„Misnotkun á valdi er misþyrming á lýðræðinu og einhver alvarlegasta birtingarmynd spillingar. Íslenskar rannsóknar- og eftirlitsstofnanir misstu stjórn á sér á eftirhrunsárunum. Réttindum fólks var vikið til hliðar og margir embættismenn stærðu sig af málafjölda við ákaft lófatak bloggheimafólks, fjölmiðla og stjórnvalda“.
Svona hefst eftirmáli bókar Eggerts Skúlasonar, Andersen skjölin- rannsóknir eða ofsóknir?. Í raun má segja að þessi málsgrein lýsi mjög skýrt skoðun Eggerts á því hvað hafi átt sér stað hérlendis eftir bankahrunið.
Eggert Skúlason.
Að múgæsingur, sem hermenn umræðunnar hafi kynt undir, hafi þrýst á að einhverjir yrðu látnir bera ábyrgð á hruninu. Að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi í kjölfarið ætlað sér að gera upp bankahrunið með aðstoð lögreglu og ákæruvalds. Að Gunnar Andersen hafi síðan verið ráðinn forstjóri Fjármálaeftirlitsins til að búa til sakamenn úr öllum bankamönnunum og embætti sérstaks saksóknara notað til að annað hvort hafa af þeim æruna með lekum eða til að koma þeim í fangelsi. Leiðitamir og prinsiplausir fjölmiðlar hafi spilað undir á lúðra og tekið undir ofsóknirnar að ósekju. „Segja má að við fall bankakerfisins hafi „ástarsamband“ margra fjölmiðlamanna við bankana, þessi alþjóðlegu landvinningarfyrirtæki, breyst í hatur. Endurspegluðu þeir vitaskuld huga almennings í þessu efni,“ segir Eggert í bókinni.
Niðurstaðan sé nokkurs konar réttarmorð sem framtíðin muni verða nefnt í sömu andrá og Guðmundar- og Geirfinnsmálin þegar þjóðin skammast sín yfir lögleysunni sem stemmning samtímans kallaði yfir blásaklaust fólk.
Um þessa sýn fjallar bók Eggerts. Og um Gunnar Andersen.
Gunnar Andersen var á endanum rekinn úr forstjórastóli Fjármálaeftirlitsins, ákærður og dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi.
„Rannsóknargeggjun“ og stemmningskýrslur
Söguskoðun Eggerts er í raun ekkert ný. Og hún endurspeglar það sem margir viðmælenda hans í bókinni hafa áður haldið fram á opinberum vettvangi. Tónninn er sá að hér hafi runnið á landann „rannsóknargeggjun“ og til að kynda undir hana hafi verið skrifuð „stemmningsskýrsla“ af rannsóknarnefnd Alþingis. Þetta sjáist meðal annars af því að viðbrögð Íslendinga við sínu efnahagsáfalli sé mun ofstækisfyllra en annarra landa.
Það er auðvelt að selja þessa einföldu söguskoðun ef ekki væri fyrir staðreyndir. Ein staðreyndin er sú að aldrei áður í heimssögunni hafa bankar og fylgitungl þeirra sett heilt samfélag á hliðina. Aldrei áður hefur bankakerfi verið meira en tíu sinnum stærra en þjóðarframleiðsla ríkisins sem hýsti það. Samanlagt er gjaldþrot íslensku bankana eitt stærsta gjaldþrot sem orðið hefur í heiminum. Aðrar þjóðir hafa ekki sett upp rannsóknarnefnd sem skrifaði 2.300 blaðsíðna skýrslu þar sem allri bankaleynd var aflétt og allir gjörningar banka- og athafnamanna opinberaðir hverjum þeim sem nennti að lesa.
Skýrslan er ekki gallalaust verk og í henni var að finna staðreyndarvillur. En sú heildarmynd sem skýrslan dró upp og þær fléttur sem hún sýndi hafa ekki verið dregnar í efa og tilurð þeirra er erfitt að hafna. Þar er lýst athöfnum sem fullt tilefni er að ætla að séu mögulega umboðssvik, innherjasvik, markaðsmisnotkun, fjárdráttur og ýmis konar önnur brot.
Þar sem flest hinna ætluðu brota eru fordæmalaus er eðlilegt að dómstólar skeri úr um hvort athafnirnar, sem ekki er deilt um að hafi átt sér stað, séu ólöglegar. Margar þeirra juku á vanda íslensks efnahagslífs og sá vandi lenti af fullum krafti á íslenskum almenningi eftir hrunið.
Og í nánast öllum þeim hrunmálum sem lokið hefur með dómi Hæstaréttar hefur verið sakfellt. Stóra undantekningin er Vafningsmálið svokallaða.
