Sláandi tölur birtust í skýrslu Northstack um fjárfestingar VC sjóða í nýsköpunarfyrirtækjum á Íslandi þann 13. janúar. Þar stóð að af þeim 25 fjárfestingum sem gerðar voru á árinu 2021 fór engin til kvenkyns stofnendateymis, 3 fóru í blönduð teymi og 22 í karlateymi. Í kjölfarið var bent á að fjárfest hafi verið í einu kventeymi og upplýsingarnar voru uppfærðar á Northstack. Þar með virtist málið vera útrætt. Afgreitt.
Síðan þá hefur staðið á viðbrögðum og umfjöllun um málið. Aldrei hefur jafn mikið fé runnið til VC sjóða á Íslandi og hefur verið fjallað um það án þess að nefna þessa öskrandi sniðgöngu kvenna í nýsköpun, eins og það sé aukaatriði, komi málinu ekki við. Fyrstu viðbrögð hjá sumum eru að leita skýringa úr umhverfinu. Eru nógu margar konur í nýsköpun? Hvað eru margar konur að útskrifast úr STEM fögunum (vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði)? Þarf ekki að hvetja fleiri konur í nýsköpun og fleiri konur í stjórnir VC sjóða?
Ef við byrjum á að skoða hvort konur séu að mennta sig í STEM greinum er svarið já. Konur voru 54% þeirra sem útskrifuðust með meistaragráðu af Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands árið 2019. Lægst var hlutfallið á rafmagns- og tölvuverkfræðideild eða 38%. Nýsköpun sprettur raunar úr öllum greinum og voru konur sem luku meistaragráðu í meirihluta í öllum öðrum deildum HÍ. Konur vantar ekki meiri menntun samanborið við karla, það er ljóst.
Sækja konur í nýsköpun? Til að kanna það liggur beinast við að skoða aðsókn í Tækniþróunarsjóð. Þar er reyndar ekki hægt að skoða samsetningu teymanna, en ef litið er til kyns verkefnisstjóra voru 32% umsækjenda konur. Allt bendir til að fjárfestingar í konum ættu að vera af stærðargráðunni tífalt fleiri.
Eru konur lélegar í að reka fyrirtæki? Rannsóknir gefa sterkt til kynna að nýsköpunarfyrirtæki leidd af konum nái betri árangri. Boston Consulting Group birti niðurstöður rannsóknar á 350 nýsköpunarfyrirtækjum yfir 5 ára tímabil undir yfirskriftinni Why Women-Owned Startups are a Better Bet árið 2018. Niðurstöður voru m.a. að nýsköpunarfyrirtæki leidd af konum skiluðu yfir tvöfalt meiri tekjum en fyrirtæki leidd af körlum, miðað við fjárfestingu. Að auki hafa lausnir kvenna ríkari fókus á umhverfis- og samfélagsábyrgð.
Á að hvetja fleiri konur til að stofna nýsköpunarfyrirtæki? Á meðan konur fá ekki tækifæri til að koma nýsköpunarfyrirtækjunum sínum í réttan farveg er ekki hægt að mæla með því við nokkra konu að leggja í þessa vegferð. Það þarf að byrja á hinum endanum, að treysta konum fyrir peningum, treysta þeim til að byggja upp öflug tæknifyrirtæki, þá fyrst er komin ástæða fyrir konur að velja nýsköpun og við lofum að það mun skila sér í betra samfélagi.
Kynjahlutfall fjárfestingastjóra sjóðanna er nokkuð jafnt svo ekki skýrir það út mismununina. Er þá ekki hægt að segja þessa ytri þætti afgreidda og fara að ræða af alvöru hvað sé að valda því að VC sjóðir fjárfesti síður í konum? Um alþjóðlegt vandamál er að ræða, VC fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum leiddum af konum féllu úr 2,8% árið 2020 í 2,3% 2021.
Mismununin kristallast mögulega í fleiri þáttum s.s. í verðmati á fyrirtækjum eftir kyni og hversu snemma hugmynd fær fjármögnun, það er því mikilvægt að mæla þessa þætti. Við teljum að VC sjóðir á Íslandi og Lífeyrissjóðirnir sem fjárfesta í þeim geti náð betri ávöxtun með því að sjá til þess að konur fái tækifæri. Að auki er svo ósvífin sniðganga kvenna í nýsköpun ekki samboðin landi sem trónir efst á heimslistum yfir kynjajafnrétti.
Íris Ólafsdóttir er stofnandi Kúlu 3D og Orb.green og fráfarandi stjórnarformaður Samtaka sprotafyrirtækja.
Fida Abu Libdeh er stofnandi GeoSilica og stjórnarformaður Samtaka sprotafyrirtækja.