagnshafta var neyðaraðgerð, en hefur reynst vel, að flestra mati þó vissulega séu þeir hagfræðingar til sem telji setningu hafta hafa verið mistök, enda er það líklega til of mikils mælst að sætta ólíka sýn hagfræðingana á hin margvíslegu mál.
Seðlabankinn hefur annast flókna framkvæmd þeirra, í samræmi við leiðsögn stjórnmálamanna með lögum. Þó höftin séu skaðleg til lengdar, þá var uppi neyðarástand sem höftin hjálpuðu til við að leysa úr, að mati flestra sérfræðinga. Í ljósi þeirra áforma sem nú hafa verið kynnt, þar sem ríkið mun lækka skuldir sínar stórkostlega og ná efnahagslegri viðspyrnu með því að bræða 300 milljarða snjóhengju aflandskróna, samhliða losun hafta, þá hefur þetta gengið upp að flestu leyti. Öll kurl eru þó ekki komin til grafar enn. Spilin hafa verið lögð á borðið, en lokafléttan er eftir.
- Síðast en ekki síst, þá virðist hin harða pólitíska rökræða um hvert landið er að stefna, eftir fordæmalausar ógöngur og hrun fjármálakerfisins, vera að leiða landið á rétta efnahagslega braut, hægt og bítandi, þó því fari fjarri að allir séu sáttir við stöðu mála. Í nær öllum kosningum frá hruni, bæði í landsmálunum og á sveitarstjórnarstigi, þá hafa orðið sögulegar niðurstöður og miklar breytingar. Sigurvegurunum í kosningunum á undan er hafnað, þrátt fyrir að hafa komið fjölmörgu til leiðar. Frá 2009 og til og með árinu 2014 var kosið fjórum sinnum, og var þetta leiðarstefið í öll skiptin; miklar breytingar, nýtt fólk til forystu á öllum stærstu vígstöðunum.
Margt bendir til þess að þessar erfiðu aðstæður sem eru uppi í landinu, og hafa verið undanfarin ár, geri kjósendur óþolinmóða, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og flokkshollusta sé miklu minni en hún hefur sögulega verið. Svo virðist sem okkur Íslendingum sé samt að takast að taka í stórum dráttum réttar ákvarðanir á lykilaugnablikum, með hjálp sérfræðinga, innlendra og erlendra, og það á tímum þar sem alþjóðamarkaðir hafa verið að ganga í gegnum mikla erfiðleika. Það er hollt að minna sig á þetta, því stundum er harkan í pólitísku dægurþrasi öllu öðru yfirsterkari.