Stjórnvöld og múgæsingarfólkið
Eitt megin einkenni skoðunar Eggerts á eftirhrunsárunum er að ákveðið pólitískt hólf álitsgjafa og stjórnmálamanna séu einhverskonar gerendur í þeim ofsóknum sem margir hafa orðið fyrir. Á meðal þeirra sem hann telur til eru Guðmundur Andri Thorsson, Þorvaldur Gylfason, Hallgrímur Helgason, Gylfi Magnússon, William Black og auðvitað ætluð forsetahjón múgæsingarinnar, þau Egill Helgason og Eva Joly. Til viðbótar nafngreinir Eggert slatta af Moggabloggurum. Þau áttu að hafa skapað stemmninguna með umræðuþátttöku og ný ríkisstjórn Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur gripið hana og beitt fyrir sig sem pólitísku vopni.
Nokkrir veikleikar blasa við á þessari söguskýringu. Það var til að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hin svokallaða hrunstjórn, sem setti á fót embætti sérstaks saksóknara, samdi um starfslok Jónasar Fr. Jónssonar sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins sem rýmdi fyrir Gunnari Andersen og fór fyrir lagasetningu um skipan rannsóknarnefndar Alþingis með öllum þeim heimildum og afléttingu bankaleyndar sem henni fylgdi. Hún lagði því grunninn af því sem koma skyldi.
Eva Joly fær ekki háa einkunn hjá Eggerti Skúlasyni.
Óprúttnir fjölmiðlar
Þáttur fjölmiðla í ofsóknunum fær nokkuð mikið vægi í bók Eggerts. Þar eru til að mynda tvær ótrúlegar sögur, hafðar eftir ónafngreindum fyrrum fréttamönnum, um starfshætti fréttastofu Stöðvar 2. Önnur snýst um að fréttamaður hafi fundið gögn í anddyri Fjármálaeftirlitsins vorið 2009 sem innihéldu nöfn aðila sem átti að framkvæma húsleit hjá. Þetta hafi fréttastofa Stöðvar 2 notað sem skiptimynt til að koma á „góðu samstarfi“ við Fjármálaeftirlitið. Það hafi reynst „gifturdrjúg ákvörðun fyrir fréttastofu Stöðvar 2“, segir Eggert.
Hin sagan segir af fréttamanni Stöðvar 2 sem hafi fengið viðtal við Stefán Skjaldarson, þáverandi skattrannsóknarstjóra. Samkvæmt bókinni gekk fréttamaðurinn út „með sjö fyrstu fréttir“.
Þessar sögur verður að skýra nánar. Ef fréttastofa er að gera samkomulag við eftirlitsstofnun um upplýsingaflæði umfram aðra þá er það beinlínis í andstöðu við fjölmiðlalög. Fyrir utan að vera algjörlega út í hött og að brjóta flest öll prinsipp blaðamennsku. Enda hljóma þessar sögur ótrúlega.
Eggert segir hins vegar að margir fjölmiðlamenn hafi myndað trúnaðarsambönd við alls konar ónafngreint fólk innan eftirlitsstofnanna og tekið þau trúnaðarsambönd, sem tryggðu stanslaust flæði frétta, fram yfir það að segja satt og rétt frá. Nú er vert að minnast á að Eggert ritstýrir í dag fjölmiðli (DV) og er margreyndur fjölmiðlamaður. Það er miður hversu litla trú hann hefur á stétt sinni og starfsmönnum. Þetta er reyndar sjónarmið sem oft hefur komið fram hjá mönnum sem eru sakborningar í sakamálum og lögmönnum þeirra. En stenst sjaldnast skoðun.
Í raun virðist sem eini fjölmiðillinn sem Eggert sé sáttur við á þessu tímabili sem er til umfjöllunar í bókinni sé vefmiðillinn Pressan, sem var og er að stærstu leyti í eigu Björns Inga Hrafnssonar, útgefanda DV og yfirmanns Eggerts.
Eggert segir að fjölmiðlar hafi tekið þátt í ofsóknunum með því að birta nöfn og myndir af þeim sem voru til rannsóknar hverju sinni. Í þessu ljósi er mikilvægt að hafa í huga að öll nöfn voru birt og allri bankaleynd var aflétt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem var til sölu í öllum bókabúðum og sat á toppi metsölulista, auk þess sem hún er aðgengileg án endurgjalds á internetinu. Það var, og er, ábyrgðarhluti hjá fjölmiðlum að fjalla um málið með sama hætti í kjölfarið, og fjarstæðukennt að gera þá kröfu á lesendur að þeir hafi rannsóknarskýrsluna til hliðsjónar þegar þeir eru að lesa fréttir um þau mál sem tilgreind eru í skýrslunni. Auk þess er ekki til það vestræna ríki í heiminum þar sem fjölmiðlar birta ekki myndir af mönnum sem grunaðir eru um stórfellda efnahagsglæpi.
Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis skilaði skýrslu í apríl 2010. Í henni var bankaleynd aflétt af gjörðum innan gömlu bankana og allir þátttakendur í þeim nafngreindir.
Gunnar og aflandsfélögin
Vert er að taka fram að minnst er á greinarhöfund á einum stað í bókinni. Þar er látið liggja að því að hann hafi ekki sýnt því áhuga að opinbera aðkomu Gunnars Andersen að aflandsfélögum Landsbankans með því að þiggja gögn á fundi sem haldin var síðla árs 2011 frá hópi sem safnað hafði slíkum saman. Þau gögn hafi síðar verið uppistaðan í fréttaskýringu Kastljóss um sama mál, sem hafi ýtt af stað ferli sem endaði með brottrekstri Gunnars. Margt í þessari frásögn er ekki rétt.
Tengsl Gunnars við aflandsfélög höfðu verið mikið í fréttum á þessum tíma, sérstaklega eftir að Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns Þ. Árnasonar, vakti athygli á þeim í þrumuræðu yfir fjölmiðlamönnum í portinu fyrir aftan héraðsdóm í janúar 2011, í kjölfar þess að Sigurjón hafði verið hnepptur í gæsluvarðhald. Erfitt var að sjá að umrædd gögn bættu neinum nýjum upplýsingum við um aðkomu Gunnars að aflandsfélögunum og í ljósi þess að sá sem bauð gögnin var greinilega mjög uppsigað við Gunnar leið greinarhöfundi eins og um hannaða atburðarrás væri að ræða til að koma höggi á hann. Auk þess hefur greinarhöfundur fengið staðfest að umfjöllun Kastljóss nokkrum mánuðum síðar hafi alls ekki byggt einvörðungu á umræddum gögnum, heldur mun víðtækari rannsóknarvinnu.
Kerfið virkar
Auðvitað fjallar bókin, nokkuð ítarlega, um starfstíma Gunnars Andersen í stóli forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Þar er rakið að Gunnar var yfirlýsingarglaður um árangur rannsókna sinna á hrunmálum, að hann klíndi ásökunum um eigið vanhæfi sökum tengsla við aflandsfélög Landsbankann á það að gagnrýnendur hans vildu koma á hann höggi, að hann hafi lekið gögnum, verið ákærður og dæmdur.
Og það var rétt ákvörðun hjá stjórn Fjármálaeftirlitsins að segja Gunnari Andersen upp störfum. Hæfi hans til að gegna starfi forstjóra var alls ekki hafið yfir allan vafa vegna aflandsfélagatengsla hans og þegar hann var kærður til lögreglu vegna leka á gögnum úr Landsbankanum um viðskipti þingmanns sem hann vildi koma höggi á var brotthvarf hans algjörlega meitlað í stein. Gunnar var síðar dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þann verknað. Sömuleiðis hefur embætti sérstaks saksóknara fellt niður um helming þeirra hrunmála sem Fjármálaeftirlitið sendi til þess. En allt þetta hefur legið fyrir í nokkur ár og sýnir að ef menn brjóta af sér í opinberu starfi þá er þeim refsað. Kerfið virkaði.
Í bókinni er líka fjallað um nokkra menn sem fengu stöðu sakborninga sem síðar hefur verið aflétt. Afstaða þeirra, og reiði, er skiljanleg. Best væri að þeir myndu allir gera eins og Ingólfur Guðmundsson, sem varð að hætta sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs verkfræðinga að kröfu Fjármálaeftirlitsins, og fara í mál. Ingólfur vann nefnilega sitt mál. Og sýndi þar með að kerfið virkaði.
Sögubarátta
Bók Eggerts er nokkuð lipurlega skrifuð og heldur lesandanum vel. Hún fer vel yfir starfstíma Gunnars Andersen í Fjármálaeftirlitinu og frásagnir þeirra einstaklinga sem voru til rannsóknar, og urðu fyrir tjóni vegna þess, eru áhugaverðar. Sömuleiðis eru sögur sem vekja athygli fyrir að vera nánast reyfarakenndar. Meðal þeirra er sagan af fyrrum starfsmanni Fjármálaeftirlitsins sem ætlaði að selja Hreiðari Má Sigurðssyni gögn á bílastæðinu fyrir utan Árbæjarkirkju.
En þrátt fyrir að aðaltitill bókarinnar sé Andersen-skjölin þá finnst manni að Gunnar Andersen og mennirnir sem segja sögu sína vera í ákveðnu aukahlutverki. Helsti tilgangur bókarinnar sé að koma á framfæri þeirri skoðun höfundar bókarinnar, og núverandi ritstjóra DV, að íslenskar eftirlitsstofnanir séu rotnar, að ákæruvaldið sé rotið, að fjölmiðlarnir séu rotnir og réttarkerfið sé rotið. Að allar þessar stoðir, með hjálp rotinna stjórnmálamanna og rotinna álitsgjafa, sé ástæða þess að menn hafi verið rannsakaðir og dæmdir fyrir fordæmalaus lögbrot hérlendis.
Svo er líka hægt að hafa þá skoðun, eftir að hafa kynnt sér hin meintu lögbrot og þau ótrúlega athæfi sem áttu sér stað í aðdraganda hrunsins, að þar geti verið um mjög stórfelld lögbrot að ræða sem höfðu samverkandi miklar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Og að réttur farvegur fyrir slík mál sé að þau séu rannsökuð, ákært sé í þeim sem tilefni þykir til og að dómsvaldið taki síðan afstöðu til þeirra.
Um þetta snýst sú barátta um söguna sem nú stendur yfir.